mánudagur, júlí 04, 2011

Við Jói tókum létt morgunhlaup á laugardagsmorguninn og fórum hinn hefðbundna 20 km langa Eiðistorgshring. Eftir smá stúss fram að hádegi þá lagði ég af stað norður á Strandir að hitta Stefán Gísla og félaga til að hlaupa Hamingjuhlaupið sem fer fram á Hamingjudögum á Ströndum. Ég ætlaði mér rúma þrjá tíma til að komast norður í Bitru. Ég stoppaði aðeins í Bónus í Borgarnesi. Þar er skipulagið annað en hér í Skeifunni svo ég var lengur að en ég ætlaði. Ég fór svo norður Holtavörðuheiði og norður Strandir. Það er röng ákvörðun því Þröskuldaleiðin er heldur styttri og einnig fljótfarnari. Samt er alltaf gaman að keyra norður Strandir í góðu veðri og rifja upp bæjaröðina. Ég var ekki alveg viss um hvar bær Stefáns var og fór því fram hjá honum. Ég hringdi í bróður hans við afleggjarann upp á Steinadalsheiðina og var þá kominn dálítið of langt. Ég sneri við og var fljótur að renna til baka. Heima í Gröf biðu Stefán og félagar hans. Ég var snöggur að skipta og svo lögðum við af stað. Fyrsti leggurinn var yfir heiðina upp af Gröf og yfir að Stóra -Fjarðarhorni. Heiðin er 9 km löng með um 400 m. hækkun. Yfir hana hafði fyrr á árum verið lagur vegur fyrir kerruhesta, handlagður og handuppmokaður. Það hefur verið mikið verk á sínum tíma. Við vorum léttfættir yfir heiðina í góðu veðri. Við Stóra Fjarðarhorn biðu okkar tveir strandamenn, Ragnar Bragason frá Heydalsá og Kristinn Schram frá Hólmavík. Við skokkuðum svo fyrir fjörðinn og settum síðan á heiðina upp af Litla Fjarðarhorni. Eftir skamma stund hittum við þrennt á heiðinni sem biðu eftir okkur. Þar voru á ferðinni Vignir Pálsson formaður HSS, Hadda Borg Björnsdóttir, íþróttamaður ársins hjá HSS 2010 og Jónína Pálsdóttir frá Þorpum. Þau tóku legginn yfir heiðina með okkur. Þegar á leið setti á okkur þoku og eftir skamma stund sáum við að einn vantaði í hópinn. Þá var stoppað, hringt og farið að kalla. Sá týndi gaf sig fram innan skamms en það er ekkert gaman að tapa manni við þessar aðstæður því þarna var enginn götuslóði eða annað leiðarmerki. Þessi heiði var seinfarnari en sú fyrri því hún var gróf og slóðalaus. Neðarlega á heiðinni biðu eftir okkur tvær heimasætur frá Heydalsá og smalahundurinn. Hann linnti ekki látum fyrr en hann var leystur úr bandinu og gat hlaupið frjáls eins og smalahundar eiga að gera. Þau hlupu með okkur til byggða. Við Heydalsá breyttist hópurinn, hluti fylgdarmanna hélt til síns heima og aðrir bættust við. Nú voru eftir 15 km til Hólmavíkur. Nú teygðist úr hópnum, Tveir strákar voru léttfættir og fóru á undan, við Stefán héldum sjó saman og hin voru svona hér og hvar misjafnlega langt á eftir. Fólk var hér og hvar á leiðinni við veginn og fagnaði hlaupurum, vindurinn var í bakið og heldur hlýtt svo þetta var mjög fínt. Við vorum aðeins á eftir áætlun því heiðarnar voru seinfarnari en Stefán hafði áætlað. Einnig voru smá tafir ófyrirséðar. Undir lokin var aðeins farið að rigna en það gerði ekkert til. Veður var milt og logn. Við afleggjarann heim að Hólmavík var hópurinn þéttur, myndir teknar og svo hlupu allir í einum hnapp niður í plássið þar sem hlaðið kökuborð myndi bíða að sögn Stefáns. Þegar nær dró kom fjöldi fólks út á götuna og fagnaði hlaupurum. Ég held að ég hafi aldrei lokið hlaupi þar sem jafn mikill fjöldi fólks fagnar hlaupurum að leiðarlokum. Við enduðum hlaupið svo í húsi fiskmarkaðarins þar sem örugglega allir íbúar Hólmavíkur voru mættir og fjöldi gesta að auki. Það var ekki að ástæðulausu að fólk var þar saman komið því þar svignuðu þrjú hlaðborð undan tertum. Allir höfðu beðið hinir prúðustu eftir hlaupurum þrátt fyrir seinkun því planið var að leiða Stefán Gíslason, fyrrverandi sveitarstjóra og hlaupafrumkvöðul, á undan öðrum að borðinu og láta hann skera fyrstu sneiðina. Það gerði hann svikalaust og þá gátu heimamenn loks farið að gæða sér á veitingunum. Þarna voru margir kunnugir og var gaman að hitta þá á góðri stundu. Hátíðargestir höfðu átt virkilega góðan dag um daginn í fyrsta sumardegi sumarsins en aðeins hafði dregið í himininn undir kvöldið. Eftir skamma stund drifu Stefán og Björk kona hans okkur Ingimund og Guðmann heim því þar beið okkar heit ungversk gúllassúpa og aðrar fínar og staðgóðar veitingar. Það var fínt að fá heita máltíð því það fór aðeins að slá að manni í blautum fötum þegar hlaupi lauk. Þarna sátum við langa hríð undir borðum og skemmtilegum samræðum, fórum í sturtu og vorum endurnærðir til sálar og líkama þegar við lögðum af stað á tólfta tímanum. Ég fékk far með Ingimundi félaga frá Akureyrarhlaupinu suður í Bitru þar sem bíllinn beið. Heim kom ég um kl. 3:00 um nóttina eftir fínan dag. Hlaupið var 35 km langt og tók rúman fjóran og hálfan tíma.
Myndir frá hlaupinu eru á myndasíðunni.

1 ummæli:

Stefán Gísla sagði...

Kærar þakkir fyrir einkar góða samfylgd og skemmtilegan pistil!