Það var óskaplega fallegt veður úti
þegar ég vaknaði um kl. 3:30 aðfaranótt laugardagsins. Úti var
heiðskýrt, blæjalogn, hlýtt og smá þokuhnoðrar í Esjunni.
Betri gátu aðstæður ekki verið fyrir komandi dag. Ég hafði
reyndar ekki sofið allt of vel um nóttina. Upp úr miðnætti lenti
kötturinn okkar í miklum hávaðaslagsmálum við einhvern
aðkomuribbalda úti á bílastæði. Lætin í þeim gerðu hundinn
í næstnæsta húsi vitlausan svo hann gelti allt hvað af tók.
Geltið í honum vakti smábörn í einhverju húsi sem grétu
ákaflega. Það má því segja að kettirnir hafi komið hverfinu í
uppnám um stund. Ég hafði ákveðið síðla vetrar með nokkrum
Rotarryfélögum að fara 10 ferðir á Esjuna til stuðnings baráttu
Rotary gegn lömunarveiki í nokkrum löndum þriðja heimsins. Það hafði hist svo skemmtilega á að
bjartsýnis- og framkvæmdafólkið Elísabet, Daníel Smári og
Sigurður höfðu skipulagt fyrsta Esjumaraþonið sama daginn. Ég hafði fyrst
svolitlar áhyggjur af að það gengi ekki að tvinna þetta tvennt
saman en svo hurfu þær og ég skráði mig í 10 hringja
hlaupið. Ég rann að vísu blint í sjóinn hvernig ég væri í
stakk búinn til að takast á við þetta verkefni. Bæði var ég
nýlega búinn að hlaupa GUCR hlaupið í Bretlandi og síðan var
ég ekkert sértaklega vel Esjuæfður. Ég fór í fyrsta sinn á
Esjuna í vor fyrir mánuði síðan. Samtals hafði ég farið sex
sinnum á fjallið. Tvisvar eina ferð, þrisvar tvær ferðir og eina
fjögurra ferða ferð. Eftir fjögurra ferða túrinn þá vissi ég
að ég gæti lokið 10 ferðum. Ef maður lýkur 40% af hlaupi í
góðum gír á æfingum, þá á maður að komast næstu 40% með
þokkalegum hætti og svo fer maður rest á þrjóskunni. Þetta var
hins vegar spurning um tíma. Ég setti mér það markmið að fara
tíu ferðir undir 14 tímum. Það viðmið var sett þar sem ég
hafði heyrt að það hefðu verið farnar sjö ferðir á Esjuna
fyrir nokkrum árum á 14 tímum. Mér fanst því tilvalið að
stefna að 10 ferðum á sama tíma. Planið var að fara hverja ferð
upp og niður að jafnaði á klukkutíma og korteri. Svo tekur
smátíma að fara aukahringinn niðri og alltaf tekur einhvern tíma
að næra sig og græja á drykkjarstöðinni en þetta ætti að
ganga upp.
Ég plástraði fæturnar vel og
sérstaklega hælana áður en lagt var af stað. Það er vont að fá skafsár á hælana í
fjallgöngum, sérstaklega ef maður á langt eftir. Ég skipulaði
næringuna vel en reynslan hefur kennt mér að það er affarasælast að
vera sem mest sjálfbjarga í þeim efnum. Uppi við Esju var allt að
verða klárt. Skipuleggendur, starfsfólk og keppendur mættir. Við
vorum fjórir sem ætluðum að þreyta þessa frumraun. Rétt um kl.
5:00 var hlaupið ræst og ákveðin óvissuferð hófst. Það var
smásvalt í byrjun en það breyttist fljótt þegar brekkurnar tóku
við. Þá var svitinn fljótur að spretta fram. Þeir Sigurður og
Þorlákur voru léttir á brekkkuna, þá kom Birkir og ég rak
lestina. Það olli mér ekki áhyggjum. Ég fer yfileitt hægt af stað í löng hlaup. Það getur margt gerst á
langri leið. Sólin var að koma upp þegar við vorum í brekkunum
og það leit út fyrir að þetta gæt orðið heitur dagur. Logn og
heiðskýrt. Þegar komið var upp að Steini var strikað á
númerið og svo var rúllað niður. Strákarnir voru miklu
grimmari í niðurhlaupinu en ég svo þeir hurfu fljótlega. Ég var
ekki viss um hvernig staðan væri í lærunum svo ég vildi varast
að bræða úr þeim í upphafi. Þegar ég var að komast niður þá
mætti ég Þorláki. Hann var orðinn fyrstur og hélt þeirri stöðu
til loka hlaups. Síðan tók hver hringurinn við á fætur öðrum.
Daníel hlaupafélagi slóst í hópinn á þriðja hring og fór
þrjár ferðir með mér. Það var fínt að hafa einhvern með til
að spjalla við öðru hverju. Rotarymenn voru mættir í lok þriðja
hrings. Þeir settu upp tjald fyrir daginn og voru með kynningarefni
og annað fyrir áhugasama. Í lok fjórða hrings þá hringaði
Þorlákur mig. Hann var mjög léttstígur á brattann og rann
lipurlega niðurímót.
Það hitnaði vel í fjallinu þegar
leið á morguninn. Samt var veðrið óskaplega gott. Smá svali af
og til en annars logn. Það var bara að passa sig á að að
drekka vel og reglulega. Ég tók Herbalife prótei hristing á ca þriggja tíma fresti.Oft tók ég með mér orkukex til að maula þegar ég var að fara frá Steini. Það þarf einnig að hugsa um magann og gæta þess að hann tæmist aldrei. Ég fór fram úr Birki á fimmta hring.
Hann sagðist hafa verið frekar illa fyrirkallaður og var farinn að
þreytast.
Á sjötta hring varð ég dálítið
áhyggjufullur. Þá varð ég allt í einu orkulaus á leiðinni upp. Ég þurfti oft
að stansa upp brekkurnar og safna kröftum. Mér leist ekki á
þetta. Ef ég væri kominn í vegginn þá ætti ég langa og erfiða
leið fyrir höndum. Loks komst ég upp að Steini og gat farið að
anda léttar (í bili). Þegar ég kom niður borðaði ég vel, tók
orkugel, drakk mikið kók og gerði hvað ég gat og kunni til að
rétta af orkubalansinn. Það kom í ljós að þetta dugði. Nú
gat ég haldið sama dampi og áður upp brekkurnar. Ég fann
fyrir örlitlum sinadrætti af og til eftir fimmta hring. Það var ekkert annað að
gera en að drekka vel og taka steinefnatöflur í brúsann.
Það hreif og sinadrátturinn hvarf. Það er ógaman að fá
sinadrátt í fæturna þegar maður er á léttu rennsli niður í
mót. Guðni Rotaryfélagi fór með mér tvær ferðir. Við höfðum
verið saman í fótbolta úti í Kaupmannahöfn forðum daga í
Íþróttafélaginu Guðrúnu. Hann var minnugri en ég því ekki
þekkti ég hann aftur. Svona er þetta. Það fjölgaði hressilega
í fjallinu þegar fimm hringja hópurinn lagði af stað. Þar var
tekið á því. Það var miklu skemmtilegra að vera í fjallinu
þegar fjölgaði í hópnum. Menn heilsast og hvetja hver annan.
Einnig var töluverð umferð gangandi fólks yfir daginn. Þar hittir maður yfirleitt einhvern kunnugann. Síðan fjölgaði aftur hressilega þeggar tveggja hringja fólkið
lagði af stað um kl. 14:00. Þar fóru menn mikinn upp og hlupu
síðan niður brekkurnar með látum. Fyrstu menn hlupu upp
brekkurnar eða rótuðust áfram í framdrifinu með stöfum. Þá
var ekki mikið heilsað!!!
Það er alltaf svo að niðurtalningin
er léttari þegar fyrri hlutinn hlaupsins er liðinn. Þá er farið
að hilla undir lokin. Hringirnir liðu einn af öðrum og ég sá að
sett markmið myndi nást ef ekkert kæmi upp á. Það eina sem
pirraði mig var að stundum var maður dálítið lengi að finna
það sem maður þurfti á að halda í dótinu. Smátafir í hverju
drykkjarstoppi draga sig saman þegar upp er staðið. Ég mætti
Þorláki í upphafi áttunda hrings. Þá var hann að klára.
Frábært hjá honum. Sigurði mætti ég í upphafi níunda hrings
þegar hann var að ljúka hlaupinu. Það var gaman að leggja í
síðasta hringinn og sjá fram á lokin. Þetta hafði verið frábær dagur og allt
gengið eins og best var kosið. Ég kvittaði í gestabókina uppi
með hringjunum 10. Það mátti ekki minna vera en að festa þetta í letur í gestabók FÍ. Ég lagði inn í
síðasta hringinn upp úr hálf sex og með sama dampi myndi ég ná
í mark undir 14 tímum. Það stóð heima og síðasti hringurinn
tók klukkutíma og kortér eins og planið var. Ég kom í mark á
13.50 sem ég var hæst ánægður með. Ég var afar ánægður með
stöðuna á fótunum. Ekkert hafði komið upp á. Engin blaðra
hafði myndast og engin nögl horfið. Lærin voru mjúk og fín og
kálfarnir eins og þeir áttu að sér. Ég hafði haldið að mestu jöfnum og góðum dampi yfir allan daginn. Þetta var mun betra en ég
átti von á því ekki hafði ég æft svo mikið eða skipulega
fyrir þetta. Þess vegna hefði ég getað haldið áfram. Það er
óhætt að segja að 10 hringir á Esjunni standa mjög vel undir
nafni sem fullorðið ofurhlaup. Þótt kílómetrarnir séu 70 þá
segir það einungis hluta af sögunni. Brattinn skiptir svo miklu
máli í öllu samhenginu. Það var óvænt ánægja að hitta mömmu
og Heiðu frænku við markið. Mamma hefur stundum verið svolítið
áhyggjufull yfir að ég væri að ofgera mér í svona dæmum en
þarna fékk hún að sjá ástandið á syninum þegar hann kom yfir
marklínuna. Móttökurnar í markinu voru fínar og flott verðlaun voru veitt.
Það er alltaf ágætt þegar svona þrautir eru yfirstaðnar. Á
hinn bóginn er mismikil eftirsjá að svona dögum. Þetta var afar
fínn dagur. Veðrið eins og ég veit ekki hvað, umhverfið og
umgjörðin frábær og fagmennska og metnaður við framkvæmdina.
Starfsfólkið hjálpsamt og allt eftir því. Bros á hverri vör.
Þannig á þetta að vera.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli