miðvikudagur, júní 13, 2012


GUCR 2./3. júní

Ég hef vitað af Grand Union Canal Race í nokkurn tíma. Það er eitt af virkilega löngu hlaupunum og þeim stóru. Það er lengsta og erfiðasta hlaup Bretlands sem hlaupið er í einum áfanga eða 144 enskar mílur. Það er hlaupið frá miðborg Birmingham og endar inni í London. Nokkrir félagar mínir í langhlaupunum höfðu tekið þátt í því og sagt mér frá því. Þar má t.d. nefna Neil Capoor, okkar ágæta breska félaga, sem hljóp það árið 2005 á rúmum 35 klst. Geir Frykholm, norskur hlaupari sem lauk Spartathlon sama ár og ég, hljóp það árið 2008 á rúmum 39 klst og Stefan Lindwall, sænskur hlaupari sem býr í Gautaborg, lauk því árið 2009 á tæpum 35 klst. Því byggðist þarna upp áskorun sem freistaði að takast á við. Ég ákvað því í fyrra að GUCR skyldi vera eitt af verkefnum ársins ef ég kæmist í hlaupið. Þátttaka er takmörkuð því aðstandendur ráða einungis við um 100 manna hóp. Ég meldaði mig í hlaupið í fyrrahaust og vonaði það besta. Þegar ég sá svo listann um þá heppnu á heimasíðu hlaupsins þá var ég ekki þar. Þannig fór það. Það verður þá bara eitthvað annað. Nokkrum dögum síðar fékk ég síðan tölvupóst frá Dick, forsvarsmanni hlaupsins þar sem hann bauð mér að taka þátt í hlaupinun þrátt fyrir að ég hefði ekki verið dreginn út. Hann var með einhverjar skýringar um að það hefði gleymst að setja mig í pottinn en hvað veit ég. Ég tók umsvifalaust hinu góða boði og kúrsinn var settur. Æfingarnar gengu ekkert sérstaklega vel í vetur. Ég var nokkuð lengi að koma mér í gang efti áramótin en svo fór þetta aðeins að rúlla. Páskarnir, þar sem átti að taka á því, fóru alveg í vaskinn út af kvefi. Á hinn bóginn var ég orðinn nokkuð góður eftir páskana og náði fínum dampi þegar fór að líða á maí. Ég fann á Esjunni að ég var kominn í ágætt form. Líklega hjálpaði það mér að ég hjólaði í vinnuna í allan vetur. Það er lúmsk styrking að hjóla í misjafnri færð.
Annað sem olli mér áhyggjum þegar fór að styttast í hlaupið var rötunin. Ég lenti í vandræðum með hana nokkrum sinnum í London – Brighton hlaupinu og vildi ógjarna tefja mig á því aftur. Bretarnir sendu kort en þau voru dálítið smáletruð. Það bjargaði mér hins vegar að Stefan Lindwall sendi mér mun betri kort sem Svíarnir höfðu útbúið. Það létti af mér nokkrum áhyggjum svo nú var mér ekkert að vanbúnaði. Með nesti og nýja skó frá Sportís (Asics) hélt ég svo út til Bretlands þann 31. mai. Ég tók lestina strax uppeftir til Birmingham og kom þangað um 1:30 um nóttina. Ég tók leigubíl á hótelið og skildi ekkert í því hvers vegna bílstjórinn varpaði öndinni svo mæðulega þegar ég sagði honum hvert ég ætti að fara. Hann ók mér nefnilega aðeins bak við næsta horn en það var svona fimm mínútna gangur á gistiheimilið frá lestarstöðinni á New Street.
Daginn eftir notaði ég m.a. til að finna staðinn þar sem afhenda átti gögnin síðdegis. Það átti að ske á gistiheimili á Broad Street nr 15. Það var svo sem allt í lagi nema að bæði er númerakerfið á húsunum í þessari borg þannig að númerin byrja frá einum annars vegar á götunni og á einhverjum stað snýr talnarunan við og hækkar á hinni hlið götunnar. Einnig eru húsin mjög illa merkt með númerum. Mér gekk því ekkert að finna gistiheimilið þar sem átti að afhenda gögnin. Ég fór að lokum inn á hótel og spurðist til vegar. Sá sem ég talaði við sagðist ekki vita um neitt gistiheimili með þessu tiltekna nafni á Broad Street ef ske kynni að ég væri að leita að því sem væri akkúrat hins vegar við götuna. Það stóð heima!!! Merkingin var ekki betri en þetta að ég hafði ekki tekið eftir skiltinu.

Tæpum tveimur vikum fyrir keppnina hafði verið spáð nær 30°C hita í Birmingham þessa helgi en nú var spáín orðin breytt. Hún hljóðaði upp á 13-15°C hita og rigningu með köflum. Það var í sjálfu sér betra en ofsahiti. Maður renndi hins vegar blint í sjóninn með hvað myndi rigna mikið.
Ég var kominn út um kl. fimm um morguninn. Þá var byrjað að rigna. Það var ekkert við því að gera. Við rásmarkið fór fólki stöðugt fjölgandi því margir áttu eftir að taka gögn. Stöðugt rigndi og manni leist ekkert á þetta. Það var þó sárabót að það var hlýtt. Að lokum safnaðist hópurinn saman við kanalinn og Dick sagði nokkur orð. Hann ráðlagði hlaupurunum meðal annars frá því að taka “painkillers” þrátt fyrir að þeim liði illa í fótunum. Það væri betra að vera smá sárfættur um tíma en að lenda á sjúkrahúsi út af pilluáti. Svo var sagt GO og strollan lagði af stað. Það voru um 100 hlauparar sem lögðu af stað meðfram kanalinum í þetta langa hlaup.

Ég fer alltaf hægt af stað í svona hlaupum. Maður þarf tíma til að finna taktinn og eins er löng leið fyrir höndum. Það var hlaupið á bakkanum á kanalinum. Víða voru brýr sem þurfti að fara yfir. Brýrnar voru hálar í rigningunni svo ég fór varlega og gekk yfir þær. Það var skynsamlegt því eftir ca einn km þá datt hlaupari rétt fyrir aftan mig og meiddi sig eitthvað. Líklega hefur hann ekki farið mikið lengra. Eftir skamma stund var komið út úr borginni og þá var hlaupið meðfram kanalinum þar sem hann lá um breskar sveitir. Stundum lá hann lægra en landið í kring en stundum mun hærra. Landið var svo sem ekki mjög fjölbreytt, akrar, tún og beitiland. Á kanalinum voru fjöldi báta sem voru flestir líkir í útliti, langir, mjóir og grunnristir. Þetta eru sumarbústaðir margra breta sem nota sumarfríið til að dóla um landið eftir þessu kanalakerfi. Sumstaðar voru skipastigar með allt að 10 tröppum.
Það var gaman að hlaupa meðfram framandi umhverfi en hlaupið var þó aðalatriðið. Um hádegið hætti að rigna og var að mestu leyti þurrt fram á kvöld. Drykkjarstöðvarnar voru á um 25 km fresti og því þurfti maður að hafa nægan vökva með sér. Ég var framan af með bakpoka með vatni og ýmsu dóti í en þegar var komið undir kvöld þá losaði ég mig við hann og tók brúsa í báðar hendur. Mér fannst það einfaldlega þægilegra.

Það teygðist fljótlega úr hópnum og eftir nokkra klukkutíma sást einungis í mann og mann á stangli. Það rættist þarna eins og í svo mörgum hlaupum að þegar komið er yfir 60-70 km þá fer að þyngja fyrir fæti hjá mörgum. Ég hugsa að ég hafi farið fram úr 20-30 manns á tímabilinu 60- 100 km. Þá fer þreytan að færast yfir fólk. Við 100 km markið sat strákur sem var alveg búinn og hefur vafalaust ekki farið lengra. Ég var um 12 klst að fara 100 km. Það var með vilja gert að fara ekki hraðar því það var löng leið framundan. Leiðin var einnig einkennilega hægfarin þrátt fyrir að hún væri heldur flöt. Malarstígar og gras er ekki ætlað til hraðhlaupa klukkutímum saman. Rötunin var víðast hvar mjög einföld. Ég var þó alltaf með kortið í hendinni sem skipti máli til að hafa á hreinu hvar maður væri. Mér leið alltaf heldur vel nema einu sinni undir kvöldið fór maginn að kvarta. Ég þurfti að hægja á mér í svona klukkutíma til að ná honum í lag aftur. Það gengur ekki að geta ekki drukkið eins og maður þarf á að halda fyrir ógleði. Þá er voðinn vís. Því er betra að hægja á sér, drekka minna og bíða eftir að jafnvægi komist á. Myrkrið skall á um kl. 21:30 og það var dimmt fram til 4:00 um morguninn. Ég hringdi í Svein og lét vita af mér og gerði ráð fyrir að hringja aftur eftir um 12 tíma til að sigtað út tíma við markið. Með vasaljósi og höfuðljósi var myrkrið engin hindrun en það var annað verra sem skall yfir.  Þegar leið á kvöldið fór að rigna á nýjan leik og undir miðnættið fór að hellirigna eins og hellt væri úr fötu. Það hellirigndi í um tvo klukkutíma og eftir dembuna var ekki á manni þurr þráður. Það var ekkert annað að gera en að paufast áfram en þetta flýtti ekki fyrir. Það vildi til að það var heldur hlýtt svo manni kólnaði ekki mikið. Á þessum tíma týndi ég þó upp einn og annan því það voru fleiri sem rigningin hægði á. Ég kom að drykkjarstöð um kl.3:30 og skipti þar um skó. Þó að skórnir sem ég fór úr daginn áður hafi verið orðnir rakir þá var það þó betra en að vera í drullublautum skóm. Blöðrurnar fara fljótt að sýna sig við slíkar aðstæður Ég plástraði mig vel til að draga úr blöðrunum eins og hægt var. Það var auðveldara að halda áfram þegar það var farið að birta. Ég var um 20 tíma með 160 km en annars er ég ekki alveg klár á tímanum því úrið mitt fór eitthvað að pirra sig á rigningunni og seinkaði sér. Áfram var haldið en nú fór maður að verða sárfættur. Malarstígar eru ekki heppilegasta undirlagið fyrir blauta fætur. Það dró úr hraðanum ef eitthvað var. Á næstu drykkjarstöð var boðið upp á “english breakfast”. Spæld egg, pulsur og heitar baunir er kostafæða við þessar aðstæður. Þessi morgunmatur hressti mann allan upp og áfram var haldið. Nú var farið að hilla undir endamarkið. Ég hringdi aftur í Svein og lét vita að ég yrði kominn undir kl. 17:00 ef allt gengi að óskum. Ég vissi af einum sem var dálítið fyrir aftan mig en það var nokkuð langt í þá sem voru fyrir framan mig. Þó dró ég upp konu á næstsíðustu drykkjarstöðinni en hún fór af stað á undan mér. Svo kom sá sem var á eftir mér rétt áður en ég fór af stað. Annars vissi maður ekkert um fjölda, röð eða neitt hvað varðaði framgang hlaupsins. Fólkið á drykkjarstöðvunum var afar hjálplegt og vildi allt fyrir mann gera. Ég lét flytja töskuna mína milli drykkjarstöðva og borgaði sérstaklega fyrir það. Aðrir voru með aðstoðarfólk sem hittu hlauparann hér og hvar á brautinni með vistir og föt. Ég hitti nokkrum sinnum eldri hjón sem voru að aðstoða son sinn. Þau voru afar vinsamleg, gáfu mér að drekka og gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til að létta undir með þyrstum hlaupara. Ég var með lykil að British Waterpost og fékk mér vatn þar af og til úr þeim. Það var hins vegar ekki á vísan að róa að finna kranana svo maður var með birgðir eftir því sem hægt var. Rötunin hafði gengið áfallalaust nema einu sinni missti ég af litlu skilti sem var á hliði á hliðargötu þar sem maður átti að fara út af aðalveginum. Sem betur fer kom bíll á eftir mér sem leiðbeindi mér á rétta leið áður en ég fór villur vegar. Því var ég orðin nokkuð áhyggjulaus um að hún yrði til vandræða. Þegar maður verður kærulaus þá gerast óhöppin. Við þriðja síðasta punktinn (af 48) þá tók ég ranga ákvörðun. Ég beygði til hægri í stað þess að halda beint áfram. Ég hélt svo áfram uns ég fór út af kortinu og tók upp síðasta kortið. Þá sá ég að það var eitthvað sem ekki passaði. Ég hitti mann og spurði hann til vegar en hann vissi ekki neitt. Að lokum bar ég saman kortin og þá fór ekki á milli mála að ég var á rangri leið. Djöfull varð ég reiður við sjálfan mig. Þarna var ég búinn að fara a.m.k. tvo kílómetra úr leið og örugglega búinn að missa slatta fram úr mér. Það var ekkert við því að gera annað en að snúa við og gera sitt besta. Ég fór að hlaupa til baka og þá var það svo merkilegt að allur sársauki var horfinn úr fótunum og ég hljóp miklu hraðar en ég hafði hugmynd um að ég gæti. Ég keyrði því alveg eins og ég gat til að reyna að vinna upp skömmina. Þarna voru um 27 km í mark með aukakílómetrunum. Ég kom fljótlega að gatnamótunum og sneri inn á rétta leið. Fljótlega náði ég þremur mönnum sem fóru heldur hægt yfir. Það herti mig upp og ég sá að kannski var ekki allt komið í vaskinn. Ég hélt áfram mínu striki og þurfti ekkert að hægja á. Eftir stund kom ég að síðustu drykkjarstöðinni. Ég skellti í mig tvemur banönum, svolgraði slatta af kóki, fyllti á alla brúsa og æddi svo af stað. Nú skyldi ekkert gefið eftir. Það voru nákvæmlega 20 km í mark frá síðustu drykkjarstöð. Það gat ýmislegt gerst á þessari leið. Eftir stund náði ég tveimur hlaupurum og þekkti þar konuna sem hafði farið á undan mér frá drykkjarstöðinni þar á undan. Ég vissi síðan að hlauparinn sem var rétt á eftir mér fram undir það síðasta hlyti að vera kominn á undan. Það herti á mér ef eitthvað var. Nú beit maður sig fastan í styttri veglengdir og skipti hlaupinu upp í stutta áfanga. Hlaupa stanslaust að næstu beygju. Þá var að hlaupa þaðan án þess að stoppa að að næsta tanga. Þá var að hlaupa af sama krafti að næstu brú. Þar gekk ég nokkur skref og fékk mér að drekka. Þannig var haldið áfram, kílómeter eftir kílómeter. Fæturnir héldu fullkomlega, enginn sársauki og allt í fínu lagi. Þar var hins vegar farið að rigna með mótvindi sem hjálpaði ekki til. Loks þegar um einn km var eftir sá ég kunnuglegan gulan jakka framundan. Þar var kominn hlauparinn sem ég vildi hafa fyrir aftan mig. Ég hélt mínu skriði áfram og fór fram úr honum þegar um 500 metrar voru í mark. Þá var ég örugglega búinn að hala allt inn sem ég hafði misst niður á aukakróknum. Ég kom síðan í mark á 34.35 og var mjög sáttur við það. Það var betri tími en félagar mínir þrír höfðu náð á fyrri árum. Ég hafði gert ráð fyrir að fara síðasta legginn á um þremur tímum en það tók mig tvo tíma og fimm mínútur að hlaupa hann. Þannig held ég að villan hafi jafnvel skilað betri tíma þegar upp var staðið þegar reiðin ýtti sársaukanum til hliðar. Í markinu biðu Sveinn og Elísa kærastan hans. Þau komu með bjórinn sem ég bað þau um og það var fínt af fá sér einn kaldan að hlaupalokum. Fólkið í markinu sagði mér að ég hefði verið sá fimmtándi sem kom í mark. Það var fínt en um 100 lögðu af stað. Síðan frétti eg að það hefðu rímlega 40 hætt. Það kom mér ekki á óvart miðað við veðrið og hvað maður sá til fólks. Það var hins vegar ekki til setunnar boðið því það húðrigndi og það slær fljótt að manni við svona aðstæður. Því drifum við okkur eins fljótt og hægt var niður í næstu lest og ég skipti svo um föt í vagnunum og skeytti ekkert um hvort þar væri eðlilegt eða ekki. Nauðsyn brýtur lög. Ég var í fínu lagi eftir hlaupið og fann ekki til í kálfum eða lærum. Það var ánægjulegt að hafa lokið þessari þraut á góðum tíma og án erfiðleika.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með glæsilegan árangur. Virkilega gaman að lesa keppnissöguna og það er greinilegt að þú hefur hlaupið ansi hratt síðustu tvo tímana. Þú ert í hörkuformi miða við hvernig líðanin var eftir hlaupið.
Steinn Jóhannsson

Stefán Gísla sagði...

Til hamingju með hlaupið og takk fyrir þessa skemmtilegu frásögn. Það hefur greinilega verið líf í tuskunum síðasta spölinn. Maður nær ekki alltaf svona góðum 20 km endaspretti! :)
Stefán Gíslason

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með hlaupið Gunnlaugur, þú ert sannarlega magnaður íþróttamaður.
Kveðja, Hákon Hrafn