mánudagur, janúar 31, 2005

Hlaupin á helginni voru eftir áætlun. Við Pétur og Halldór hlupum um 20 km á laugardagsmorguninn. Þetta var róleg helgi samkvæmt planinu og því var ekki farið lengra. Við tókum reyndar góða brekkuæfingu á Kópavogshálsinum, tókum tröppurnar tvisvar og síðan stíginn upp á hálsinn við hliðina á tröppunum. Þetta tók vel í og er gott innlegg. Á sunnudaginn fót ég hefðbundinn rúnt með Vinum Gullu frá Laugardalslaugunum og fórum við sem leið lá upp í Grafarvog og inn fyrir hann og síðan til baka. Ég tók síðan smá lykkju upp í Elliðaárdalinn til að ná 20 km. Ég hef hlaupið í nokkur ár frá Laugardalslauginni á sunnudagsmorgnum með Vinum Gullu en ég hef bara einu sinni séð þessa ágætu Gullu og þá hlupu allir á undan henni!!! Ég hljóp nær 300 km í janúar sem er langt umfram það sem ég hef gert áður í þessum fyrsta mánuði ársins. Lengsta vikan var 84 km. Ég held að ég hafi einu sinni áður slefast yfir 200 km í fyrsta mánuði ársins. Þetta er allt eftir planinu. Við förum líklega að lengja laugardagshlaupin svolítið í febrúar og taka jafnframt markvissari brekkuhlaup. Virku dagarnir verða heldur rólegir fram eftir en þá lögð meiri áhersla á hraðaæfingar. Veðrið hefur töluvert að segja um hvernig gengur en maður hefur þá alltaf til vara að fara inn. Ég fór til Torfa á laugardagskvöldið og fékk hjá honum birgðir af orku. Einnig fékk hann mér tvenn pör af afbragðsgóðum hlaupasokkum sem er nauðsynlegt að hafa á lengri vegalengdum. Venjulegir íþróttasokkar eru þannig að það er hættara á að fá eymsli undan þeim eins og allir skokkarar þekkja. Ég tek alltaf góða skeið af Hraustum þegar ég hef hlaupið meir en 20 km. Nú er ég farinn að hræra saman í blandara 0,5 l af mjólk, 1 banana, og síðan sína skeiðina af hvoru Nesquik og Hraustum. Þetta er hörkudrykkur. Einnig læt ég stundum slettu af lýsi útí. Ég tek einnig Multivítamín og einnig eitthvað annað bætiefni sem ég fékk í Heilsuhúsinu og á að styrka brjóskið í liðunum. Það er ekki Liðamín en stúlkan í búðinni benti mér á þetta þegar ég sagði henni frá því í hvaða erindagjörðum ég væri. Talandi um liðbrjósk þá er félagi Svanur á verkstæði sem stendur en það þarf að gera á honum liðþófaaðgerð. Hann var farinn að finna mikið til í hnénu um miðjan janúar og læknir kvað upp þennan dóm eftir skoðun. Hann verður því frá um einhvern tíma en kemur vonandi léttur í spori til leiks innan skamms tíma.

Engin ummæli: