Ég sótti ágæta ráðstefnu um gjaldmiðlamálin sem Framsóknarflokkurinn hélt fyrir skömmu. Þar voru fluttir ágætir fyrirlestrar þar sem þessi mál voru reifuð frá ýmsum hliðum. Ekkert var að vísu minnst á skiptigengið. Þar kom meðal annars fram að upptaka nýs gjaldmiðils mun kalla á og knýja fram gjörbreytt vinnubrögð í stjórnun ríkisfjármála. Ef lausatök verða á opinberum fjármálum og eytt verður um efni fram þá verður ekki hægt að leiðrétta kúrsinn með gengisfellingu. Lausatök í efnahagsmálm munu leiða af sér skuldasöfnun ríksins. Ef ekkert verður að gert mun það enda í Grikklandsstöðunni sem er ekkert annað en þjóðargjaldþrot. Þeirri stöðu fylgir gríðarlegur niðurskurður í opinberri þjónustu og starfsemi opinbera geirans. Það er bara nákvæmlega sama og myndi henda mitt heimilishald ef ég væri búinn að skuldsetja mig um efni fram. Það er hægt að styrkja krónuna með styrkri efnahagsstefnu með nákvæmlega sömu vinnubrögðum og þarf að taka upp með nýjum gjaldmiðli. Þá yrði hins vegar haldið þeim möguleika að halada þeim öryggisventli sem krónan er. Ég veit t.d. að Finnar öfunda Svía af því að hafa eigin gjaldmiðil sem þeir hafa notað til að bæta stöðu útflutningsatvinnugreinanna sem leiðir m.a. af sér minna atvinnuleysi. Eitt af því sem haldið var fram á fundinum sem framsóknarmenns stóðu fyrir var að misskipting í samfélaginu myndi aukast með upptöku erlends gjaldmiðils. Þetta er flötur sem þarf að ræða. Staða hverra mun styrkjast og hverjir verða undir? Því var einnig haldið fram að hærra atvinnuleysisstig en við höfum verið vön muni festa rætur. Sú skoðun kemur mér ekki á óvart.
Umræðan um að við ættum að taka upp kanadadollar var svona eins og þessi umræða hefur verið hérlendis. Það slær einhver einhverju fram í fullyrðingastíl. Fullyrðingin verður miðpunktur umræðunnar en fæstir vita neitt um málið. Það ég best veit eru helstu stoðir kanadísks efnahagslífs olíuvinnsla, námugröftur, skógarhögg og hefðbundinn landbúnaður (kornrækt). Þetta eru ekki beint þeir þættir sem standa undir okkar efnahagslífi. Segjum svo að olíuverð hækki. Það styrkir efnahagslíf Kanada og kanadadollar styrkist. Íslenski skipaflotinn kaupir mikið af olíu. Þegar olíuverð hækkar versnar afkomu útgerðarinnar. Á sama tíma hefur gengi gjaldmiðilsins styrkst og útgerðin fær þannig minni fjármuni fyrir framleiðslu sína við útflutninginn. Þannig mun sú þróun sem bætir hag Kanada manna (olíuverðshækkun) hafa neikvæð áhrif á tvöfaldan hátt afkomu sjávarútvegsins sem er okkar undirstöðuatvinnuvegur. Þetta er smá dæmi um að hlutirnir eru ekki eins einfaldir og af er látið. Að mínu mati er evran eini gjaldmiðillinn sem kæmi til greina ef við myndum skipta um gjaldmiðil en hvort það er skynsamlegt er allt önnur saga.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli