Það gengur mikið á úti í Berlín þar sem bókmenntahátíðin er haldin þessa dagana. Ísland er þar í forsæti og þá eru gömlu klisjurnar um bókmenntirnar og sagnaþjóðina dregnar fram. Það eru vafalaust haldnar göfugar ræður um stöðu mála og sess bókmenntanna o.s.frv.o.s.frv. Á sama tíma eru birtar niðurstöður þess efnis að 23% stráka séu ólæsir þegar þeir yfirgefa grunnskólann. Maður sér ekki að sú niðurstaða valdi miklu ölduróti. Það er grundvallaratriði fyrir því að fólk geti komið sér áfram og lært til munns og handa að þeir kunni að lesa. Lestur er undirstaða allrar menntunar. Vitaskuld eru allmargir sem eiga erfitt með lestur vegna lesblindu en nú eru komnar hljóðbækur sem leysa þann vanda að verulegu leyti. Það er hinsvegar mikið umhugsunarefni að tæpur fjórðungur stráka skuli ekki vera orðinn læs eftir 10 ára skólagöngu og reyndar gott betur því nú er leikskólinn orðinn skilgreindur sem fyrsta skólastigið. Þar bætast þá þrjú til fjögur ár til viðbótar við skólagönguna.
Ísland er að mörgu leyti líkt löndunum þremur á austurströnd Kanada, Nova Scotia, Princ Edward Island og Nýfundnalandi. Í þessum löndum (eða fylkjum, þau misstu sjálfstæði sitt upp úr seinna stríði) er margt líkt með Íslandi, þau byggðu afkomu sína á fiskveiðum og landbúnaði. Samt hefur margt gengið verr þjá þeim og þau eru á margan hátt vanþróaðri en Ísland. Ég hitti einu sinni mann sem hafði búið lengi á Nýfundnalandi. Hann taldi stærstu ástæðuna fyrir því að þróunin hafði orðið miklu örari hérlendis gegnum áratugina en þar vera þá að allir hefðu verið læsir á Íslandi þegar tækifærin fóru að skapast og því gátu allir verið með í þróuninni. Á Nýfundnalandi aftur á móti væri raunverulegt ólæsi um 50%. Um helmingur þjóðarinnar gæti varla lesið meir en að stauta sig fram úr fyrirsögnum í dagblöðum en væri óhæfur um að lesa flókinn eða mikinn texta sér til gagns. Þessi hluti þjóðarinnar er því sjaldnast með þegar einhver þróun á sér stað heldur er alger þiggjandi og til þess að gera lítt virkur í samfélagsþróuninni.
Í þessu samhengi fannst mér viðtalið í mogganum í morgun við Hermund Sigmundsson, prófessor í Háskólanum í Þrándheimi, vera allrar athygli vert. Hann hélt tvennu fram. Í fyrsta lagi ætti að leggja aðaláherslu á lestur, skrift og reikning í fyrstu bekkjum grunnskólans. Vitaskuld. Þessar greinar eru undirstaða alls annars náms. Ef undirstaðan er ekki í lagi þá verður það aldrei í lagi sem ofan á er byggt. Svona var það þegar maður var á þessum aldri. Það hefur kannski þótt vitlaus aðferðafræði hjá seinni tíma sérfræðingum en hún virkaði. Þá var manni líka kenndur hugarreikningur. Maður var látinn læra utanbókar, bæði ljóð og margföldunartöfluna. Utanbókarlærdómur þykir kannski ekki nútímalegur en hann bæði þjálfar hugann og einnig situr slatti af því sem maður lærði þannig ennþá eftir á harða disknum. Ég veit ekki til þess að krakkar þurfi að læra eða kunna margföldunartöfluna í dag. Vafalaust eru mörg sem hafa ekki heyrt á hana minnst einu sinni. Vonandi hef ég rangt fyrir mér en ég er hræddur um ekki. Ég veit það síðan frá mínum krökkum að það var bannað að kenna þríliðu í grunnskólanum. Það er hins vegar ein gagnlegasta reikniregla sem fyrir finnst til að hafa á hraðbergi í hinu daglega lífi. Þannig mætti áfram telja.
Í öðru lagi lagði Hermundur áherslu á að börnin þyrftu að fá hreyfingu í skólanum, mun meiri en víða er í dag. Sú viðleitni að slá tveimur kennslustundum saman fór vaxandi þegar ég fylgdist með þessum málum. Það eru engin geimvísindi að börn og sértaklega strákar eru orðnir órólegir eftir allan þann tíma og einbeitningin varin að versna. Börn hafa mikla hreyfiþörf og þurfa að fá útrás fyrir hana. Fullorðið fólk er farið að kveinka sér ef það situr í kennslustund sem er lengri en 40 mínútur, hvað þá hátt í einn og hálfan tíma.
Ég ætla ekki að segja hvað ég hugsaði þegar ég sá fréttina í gær frá bókmenntahátíðinni í Berlín sem fjallaði um kynningu á síðasta hefti af bókinni Útkall. Þeim sem þykir sá atburður sem fjallað er um í bókinni dramatískur ættu t.d. að lesa bækurnar Píanistinn, Bardaginn um Stalíngrad og Orustan um Leningrad. Segi ekki meir.
fimmtudagur, október 13, 2011
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli