laugardagur, maí 17, 2008

Fór rólegt 20 km hlaup út á Eiðistorg í morgun. Tók það frekar rólega enda er þetta virk hvíld. Hitti Óskar Dýrmund Grænlandsfara á leiðinni og við skokkuðum saman út á Suðurgötu. Hann var í fyrsta hópnum sem fór til Grænlands í ATC keppnina árið 2004. Ég man eftir honum sem litlum strák á Hvanneyri forðum daga eða upp úr 1970. Það var fróðlegt að heyra hvernig hlutirnir gengu fyrir sig hjá þeim og bera saman við ævintýri okkar í fyrra sumar. Því miður held ég að það verði enginn frá Íslandi með í ár en það stendur vonandi til bóta síðar.

Það var fín grein eftir Jón Baldvin í Moganum í morgun um þróun efnahagsmála hérlendis og stöðuna í dag. Ég hef ekki alltaf verið sammála JBH en í þetta sinn er ég sammála hverju orði. Mikið af því sem er að gerast og er okkur mótdrægt í dag er sjálfskaparvíti. Útgáfa jöklabréfanna á sínum tíma var ekkert annað en skammgóður vermir því þau urðu að seljanlegri vöru vegna þess hve vaxtamunur var mikill milli Íslands og umheimsins. Að kaupa ríkistryggð hávaxtabréf sem voru fjármögnuð með ódýru lánsfé var náttúrulega rakinn business. Þetta styrkti krónuna úr hófi fram sem gerði allt voða skemmtilegt, um stundarsakir. Allt sem mann alngaði í var orðið hundódýrt. Skítt og laggó með að fiskiðnaðurinn og aðrar útflutningsgreinar væri að drepast vegna þess hve gengi krónunnar var hátt. Þessi tími hlaut að taka enda, það vissi hver maður sem vildi vita. Ég tók stöðu gegn krónunni í ágúst í fyrra. Það var bara spurning um hvenær hún félli og hve mikið en ekki hvort. Þegar skriðan fór af stað varð hún svo það stór að stjórnvöld réðu ekki neitt við neitt. Bankarnir voru metnir nær því gjaldþrota í augum umheimsins, enda þótt viðskiptaráðherra segði í Silfri Egils að þeir væri með þeim sterkustu í heimi. Bankarnir voru orðnir það stórir að ríkið hafði ekkert bolmagn að standa við bakið á þeim og veita þeim stuðning þegar gaf á bátinn. Þess vegna var staða þeirra slík sem hún var. Það hafa varla verið auðveld spor Seðlabankamanna og stjórnvalda að fara til norrænna Seðlabanka til að fá baktryggingu hjá þeim í þeim tilgangi að reyna að ná valdi á atburðarásinni aftur. Það þýðir í raun og veru að stjórnvöld réðu ekki við ástandið. Ef stjórnvöld ráða ekki lengur við ástandið upp á eigin spýtur þá geta menn sagt sér sjálfir hvað var á næsta leyti. Niðurstaðan var hins vegar kynnt eins og um sigurför hefði verið að ræða. Fjölmiðlar átu fréttatilkynningarnar hráar upp og spurðu einskis. Allt orðið gaman og gott á nýjan leik (eða hvað?).

Það þarf ekki nema einn maður að leggja bílnum sínum þversum á götuna og hringja í fjölmiðla þá eru þeir mættir með upptökuvélar og alles. Hvað ætli væri gert við venjulegt fólk ef það færi að leggja bílnum sínum þversum fyrir framan eitthvert fyrirtæki sem það væri súrt út í. Ætli löggan væri ekki sótt og maður dreginn í burtu með skömm? Trúi því best.

Smá Lúkas leit dagsins ljós í gær þegar fréttist að meintum álftaeggjamorðum úti á Seltjarnarnesi. Fréttamannaliðið upp eins og skot alveg fýr og flamme og fjallaði um harmleikinn á Seltjarnarnesi. Á sama tíma og fimmtíu þúsund manns hafa farist í jarðskjálftum í Kína og einhverjir ótaldir tugir þúsunda farist í Burma fyrir utan þann mikla fjölda sem býr við hörmungar eftir þessar hamfarir þá eru svona álftaeggjauppákomur headlines hérlendis.

Það var fínt hjá Fjölni að leggja KR í vikunni. Sérstaklega var ánægjulegt að það gerðist með marki á síðustu mínútu. Þeir eru orðnir ófáir leikirnir sem KR hefur náð þremur stigum á móti Víkingum á þennan hátt. Kominn tími til að þeir sypu á þessum bikar sjálfir. Í fyrra var dæmt löglegt mark af Víkingum í leik á móti KR. Dómurinn hafði í för með sérað það voru Víkingar sem féllu um deild en ekki KR.

Engin ummæli: