sunnudagur, ágúst 03, 2008

Unglingalandsmót UMFÍ í Þorlákshöfn er afstaðið. Fórum austur á föstudaginn og komum í kvöld, rétt áður en byrjaði að rigna. Þetta er fjórða mótið sem við förum á og alltaf jafn gaman. Partur af þessu er að fylgjast með krökkunum sem eru smám saman að breytast í afreksfólk. Það er mjög sterkur hópur stelpna sem er á svipuðum aldri og María og maður er búinn að fylgjast með sumum frá því á Gogga mótunum í Mosfellsbæ fyrir 7 - 8 árum síðan. Unglingalandsmótin eru fínn viðburður. Enda þótt Þorlákshöfn sé stutt frá bænum þá var ekki við annað komandi en að útilega fylgdi með. Það er partur af stemmingunni. Vinkonurnar stóðu sig allar mjög vel og þær kræktu í slatta af verðlaunapeningum. Það er vel gert því þarna kemur saman obbinn af bestu frjálsíþróttakrökkum á landinu. Aðstaðan í Þorlákshöfn var til m ikillar fyrirmyndar og hefur sveitarfélagið lagt mikla fjármuni í uppbyggingu mannvirkja sem vonandi kemur íbúunum til góða á komandi árum og áratugum.

Ég set svolítið af myndum frá mótinu inn á vef Ármanns: http://www.flickr.com/photos/armannfrjalsar/

Þetta er náttúrulega fyrst og fremst myndir af Ármenningunum sem stóðu sig vel þótt ekki væru þær margar.

Ég er líka búinn að setja myndir frá gönguferinni fyrir Sigluness- og Skorarhlíðar inn á myndavefinn minn www.flickr.com/photos/gajul ef einhverjum skyldi langa til að sjá hvernig leiðin lítur út í stórum dráttum.

Engin ummæli: