Það eru blendnar tilfinningar sem vakna eftir að hafa horft á mótmælin fyrir framan Alþingishúsið á mánudaginn. Auðvitað er fjöldi fólks í sárum út af ýmsum ástæðum og finnst það hafa verið órétti beitt. Á hinn bóginn veltir maður því fyrir sér hve oft þurfi að að hreinsa út úr þinghúsinu svo allir verði ánægðir. Nákvæmlega sömu kröfurnar voru á lofti fyrir tæpur tveimur árum síðan. Þá fengu mótmælendur það sem þeir vildu, þáverandi ríkisstjórn hrökklaðist frá og önnur stjórn tók við. Það var óskastjórnin í huga margra. Nú er hún hins vegar orðin gjörómöguleg. Er það svoleiðis að lýðskrumarar og froðusnakkar eru búnir að tala upp slíkar væntingar meðal fólks sem hefur lent í erfiðleikum vegna mikilla skulda að það verður aldrei ánægt fyrr en öll vandræði hafa verið þurrkuð út. Síðan er það náttúrulega svo að þegar fjöldinn mótmælir þá drífur að allra handa vitleysinga sem nota fjöldann til að hverfa í en fá á svona stundum útrás fyrir allra handa skemmdaverkastarfsemi. Fjölmiðlar bæta ekki um. Að Stöð tvö skyldi senda út frá því þegar einhver hljóðnemahaldari spurði tvo stráka sem spörkuðu eins og vitlausir væru í girðinguna fyrir framan Alþingishúsið hverju þeir væru að mótmæla. Þeir vissu ekkert hverju þeir áttu að svara en svo kom að það væri bara svo ganman að skemma. Þarna er stöðin einfaldlega að kynda undir svona vitleysisgang. Gott var hinsvegar að sjá að hópurinn tók til sinna ráða og brenndi nazistafánann sem einhverjir voru að flagga þarna um kvöldið. Á bálið hefðu einnig átt að fara fánar allra kommúnistasamtaka sem þarna voru hverju nafni sem þau nefnast því það er enginn munur á nazistafánum og fánum kommúnista. Sama mannvonskan liggur að baki hvorutveggja.
Lögreglan reisti girðingu til að verja Alþingishúsið eins og hægt var en girðingin var alltof nálægt húsinu. Í hvaða þjóðríki sem hefur einhverja sjálfsvirðingu væri fólki leyft óáreitt að grýta þinghúsið og brjóta glugga í því. Svo væri sagt í fréttum að mótmælin hafi farið friðsamlega fram. Í hvaða þjóðríki með sjálfsvirðingu væri almenningi leyft óáreitt að grýta þingmenn, þjóðhöfðingja og kirkjunnar fólk við þingsetningu. Þótt fólk kalli sig mótmælenda og segist vera svakalega reitt þá leyfist mönnum ekki hvað sem er í skjóli þess. Það er sama hvaða skoðun menn hafa á lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum þau hafa persónulega friðhelgi eins og annað fólk. Ef fjöldinn er hins vegar að hugsa um stjórnarbyltingu með valdbeitingu þá er eins gott að segja það bara. Menn vita þá hvar hver stendur. Það hefur til dæmis staðið upp á fjölmiðla að spyrja níumenningina margumræddu hvaða erindi þeir áttu inn í Alþingi á sínum tíma. Ætluðu þeir að öskra og æpa inni í þinginu, ætluðu þeir að berja alþingismenn og draga þá með valdi út á stétt og varpa þeim fyrir múginn eða eitthvað annað verra? Það væri fróðlegt að fá svar við þessu. Í Rússlandi komst lítill hópur glæpamanna inn í keisarahöllina í gegnum eldhúsdyrnar árið 1917 og náði upp frá því völdum í Sovétríkjunum og enn síðar í allri Austur Evrópu. Þeim völdum hélt þessi klíka í um 70 ár og hafði þegar yfir lauk líf álíka margra milljónatuga á samviskunni (gróft reiknað).
Hagsmunasamtök heimilanna hafa verið mikið í fréttum enda virðist svo sem þau fái inni í fjölmiðlum með allt sem þau láta frá sér fara. Nú er ég ekki að segja að allt sem frá þeim kemur sé vitleysa en mikið er ég ósammála ýmsu. Í dag kom tvennt frá þessum hópi sem mikið var gert úr og fjölmiðlamenn komu á framfæri gagnrýnislaust. Í fyrsta lagi létu samtökin það frá sér fara að flestöll heimili á Íslandi eða yfir 70.000 heimili yrðu eignalaus á næstu mánuðum. Samtökin miðuðu við að þessi sömu heimili hefðu haft um 50% eiginfjárhlutfall í ársbyrjun 2008. Að taka mið af einhverju ímynduðum eignarhluta þegar fáránlega útblásin og innistæðulaus eignabóla náði hámarki er náttúrulega út í hött. Af hverju velta fjölmiðlamenn svona fullyrðingum ekki fyrir sér og spyrja gagnrýninna spurninga. Af hverju er öllu dreift ótuggnu og án ígrundunar? Í öðru lagi er út í hött að halda því fram að stærstur hluti íslenskra heimila sé með allt niður um sig fjárhagslega. Í þriðja lagi er út í hött að taka mið af fasteignaverði þegar fasteignamarkaður er tímabundið í algeru lágmarki og miða eitthvað eiginfjárhlutfall út frá því. Það hefur gerst fyrr að húsnæðisverð hefur fallið mikið. Ég man vel ástandið á árunum 1983-1986 þegar verið var að reyna að slá á verðbólguna. Það var meðal annars gert með því að taka víxlverkun kaupgjalds og verðbólgu úr sambandi. Síðan hækkaði húsnæðisverð aftur þegar betur áraði.
Síðar í dag lögðu samtökin fram kröfur sínar um að öll lán yrðu færð til þeirrar stöðu sem þau voru í um áramót 2008, hvort sem þau voru verðtryggð í erlendri mynt eða samkvæmt vísitölu neysluverðs. Þessi tillaga er afar óraunsæ og í raun út í hött. Í fyrsta lagi er ekki hægt að ætlast til þess að samfélagið geti komist í gegnum gríðarlegt hrun krónunnar og efnahagslegar hamfarir án þess að þeir sem skulda finni neitt fyrir því. Það er sama þótt mönnum finnist þeir hafa verið órétti beittir. Peningarnir sem þarf í svona aðgerð eru einfaldlega ekki til. Það verður að takast á við vandann með einstaklingsbundnum aðgerðum. Það sleppur enginn en vandinn er mismikill. Sumum er hægt að bjarga en öðrum ekki. Aðalatriðið er að þeir fjármunir sem settir eru í svona aðgerðir nýtist sem best. Mér fannst billegt hjá forsætisráðherra að vísa allri sök á bankana um að ekki sé búið að leysa vanda þeirra sem skulda í stefnuræðu sinni á mánudaginn. Það má t.d. minna á að sveitarstjórnir hafa ekki lagalega heimild til að fella niður fasteignaskatta jafnvel þótt þau vildu. Lögum verður ekki breytt nema á Alþingi.
miðvikudagur, október 06, 2010
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli