föstudagur, júlí 01, 2011

Fyrir viku síðan þegar ég var í morgunhlaupinu á Bústaðaveginum og Sogaveginum eins og venjulega þá fór ég einhverra hluta vegna að horfa á ruslið á gangstéttinni. Þarna hafði ég farið um ótölulega oft og í sjálfu sér ekki tekið eftir neinu sérstöku. Nú lá við að það þyrmdi yfir mig þegar ég sá allt draslið á gangstéttinni og við hliðina á henni. Frekar lítið að gera en ekki neitt þá fór ég að taka eitt stk. rusl á milli hverra ruslakassa og láta í þann næsta og svo koll af kolli. Það eru sjö ruslakassar á þessum fjögurra km hring sem ég hleyp fjórum sinnum á morgana. Ég tók því 28 stk þennan fyrsta morgun og sá ekki högg á vatni. Ég hef nú haldið þessu áfram í sex daga. Í fyrsta skipti í morgun þá var ekkert rusl eftir á milli þeirra tveggja kassa þar sem styst er á milli. Ég er því búinn að taka um 170 stk upp af af þessum fjögurra km kafla sem er inni í miðju venjulegu íbúðahverfi. Þarna er ein sjoppa. Ástandið var alls ekki verst fyrir utan hana. Það virðist bara vera sem svo að draslinu sé hent út um glugga á bílum sem aka eftir götunni. Ég hef þannig séð nýtt rusl bætast við á morgnana þegar ég er að hlaupa sem getur ekki verið komið nema úr bílum. Það eru engir krakkar eða unglingar sem gera það heldur fullorðið fólk. Þarna voru gosdollur, sígarettupakkar, drykkjarfernur, sælgætisbréf, umbúðir utan af ís, ísdollur, gosmál, flöskur með djús í, geisladiskar, fernur utan af yogurt og ég veit ekki hvað. Ölflöskum er hent upp á gangstéttina þar sem þær fara í 1000 mola. Þessi umgengni er náttúrulega ekkert annað en skrælingjaháttur.

Ég ætla að skreppa norður í Strandasýslu á morgun og taka þátt í Hamingjuhlaupinu með Stefáni Gíslasyni. Hann hefur hlaupið Hamingjuhlaupið í tengslum við Hamingjudagana á Hólmavík undanfarin tvö ár og alltaf komið hamingjusamari í mark en hann var þegar hann lagði af stað að eigin sögn. Er Stefán þó lífsglaður maður að jafnaði. Milli okkar Stefáns er svolítið óvenjulegur þráður. Hann var sveitarstjóri á Hólmavík árið 1995. Hann leiddi fríðan flokk Strandamanna austur á Raufarhöfn þegar haldið var upp á 50 ára afmæli sveitarfélagsins. Ég var þá sveitarstjóri á Raufarhöfn. Það er til fín mynd af okkur úti á Klifum þar sem Stefgán afhendir svetiarfélaginu fjarlægðarmerki til Hólmavíkur. Stefán hefur breyst minna en ég á þeim árum sem liðin eru frá þessum tíma því ekki lýgur myndin. Það hefur verið kalt í vor fyrir norðan. Ekki var nú síður kalt sumarið 1995. Strandamenn, sem láta sér nú ekki allt fyrir brjósti brenna, héldu að þeir yrðu úti á tjaldstæðinu á Húsavík, þar sem þeir gistu á leið austur. Föstudagskvöldið sem hátíðin byrjaði var 3ja stiga hiti. Kraftgallar voru aðalhátíðaklæðnaðurinn. Um hádegi daginn eftir var kominn 20 stiga hiti, heiðskýr himinn og blæjalogn. Maður fær enn smá gæsahúð þegar þessir dagar eru rifjaðir upp. Það er því það minnsta sem maður getur gert með þessa forsögu að hlaupa með Stefáni á morgun frá heimabæ hans, Gröf í Birtu, og norður til Hólmavíkur. Vafalaust verður hamingjuauki að þessu hlaupi.

Engin ummæli: