mánudagur, maí 19, 2008

Helgin var róleg, 20 á laugardegi og rúmir 10 á sunnudegi. Í vikunni verður lítið hlaupið heldur hvílt að megninu til. Ég sé að veðurspáin fyrir R¢nne er heldur góð, ca 15 stiga hiti og gola. Ég sá í gær að það er stórviðburður í 48 tíma hlaupinu. Grikkinn Kuoros sem er mesti ultrahlaupari allara tíma verður meðal þátttakenda í 48 tíma hlaupinu. Hann hefur síðan í mars hlaupið 2 48 tíma hlaup og eitt 24 tíma hlaup. Hann setti heimsmet í 72 tíma hlaupi í Brno í mars þar sem hann hljóp yfir 700 km á þremur sólarhringum. Hann hafði unnið 48 tíma hlaupið á rúmum 400 km en fékk leyfi til að halda áfram í einn sólarhring í viðbót. Hann á að því mig minnir þrjá bestu tímana sem hafa náðst í Spartathlon. Hann á öll heimsmet frá 12 tíma hlaupi upp í sex daga hlaup og síðan á hann besta tíma í einhverju svakalegu hlaupi í Ástralíu. Það verður skemmtileg upplifun að sjá þennan mikla hlaupara á brautinni. Ef aðstæður verða góðar er dúkað borð fyrir heimsmet í 48 tíma hlaupi á Borgundarhólmi um næstu helgi. Í 24 tíma hlaupi verður haldið danska meistaramótið í greininni. Það eru því allir bestu hlauparar Danmerkur mættir á staðinn og síðan einhverjir erlendir hlauparar. Þetta verður spennandi. Ég er miklu betur undirbúinn en í fyrra hvað hlaupamagn varðar en það verður að koma í ljós hvernig allt veltist.

Flottur árangur í Kaupmannahafnarmaraþoni á laugardaginn. Sumarliði á 3.06 og Þórólfur og Eva á 3.09. Eva nær þarna fimmta besta tíma íslenskra kvenna og er búin að skipa sér í hóp íslenskra stórhlaupara. Alveg magnað.

Góður dagur á Víkingsvellinum í gær. Víkingar komu ákveðnir til leiks og unnu sanngjarnan sigur á KA. Þei hafa nefnilega ekkert átt auðvelt með KA gegnum tíðina. Síðan spilaði HK/víkingur gegn íslandsmeisturum Vals í gærkvöldi. Þær töpuðu 3 - 0 en börðust vel og mörk Vals voru af ódýrari gerðinni. Sem betur fer er það liðin tíð að leikir í kvennaboltanum séu að enda með 10 - 15 marka mun. Það er engum til uppbyggingar.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það verður gaman að fylgjast með þér í hlaupinu og vonandi hægt á netinu (amk stöðunni af og til). Þú átt eftir að stríða Dönunum ærlega miðað við undirbúninginn.

Ég dró mig úr keppni, hef verið að koma löppunum í lag og þó þær séu í fínum málum núna þá vildi ég ekki hætta á einhver vandmál svona rétt fyrir sumaræfingarnar.