föstudagur, mars 09, 2012

Staða krónunnar hefur verið mikið til umræðu á undanförnum mánuðum og misserum. Margir hafa verið tilkallaðir um að tala hana niður á alla mögulega vegu. Þar eru fáir undanskyldir af þeim sem mesta ábyrgð bera í samfélaginu. Það er dálítið sérstakt að margir alþingismenn og ráðherrar skuli sammælast um að gera eins lítið úr gjaldmiðli þjóðarinnar eins og mögulegt er. Er von að aðrir hafi trú á krónunni ef ýmsir framámenn þjóðarinnar tala hana niður hvar sem þeir geta. Krónunni er kennt um flest sem hefur misfarist í fjármálaunhverfi þjóðarinnar. Vaxtastig, verðbólga og gjaldeyrishöft, allt er henni að kenna. Mín skoðun er sú í þessu sambandi að árinn kenni illur ræðari. Staða krónunnar og þróun hennar ber merki þess hvernig á spilunum hefur verið haldið. Þegar eytt er um efni fram árum og áratugum saman þá veikist gjaldmiðillinn. Það getur ekkert annað skeð. Krónan er miklu frekar mælikvarði á efnahagstjórnina og aga í ríkisfjármálum á undanförnum áratugum frekar en orsakavaldur. Það er hins vegar ósköp þægilegt að gera hana að sökudólg. Gera sendiboða válegra tíðinda ábyrgan. Margir mikilsmetandi menn hafa sagt að það sé ekkert mál að taka upp annan gjaldmiðil. Það geti gerst á nokkrum vikum. Bandaríkjadollar er nefndur í því sambandi. Aðrir tala um evruna sem eina bjargráðið. Nú veit ég að því fylgir kostir og gallar að halda krónunni. Hún er einn minnsti gjaldmiðill heims. Það segir hins vegar ekki alla söguna. Ef hér væri stöðugt jákvæður viðskiptajöfnuður og gjaldeyrisforðinn myndi styrkjast jafnt og þétt þá myndi krónan styrkjast. Það væri ekkert hókus pókus heldur vegna þess að umhverfið myndi hafa trú á stjórn efnahagsmála. Það er hins vegar hókus pókus þegar því er haldið fram að skipti á gjaldmiðli myndi leysa allan vanda. Það er hægt að fullyrða það með stórum stöfum að þá er fyrst hætta á ferðum ef skipt væri um gjaldmiðil og síðan haldið áfram eftir sömu navigation í stjórn efnahagsmála. Stjórnvöld væru ekki lengi að keyra landið í þrot með þeim vinnubrögðum. Það er því alveg á hreinu að upptaka nýs gjaldmiðils mun knýja fram allt önnur vinnubrög í stjórnun opinnberra fjármála. Sú krafa yrði ófrávíkjanleg að ríkissjóður yrði rekinn með afgangi. Sama myndi gilda um sveitarfélögin. Samskipti ríkis og sveitarfélaga myndu breytast í grundvallaratriðum. Sem dæmi má nefna að í Danmörku fá sveitarfélögin (A-hlutinn) ekki að taka lán. Ríkisstjórnin leggur ákveðna fjármuni í framkvæmdasjóð sveitarfélaganna og í hann geta sveitarfélögin sótt um ríkisframlög ef þau fyrirhuga að hefja stærri framkvæmdir. Þannig getur ríkið stjórnað framkvæmdamagni hjá sveitarfélögunum. Ef sveitarfélögin eru rekin með halla þá verða þau að jafna hallann út á næsta ári. Ríkið getur dregið úr framlögum til þeirra í þeim tilgangi að skikka þau til hlýðni. Einstök ráðuneyti fá ekki að leggja fram frumvörp eða reglugerðir sem hafa fjárhagslega íþyngjandi áhrif á rekstur sveitarfélaga nema að þau hafi fjármuni til að láta fylgja verkefninu. Annars verða þau að draga slíkar fyrirætlanir til baka. Ríki og sveitarfélög semja um millifærslur frá ríki til sveitarfélaga en ríkið mótar skattastefnuna og útgjaldastefnuna.
Stórri spurningu er ósvarað í þessu sambandi og á hana heyrist aldrei minnst. Á hvaða gengi á að skipta krónunni út? Ef það væri gert á núverandi gengi væri verið að læsa inni um aldur og eilífð þann kaupmátt sem Íslendingar hafa í útlandinu um þessar mundir. Þannig væri landið gert að láglaunasvæði innan þess efnahagssvæðis sem það myndi tengjast. Það er ekki að ástæðulausu að Danir, Svíar og Englendingar hafa haldið gjaldmiðli sínum innan ESB. það veitir þeim meira svigrúm til að stjórna sínum efnahagsmálum. Finnar hafa sagt mér að það kom aldrei tilgreina í aðildarferli þeirra að ESB að þeir myndu halda markinu. Nú sáröfunda þeir Svía yfir að hafa haldið krónunni. Svíar lækkuðu gengi krónunnar og gerðu þannig útflutningsvörur sínar samkeppnishæfari í krísunni. Það finna Finnar á eigin skinni. Set niður fleiri punkta um þetta mál á næstunni.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mér finnst þú taka heldur djúpt í árinni þegar þú segir: „Ef [krónunni væri skipt út] á núverandi gengi væri verið að læsa inni um aldur og eilífð þann kaupmátt sem Íslendingar hafa í útlandinu um þessar mundir.“
Kaup og kaupmáttur eru vissulega seigfljótandi stærðir, en það er jú eitt af lögmálum hagfræðinnar að mismunur í kaupmætti og verðlagi jafnar sig, sé ekki rík ástæða fyrir öðru. Í hagfræðibókinni sem ég þurfti að lesa í MBA náminu mínu hét það: „just as nature abhors a vacuum, markets abhor price differentials“. Að öðru jöfnu ræðst kaupmáttur í hagkerfi af framleiðslugetu þess. Hvaða gjaldmiðill er notaður skiptir ekki höfuðmáli í því sambandi.
Þetta er að gerast fyrir augunum á okkur: Kaupmáttur fer vaxandi á Íslandi en hann vex ekki jafnt hjá öllum. Stórar og mikilvægar stéttir sitja eftir.
Það virðist vera að eiga sér stað mjög varhugaverð þróun. Ákveðnar stéttir eru að upplifa mikið launaskrið nú þegar samdrættinum er að ljúka. Stéttir sem búa að þekkingu sem er flytjanleg milli landa njóta góðs af því að íslenskir atvinnurekendur þurfa að keppa um starfsfólk við erlend fyrirtæki sem geta selt þjónustu sína miklu hærra verði. Mér hafa verið boðin laun á Íslandi sem eru 30% hærri í IKR en ég hafði í hágóðærinu! Þetta er ein af skuggahliðum hnattvæðingarinnar. Misréttið eykst. Ef við gefum okkur að það sem vinnuveitendur hafa til ráðstöfunar til að greiða laun sé fasti, þá verður jafnvel enn minna eftir fyrir þá sem ekki unnu í starfsvettvangshappadrættinu.
Þetta bætist við skuldavandann sem mörg heimili glíma við. Ég er hræddur um að jafnaðarparadísin sem við ólumst upp í standi frammi fyrir miklum vanda.

Grímur