fimmtudagur, janúar 27, 2005

Hljóp ekkert í gærkvöldi þar sem góðir gestir komu í heimsókn. Því hleyp ég í kvöld og á föstudagskvöldið enda þótt það átt að vera hvíldardagur. Manni líður eins og kálfi á vordegi að hlaupa á auðum gangstéttum miðað við að þrælast á snjóruðningum og svellbunkum liðinna vikna og mánaða. Annars hef ég sett mér það markmið fyrst í stað að hlaupa langt á laugardögum og sunnudögum (samtals 55 - 60 km), hvíla mánudaga og föstudaga og skokka síðan frekar stutt þá þrjá daga sem eftir eru. Þetta er prógrammið sem unnið verður eftir allavega tvo fyrstu mánuði ársins með dálítilli lengingu á helgarhlaupum eftir því sem birtir af degi. Þegar fer að verða hægt að hlaupa af meira viti úti ætla ég einnig að fara að keyra markvissar á hraðaæfingar. Ég er búinn að fá mér kort í Nautilus stöðinni í Salahverfinu til að geta bæði farið í lyftingar og eins hlaupið inni ef veðrið verður leiðinlegt. Það getur nefnilega alveg snjóað fram í apríl ef þannig liggur í honum. Áætlunin hljóðar upp á hægan en markvissan stíganda út mars og síðan verður sett í meiri kraftgír í apríl og maí. Mikilvægt í þessu sambandi er hvíldin. Því verða allavega tveir hvíldardagar í viku þangað til hægt verður að fara að ganga á Esjuna. Eins verður fjórða hver helgi tekin rólegar.

Engin ummæli: