laugardagur, mars 24, 2012
Nú á að fara að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um ákveðin atriði úr tillögum hins sérkennilega skipaða stjórnlagaráðs. Þegar spurningar þær sem á að greiða atkvæði um voru kynntar þá fannst manni að þar færi amen eftir efninu miðað við það hvrnig þessi prósess hefur allur verið. Ég ætla ekki að rekja það frekar. Áhugasamir þekkja það. Ég hélt að allir vissu að við þjóðaratkvæðagreiðslu verður að ganga út frá tveimur principum. Í fyrsta lagi er ekki efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu nema tilefnið sé brýnt. Það má segja að ný stjórnarskrá sé brýnt tilefni. Í öðru lagi verða þær spurningar sem lagðar eru fyrir í þjóðaratkvæðagreiðslu að vera skýrar og hnitmiðaðar svo svörin gefi afdráttarlausa niðurstöðu. Þetta hélt ég að allir vissu. Alla vega finnst mér að alþingismenn eigi að hafa þetta á hreinu. Mér finnst að mikið vanti á að svo sé um þær hugmyndir að spurningums em kynntar hafa verið og á að samþykkja með hraði á næstu dögum frá alþingi. Skoðum það aðeins nánar. Hér kemur yfirlit um spurningarnar.
1. Viltu að tillaga stjórnlagaráðs verði lögð fram sem frumvarp að nýrri stjórnarskrá eftir að hún hefur verið yfirfarin með tilliti til laga og alþjóðasamninga?
Hér er í fyrsta lagi lagt til að maður taki afstöðu til heildartillögunanr áður en hún er endanlega frágengin. Það sér náttúrulega hver maður að það gengur ekki. Það er ekki hægt að leggja ófrágenginn texta fyrir í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er eins og að skrifa undir óútfylltan víxil. Síðan geta verið atriði sem maður er smammála og önnur sem maður er ósammála. Niðurstaðan segir því ekkert um afstöðu fólks. Menn geta tekið afstöðu á móti tillögunum út frá fjölmörgum ástæðum. Hver á að greina þær forsendur ef niðurstaðan verður nei. Það er ekki hægt.
2. Einnig ertu beðin(n) um að svara nokkrum efnislegum spurningum um nýja stjórnarskrá. Viltu að í nýrri stjórnarskrá Íslands verði:
1. Náttúruauðlindir lýstar þjóðareign?
Nú vandast málið. Um hvaða náttúruauðlindir er verið að tala. Grasið á jörðinni, vatnið í ám og vötnum, vindinn, námur, sjávarföll, fiskinn í sjó, vötnum og ám, fuglana í loftinu, dýr merkurinnar. Svar óskast. Svo kemur hin spuringin, Hvað þýðir að náttúruaðlind sé í þjóðareign? Er það þjóðnýting náttúruaðlinda? Er verið að innleiða sovéskan, kúbanskan eða ródesískan kommúnisma undir rós?Hér er spurningin alveg úti á túni og ekkert vit í henni. Gjörsamlega ótæk í þjóðaratkvæðagreiðslu.
2. Ákvæði um þjóðkirkju Íslendinga óbreytt frá því sem nú er?
Hvað þýðir þetta? Hvað eru ákvæðin um þjóðkirkjuna mörg í stjórnarskrárdrögunum? Geta menn ekki verið sammála sumum og ósáttir við önnur? Þýðir já að ekki bmeigi breyta neinu frá því sem nú er. Hvað þýðir nei? Hvað er lesið út úr slíku svari?
3. Persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er?
Í meira mæli!! Hvað þýðir það? Segir þetta eitthvað til um hverskonar persónukjör á að innleiða. Þó verður að segja að þessi spurning meikar hvað mestan sens. Af hverju er ekki hægt að spyrja: Viltu taka upp persónukjör til Alþingis?
4. Ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt?
Af hverju er ekki spurt hvort landið eigi að vera eitt kjördæmi? Er verið að lauma inn ákvæði þess efnis undir rós?
5. Ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningabærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu?
Ef já, hve hátt finnst þér að þetta hlutfall ætti að vera? 10%, 15% eða 20%.
Hvað ef mjög lítill eða enginn munur verður á milli valkostanna þriggja? Hvað gera bændur þá?
Mér finnst þetta ekki gæfulega af stað farið í þessum efnum. Undirbúning að þjóðaratkvæðagreiðslu verður að vanda svo hún verði ekki ein vitleysa. Þá er ver af stað farið en heima setið.
sunnudagur, mars 18, 2012
föstudagur, mars 09, 2012
Stórri spurningu er ósvarað í þessu sambandi og á hana heyrist aldrei minnst. Á hvaða gengi á að skipta krónunni út? Ef það væri gert á núverandi gengi væri verið að læsa inni um aldur og eilífð þann kaupmátt sem Íslendingar hafa í útlandinu um þessar mundir. Þannig væri landið gert að láglaunasvæði innan þess efnahagssvæðis sem það myndi tengjast. Það er ekki að ástæðulausu að Danir, Svíar og Englendingar hafa haldið gjaldmiðli sínum innan ESB. það veitir þeim meira svigrúm til að stjórna sínum efnahagsmálum. Finnar hafa sagt mér að það kom aldrei tilgreina í aðildarferli þeirra að ESB að þeir myndu halda markinu. Nú sáröfunda þeir Svía yfir að hafa haldið krónunni. Svíar lækkuðu gengi krónunnar og gerðu þannig útflutningsvörur sínar samkeppnishæfari í krísunni. Það finna Finnar á eigin skinni. Set niður fleiri punkta um þetta mál á næstunni.
fimmtudagur, mars 01, 2012
Þjóðaratkvæðagreiðsla er dálítið stórt mál. Að öllum jafnaði eru mál ekki lögð í almenna atkvæðagreiðslu, hvort sem um er að ræða í stærri eða minni hóp, nema valkostir séu skýrir svo niðurstaða atkvæðagreiðslunnar geti verið óyggjandi og annað hvort verið endanleg eða veitt skýra leiðbeiningu um í hvaða átt haldið skuli fyrir þá sem taka endanlega ákvörðun.
Ég get ómögulega séð að um slíkt sé að ræða í þessu tilviki. Lagt er t.d. til að bornar séu upp grundvallarspurningar í þjóðaratkvæðagreiðslunni s.s. hvort eigi að taka upp nýtt fiskveiðistjórnunarkerfi. Á að leggja fram slíka spurningu og biðja um já eða nei svar? Nýtt kerfi eða ekki nýtt kerfi. Ef svarið er já, hvað þá? Hvað segir niðurstaðan? Jú, það er óánægja með gamla kerfið en út frá hvaða forsendum? Það hlýtur að vera grundvöllur þess að vita í hvaða átt skal halda með að þróa nýtt kerfi.ef svarið er nei, á þá ekki að breyta neinu um aldur og æfi? Spyr sá sem ekki veit.
Í öðru lagi á að bera upp grundvallarspurningu um hvort eigi að setja sérstakt ákvæði í stjórnarskrána um þjóðareign auðlindarinnar. Hvað þýðir það? Hvað þýðir að þjóðin eigi auðlindina? Þjóðin er ekki sama og ríkið. Þjóðin er virkilega ofnotaður frasi um þessar mundir. Meir að segja er hugtakið þjóðin fléttuð inn í umræðu um 30.000 undirskriftir sem bornar voru heim að bæ nokkrum hér í nágrenninu fyrir stuttu. Þar var minnst á þjóðarvilja enda þótt einungis rúmlega 10% kosningabærra einstaklinga hefðu tekið þátt í undirskriftasöfnuninni.
Svo kemur þetta fína orðalag.... og innkalla aflaheimildir og endurúthluta þeim gegn gjaldi til þjóðarinnar. Hvað þýðir þetta: innkalla aflaheimildir og endurúthluta þeim gegn gjaldi til þjóðarinnar. Hvað þýðir að innkalla aflaheimildir? Jú það þýðir að taka aflaheimildir frá þeim fyrirtækjum sem nú stunda sjóinn og úthluta þeim að meira eða minna leiti til annarra. Það hlýtur að kalla á bætur til þeirra fyrirtækja sem hafa keypt heimildirnar og missa starfsgrundvöll sinn. Verður þessa látið getið í væntanlegri þjóðaratkvæðagreiðslu hvað „já“ niðurstaðan gæti kostað ríkið og þar með þjóðina? Verður þess látið getið í atkvæðagreiðslunni hvernig staðið verður að endurúthlutuninni? Ríkir almenn sátt um þá aðferðafræði? Eru ekki margir möguleikar þar á ferðinni?
Svo er ákvæðið að endurúthluta aflaheimildum gegn gjaldi til þjóðarinnar. Er hér verið að tala um skattlagningu í ríkissjóð eða er verið að tala um að hver íbúi landsins fái senda ávísun? Hvernig á að vera hægt að fjalla um slík mál í þjóðaratkvæðagreiðslu. Á það má minna í þessu sambandi að meirihluti þjóðarinnar býr á suðvesturhorninu. Hann yrði vafalaust ánægður með að fá meiri peninga í ríkissjóð til að auka og bæta þjónustuna við þennan landshluta. Ætli íbúar annarra landshluta yrðu jafnánægðir með þá þróun mála.
Alþingismenn eru kosnir á þing til að setja löggjöf og skipa öðrum þeim málaum sem því tengist. Þeir þurfa oft að taka ákvarðanir sem eru misvinsælar. Á seinni árum hefur vægi skoðanakannana farið vaxandi í almennri umræðu. Stjórnmálamenn nota niðurstöður þeirra gjarna og taka afstöðu út frá því hvað „þjóðin vill“ í hinum og þessum málum. Nú sýnist mér að það eigi að fara að nota þjóðaratkvæðagreiðslur í álíka tilgangi. Slíkar aatkvæðagreiðslur hafa einungis eitthvert gildi ef spurningarnar sem svara skal séu mjög afdráttarlausar og skýrarr. Ég fæ ómögulega séð að það eigi við í þessu tilefni.