þriðjudagur, október 12, 2010

Umræðan hefur verið svona upp og niður síðustu daga en aðallega niður. Hagsmunasamtök heimilanna létu hafa eftir sér að 71.000 heimili væru eignalaus. Síðar kom í ljós að þetta var vitaskuld rugl. Svo kom í ljós að 21.000 manns eru á vanskilaskrá. Það er náttúrulega dálítill stabbi en myndin skýrðist þegar sagt var frá að gósenárið 2007 hefðu um 16.000 einstaklingar verið á þessari sömu vanskilaskrá. Ég verð að segja að mér finnst ekki mikið að það hafi ekki bæst fleiri en 5.000 manns við skrána eftir allt sem á undan hefur gengið. Í fjölmiðlum hefur gjarna verið talað um að "eiginlega flestir", "allur fjöldinn", "stór hluti þjóðarinnar" og ég veit ekki hvað sem væri í gríðarlegum fjárhagslegum vandræðum. Sem betur fer er sú ekki raunin. Ég er hins vegar ekki að gera lítið úr því að margir séu í miklum erfiðleikum en ansi margir virðast hafa verið komnir í brekkuna áður en hrunið hófst. Það má hinsvegar kannski ekki tala um það. Sérstaklega hlýtur staðan að vera erfið hjá fólki sem hefur misst vinnuna og verið skuldsett fyrir. Þær tölur sem birtar hafa verið um hve margir hafa leitað aðstoðar samkvæmt þeim úrræðum sem boðið hefur verið upp á eru mjög sláandi. Þarna gengur eitthvað ekki upp. Annað hvort eru úrræðin léleg eða ónýt, illa kynnt eða fólk ber sig ekki eftir björginni. ´

Hagsmunasamtökin hafa talað mikið fyrir allmennri flatri niðurfærslu lána. Vitaskuld kemur það í ljós þegar farið er að skoða málið að það er auðveldara um að tala en í að komast. Einhver borgar brúsann. Mér hefur alla tíð þótt hugmyndafræðin um flata niðurfærslu vera hreint rugl og hef ekki skipt um skoðun í þeim efnum.

Ein kennig var sett í loftið fyrir helgina. Nú áttu lánin að hreyfast eins og fasteignamat eða fasteignaverð. Vitaskuld átti að taka upphafspunkt á árinu 2008 þegar fasteignaverð var í algeru hámarki eða þegar innihaldslaus fasteignaverðbóla náði hámarki. Ef slíkt kerfi yrði tekið upp (sem það verður náttúrulega aldrei) þá ætti að gera það þegar þokkalegt jafnvægisástand ríkir því vitaskuld ætti það að virka í báðar áttir. Við keyptum íbúðina árið 1999 þegar markaðurinn var farinn að jafna sig töluvert efrir niðursveifluna á árunum 1993 - 1996. MIðað við það sem maður sá í auglýsingum þá hækkaði verð íbúðarinnar ca þrefalt fram til ársins 2008. Samkvæmt fyrrgreindri aðferðafræði hefðu lánin þá átt að þrefaldast. Ég er ansi hræddur um að það hefðu sprottið upp nokkur "Hagsmunasamtök heimilanna" á þessum árum ef lánin hefðu verið verðtryggð með vísitölu fasteignaverðs og þrefaldast í verði. Nú er verið að barma sér yfir 18% hækkun á höfuðstól.

Í fréttum er verið að tala um að 50% heimila eigi ekkert eigið fé í íbúðinni sem búið er í. Það er ekkert að marka svona tölfræði um þessar mundir. Það ríkir permafrost á fasteignamarkaðnum. Raunveruleg verðmyndun er ekki til staðar. Því segir svona statistik ekki neitt um hvernig hlutir munu þróast til lengri tíma.

Það verður að gera þá kröfu til fjölmiðla að þeir vandi fréttaflutning sinn og hleypi ekki hverju sem er út í loftið. Í síðustu viku kom einn hagfræðingurinn í RUV og sagði að nú þyrfti að fara að skattleggja bankainnistæður sem væru hærri en ca 10 m.kr. Með skattlagningu átti hann náttúrulega við einfalda eignaupptöku. Ég sel það ekki dýrara en ég keypti en ég hef heyrt að það hafi verið tekið svo mikið út úr bönkunum að Selðlabankinn hafi þurft aða gera ráðstafanir um að til væri nóg af lausum seðlum. Það er ábyrgðarhluti að láta svona umræðu fara út í loftið. Hún getur hæglega myndað slíkt rush á bankana að til vandræða verði. Lausafé verður fljótt uppurið ef innistæðueigendur hópast í bankana til að taka innistæður sínar út.

Það var sportráðstefna á Hilton hótel Nordica í gærkvöldi. Ég var þar í ágætum hóp íþróttamanna sem fór yfir hvernig Herbalife hefði nýst þeim við æfingar og keppni. Ég hefði getað verið afi flestra nema Dean Martins, fótboltamanns og þjálfara hjá KA. Ég hefði getað verið pabbi hans. Ég læt öðrum að dæma um hvernig til tókst.

Hlaupin ganga vel. Ég stefni að því að fara svona 120 - 140 km í viku út nóvember. Í næst viku fer ég að máta mig við brettið af meiri alvöru.

Engin ummæli: