fimmtudagur, júlí 19, 2012


Kosningar eru oftast skemmtilegar. Þó geri ég undantekningu hvað varðar kosninguna til stjórnlagaþings fyrir nokkru. Ég hafði engan áhuga fyrir henni og svo var um marga fleiri miðað við kosningaþátttökuna (35%). Nýafstaðnar forsetakosningar voru áhugaverðar um margt. Í þeim var gerð alvöru atlaga að sitjandi foseta sem gaf kost á sér til áframhaldandi setu eftir nokkuð sérkennilegan aðdraganda. Það þurfti að rýna nokkuð fast í glæðurnar í áramótaávarpinu en þar var engum dyrum lokað þegar grant var skoðað. Það var vitað mál að þau öfl í samfélaginu sem voru ósátt við aðgerðir forsetans í Icesafe málinu myndu gera gangskör að því að finna kandidat sem gæti sigrað hann í kosningum. Aðdragandi þess var vægt sagt ótrúverðugur. Gerð var skoðanakönnun (ein eða fleiri) þar sem kannað var hver þætti vera öflugastur kandidat. Þar skoraði hæst þekkt og vinsæl sjónvarpskona. Þrátt fyrir að hún væri komin á steypirinn og ætti að fæða í miðri kosningabaráttunni var greinilega þrýst mjög á hana að gefa kost á sér. Hún lét til leiðast og skoraði hátt í skoðanakönnunum fyrsta kastið. Vafalaust lét hún tilleiðast vegna þess að hún sá fram á sigur í kosningunum miðað við stöðuna í skoðanakönnunum síðla vetrar.
Ég hef ekki alltaf verið sáttur víð Ólaf Ragnar Grímsson. Það átti bæði við í tíð hans sem formanns Alþýðubandalagsins svo og eftir að hann var kjörinn forseti. Það á þó við í þessu efni eins og mörgu öðru að það verður að meta sterkar og veikar hliðar í öllum málum. Eftir framgöngu forsetans í Icesafemálinu og hvernig hann tók málstað íslensku þjóðarinnar á erlendum vettvangi eftir að stjórnvöld virtust gersamlega máttlaus og getulaus á því sviði þá var það ekki vafi í mínum huga að ég myndi greiða honum atkvæði. Það skiptir miklum máli að hafa öflugan þjóðhöfðingja sem getur talað máli þjóðarinnar á erfiðum stundum.
Það kom klárlega í ljós í umræðum í aðdraganda kosninganna að það er engin tilviljun að aldurstakmark við kjörgengi til forsetaembættisns er sett við 35 ár. Mér fannst skína í gegn að Þóra Arnórsdóttir hafði alls ekki þá reynslu og þroska til að bera til að geta risið undir því að vera kosinn forseti. Margir segja að það skipti ekki svo miklu máli hve sé kosinn forseti en ég er einfaldlega ósammála því. Þjóðhöfðingi verður að hafa ákveðinn myndugleika, búa yfir margháttaðri reynslu og hafa sýnt það að hann standi undir því að vera falin ábyrgð og forysta. Síðan fannst mér það svo merkilegt að því meir sem Þóra talaði því minna sagði hún. Einhvern veginn læðist sú skoðun að manni að framboðið hafi að miklu leyti verið hannað af svökölluðum markaðssetningarsérfræðingum og hún hafi ekki fengið tækifæri til að vera hún sjálf. Svo merkilegt sem það var þá var hún í vörn frá og með fyrsta degi eftir að Ólafur Ragnar steig fram á sviðið að fullri alvöru. Hann kunni þetta allt saman. Síðan er annar hlutur sem mér finnst skipta miklu máli í þessu samhengi. Að fara fram á það við konu sem er komin á steypirinn að taka þátt í harðri kosningabaráttu finnst mér vera fyrir neðan allt sem sæmilegt er. Auðvitað eru nógir um að halda lífi í barninu og sinna því ef það er eina markmiðið. Kosningabarátta er hins vegar ekki einhver 9-5 vinna. Hún er þrotlaust púl og stress allan sólarhringinn, ferðalög og þvælingur, taugaspenna og áreiti. Konur sem eru komnar á steypirinn og eða nýbúnar að fæða eru undir miklu álagi vegna þess eins þótt svo að allt hitt bætist ekki ofan á. Ekki meir um það. Ég hefði síðan aldrei kosið frambjóðenda til forseta sem á maka sem er á sakaskrá samkvæmt því sem fram kom í fjölmiðlum. Það er mjög einfalt og í raun stórfurðulegt að upphafsmenn framboðsins skuli ekki hafa ígrundað þá hlið málsins. Vitaskuld hlaut það allt að koma upp á yfirborðið. Það var reynt að berja umræðu um það niður með því að kalla það persónulegar árásir og annað slíkt en auðvitað var það gagnslaust. Síðan voru örþrifaráð eins og Þórudagur, Þórupylsur, Þóru hitt og Þóru þetta bara til að gera framboðið hlægilegt í augum margra. Það var eins og upp væri sprottinn sértrúarsöfnuður sem hafði fundið sinn leiðtoga.
Hvað aðra frambjóðendur varðar þá hefði ég aldrei getað kosið Ara Trausta og mun aldrei gera. Ég virði hann sem fræðimann, fagmann og rithöfund en ég hef ekki séð að hann hafi gert upp kommúnistiska fortíð sína. Sem formaður Einingarsamtaka kommmúnista (EIK) á sínum tíma var hann enginn venjulegur kaffihúsakommi. Formaður í byltingarsinnuðum kommúnistasamtökum er enginn venjulegur vinstri maður. Ég er ekki tilbúinn til að styðja einstaklinng með slíka fortíð til forsetaembætts þjóðarinnar. Flóknara er það ekki. Það kom mér á óvart hvað Herdís Þorgeirsdóttir fékk lítið fylgi.Sama og ekki neitt. Mjög snemma fékk maður að heyra úr öllum áttum að hún væri svo frek og leiðinleg að það væri ekki hægt að púkka upp á hana. Ég veit ekkert um það. Einnig heyrði maður fljótt að hún væri ekki alvöru lögfræðingur þótt svo hún kallaði sig svo. Þetta hafði ég meir að segja frá lögfræðingum. Það var fljótgert að ganga úr skugga um að þetta var þvæla. Hún er hdl með fullum réttindum. Það kom síðan í ljós í kosningunum að hin svokölluðu Hagsmunasamtök heimilanna eru bara lítill þröngur hópur. Ef samtökin væru fjöldasamtök hefði formaðurinn ekki fengið einungis 1,eitthvað % atkvæða. Samtökin virðast því einungis vera lítil en hávær klíka sem að mínu mati skreyta sig nafni sem þau standa ekki undir. Formaðurinn fór einnig út um víða völl án þess að vita hvað hún var að segja eins og þegar hún sagðist sem forseti leysa ráðherra frá störfum ef þjóðinni sýndist ástæða til þess. Maður getur rétt ímyndað sér stjórnarfarið er forsetinn væri að ráða og reka ráðherra eftir niðurstöðum skoðanakannana. Ég ætla ekkert um Hannes að segja. Hann átti vitaskuld aldrei séns enda hömpuðu fjölmiðlar honum ekki eins og ýmsum öðrum. Hann er vafalaust ágætis maður sem hefur viljað vel.
Sem sagt, kosningar eru alltaf skemmtilegar og gefa tækifæri til margháttaðra vangaveltna. Á hinn bóginn má aldrei gleyma því að niðurstaða úr lýðræðislegum kosningum er ætíð rétt. Fólk getur verið ósátt við niðurstöðuna en hún er rétt ef farið hefur veruið eftir gildandi reglum þar um. Flóknara er það ekki. Það má hins vegar ekki gleyma því að það er ekki sjálfsagt að hafa réttindi til að kjósa. Almenningur í fjölmörgum þjóðríkjum heimsins hefur ekki þann rétt. Því eigum við að umgangast hann af virðingu.  

Engin ummæli: