Virðing Alþingis hefur verið nokkuð til umræðu að undanförnu sem og áður. Líklega hefur Alþingi þó sjaldan haft lægri sess í hugum almennings en um þessar mundir eftir því sem skoðanakannanir sýna. Kemur þar ýmislegt til. Ómálefnalegar og ófaglegar umræður valda þar oft á tíðum miklu um. Nú þekkir maður vitaskuld ekki nógu mikið inn á margt það sem fjallað er um á Alþingi en sumt reynir maður að kynna sér og hafa skoðun á. Eitt af því eru sjávarútvegsmál. Það er ekki vegna þess að ég hafi þar einhverra hagsmuna að gæta, hafi í huga að komast inn í strandveiðar eða sé svefnlaus yfir því að þjóðin fái ekki nógu mikið í vasann af þjóðareigninni eins og margir virðast vera. Í mínum huga skiptir hins vegar höfuð máli að fjallað sé um málefni sjávarútvegsins af virðingu, þekkingu og fagmennsku því greinin er ein af þremur mikilvægustu atvinnuvegum þjóðarinnar. Hinir tveir eru stóriðja og ferðamannaiðnaður.
Ég sá nýlega á alþingisvefnum þingsályktunartillögu (68. mál) um að Alþingi álykti um að ríkisstjórninni sé falið að undirbúa þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð fiskveiðistjórnunar þar sem bornar verði upp grundvallarspurningar, m.a. um hvort eigi að taka upp nýtt fiskveiðistjórnunarkerfi, setja sérstakt stjórnarskrárákvæði um þjóðareign auðlindarinnar og innkalla aflaheimildir og endurúthluta þeim gegn gjaldi til þjóðarinnar.
Þjóðaratkvæðagreiðsla er stórt mál. Það er ekkert sem á að leika sér með. Þar verða valkostir að vera skýrir og afdráttarlausir svo hægt sé að taka efnislega afstöðu og eitthvað verði að marka niðurstöðuna. Í fyrrgreindri þingsályktunartillögu eru tilteknar fjórar spurningar:
1. Hvort taka eigi upp nýtt fiskveiðistjórnunarkerfi?
2. Hvort eigi að setja sérstakt stjórnarskrárákvæði um þjóðareign auðlindarinnar?
3. Hvort eigi að innkalla aflaheimildir?
4. Hvort eigi að endurúthluta þeim gegn gjaldi til þjóðarinnar?
Mér finnst þessi þingsályktunartillaga sem grundvöllur að þjóðaratkvæðagreiðslu vera gersamlega óskiljanleg og ónothæf. Skoðum það aðeins betur. Hvernig á að vera hægt að greiða þjóðaratkvæði um hvort eigi að taka upp nýtt fiskveiðistjórnunarkerfi. Á þetta að vera já og nei spurning? Ef niðurstaðan verður að já verði ofan á hvað tekur þá við? Bara eitthvað? Ef niðurstaðan verður nei verður þá engu breytt héðan af? Í slíkum málum hlýtur að þurfa að kjósa á milli tveggja skýrra valkosta en ekki bara um eitthvað út í loftið. Að mínu mati er gjörsamlega út í hött að láta fara fram þjóðaratkvæði um fiskveiðistjórnunarkerfið. Til þess er fiskveiðistjórnun alltof flókin og viðurhlutamikil. Alltof mikið er undir til að verjanlegt sé að láta málefni sjávarútvegsins verða að leiksoppi í einhverjum hráskinnaleik.
Er einhver nauðsyn á því að láta það fara í þjóðaratkvæði hvort eigi að setja sérstakt stjórnarskrárákvæði um þjóðareign auðlindarinnar? Hvað með aðrar auðlindir s.s. vatnsorkuna, hitaorkuna, vindorkuna, landnýtingu og ferðamannastaði. Eitt hlytur yfir allar auðlindir að ganga.
Hvernig er hægt að greiða þjóðaratkvæði um hvort eigi að innkalla allar aflaheimildir? Hvað ef svarið verður já? verða allar aflaheimildir innkallaðar? Hver er réttarstaða þeirra fyrirtækja sem höfðu keypt fyrrgreindar aflaheimildir? Verður ríkið þá skaðabótaskylt? Hver verða áhrifin á fyrirtækin sem hafa skuldbindingar við hina og þessa. Það hefur verið sagt að það skipti ekki máli þótt starfandi sjávarútvegsfyrirtæki verði gjaldþrota því það fari bara einhver annar að veiða fisk. Það getur vel verið en skuldir gömlu fyrirtækjanna hverfa ekki. Þær gufa ekki upp. Ef sjávarútvegsfyrirtæki landsins verða gjaldþrota í einu þá lendir skellurinn hvergi annarsstaðar nema á landsmönnum (almenningi) í gegnum hærri vexti hjá þeim lánastofnunum sem þurfa að sfskrifa lán sem þær héldu að væru nokkuð tryggar. Það er kannski bara í lagi að bankarnir fari líka á hausinn því það komi einhverjir aðrir í staðinn.
Hvernig er hægt að greiða þjóðaratkvæði um hvort eigi að endurúthluta auðlindum til þjóðarinnar gegn gjaldi? Í fyrsta lagi hvað þýðir það að endurúthluta auðlindum til þjóðarinnar gegn gjaldi? Ekki hef ég neinn áhuga á að fá úthlutað auðlind gegn gjaldi. Hvað á gjaldið að verða hátt?
Ég verð að segja það að hvað sem öllum málalengingum umræðum í þingsal líður þá finnst mér svona málatilbúnaður eins og felst í þessari þingsályktunartillögu ekki vera til þess fallin að auka virðingu Alþingis. Til þess er hún of ruglingsleg, ómarkviss og hroðvirknislega unnin. Líklega er þetta hluti af einhverjum pólitískum keiluleik svo hægt sé að segja við áhugasama að það hafi verið lögð fram þingsályktunartillaga um málið en vondu flokkarnir hafi sett fyrir hana fótinn.
sunnudagur, október 09, 2011
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli