fimmtudagur, júlí 19, 2012


Jozin z Bazin polskie napisy

María hleypur 100 m grind á HM undir 20 ára



Kosningar eru oftast skemmtilegar. Þó geri ég undantekningu hvað varðar kosninguna til stjórnlagaþings fyrir nokkru. Ég hafði engan áhuga fyrir henni og svo var um marga fleiri miðað við kosningaþátttökuna (35%). Nýafstaðnar forsetakosningar voru áhugaverðar um margt. Í þeim var gerð alvöru atlaga að sitjandi foseta sem gaf kost á sér til áframhaldandi setu eftir nokkuð sérkennilegan aðdraganda. Það þurfti að rýna nokkuð fast í glæðurnar í áramótaávarpinu en þar var engum dyrum lokað þegar grant var skoðað. Það var vitað mál að þau öfl í samfélaginu sem voru ósátt við aðgerðir forsetans í Icesafe málinu myndu gera gangskör að því að finna kandidat sem gæti sigrað hann í kosningum. Aðdragandi þess var vægt sagt ótrúverðugur. Gerð var skoðanakönnun (ein eða fleiri) þar sem kannað var hver þætti vera öflugastur kandidat. Þar skoraði hæst þekkt og vinsæl sjónvarpskona. Þrátt fyrir að hún væri komin á steypirinn og ætti að fæða í miðri kosningabaráttunni var greinilega þrýst mjög á hana að gefa kost á sér. Hún lét til leiðast og skoraði hátt í skoðanakönnunum fyrsta kastið. Vafalaust lét hún tilleiðast vegna þess að hún sá fram á sigur í kosningunum miðað við stöðuna í skoðanakönnunum síðla vetrar.
Ég hef ekki alltaf verið sáttur víð Ólaf Ragnar Grímsson. Það átti bæði við í tíð hans sem formanns Alþýðubandalagsins svo og eftir að hann var kjörinn forseti. Það á þó við í þessu efni eins og mörgu öðru að það verður að meta sterkar og veikar hliðar í öllum málum. Eftir framgöngu forsetans í Icesafemálinu og hvernig hann tók málstað íslensku þjóðarinnar á erlendum vettvangi eftir að stjórnvöld virtust gersamlega máttlaus og getulaus á því sviði þá var það ekki vafi í mínum huga að ég myndi greiða honum atkvæði. Það skiptir miklum máli að hafa öflugan þjóðhöfðingja sem getur talað máli þjóðarinnar á erfiðum stundum.
Það kom klárlega í ljós í umræðum í aðdraganda kosninganna að það er engin tilviljun að aldurstakmark við kjörgengi til forsetaembættisns er sett við 35 ár. Mér fannst skína í gegn að Þóra Arnórsdóttir hafði alls ekki þá reynslu og þroska til að bera til að geta risið undir því að vera kosinn forseti. Margir segja að það skipti ekki svo miklu máli hve sé kosinn forseti en ég er einfaldlega ósammála því. Þjóðhöfðingi verður að hafa ákveðinn myndugleika, búa yfir margháttaðri reynslu og hafa sýnt það að hann standi undir því að vera falin ábyrgð og forysta. Síðan fannst mér það svo merkilegt að því meir sem Þóra talaði því minna sagði hún. Einhvern veginn læðist sú skoðun að manni að framboðið hafi að miklu leyti verið hannað af svökölluðum markaðssetningarsérfræðingum og hún hafi ekki fengið tækifæri til að vera hún sjálf. Svo merkilegt sem það var þá var hún í vörn frá og með fyrsta degi eftir að Ólafur Ragnar steig fram á sviðið að fullri alvöru. Hann kunni þetta allt saman. Síðan er annar hlutur sem mér finnst skipta miklu máli í þessu samhengi. Að fara fram á það við konu sem er komin á steypirinn að taka þátt í harðri kosningabaráttu finnst mér vera fyrir neðan allt sem sæmilegt er. Auðvitað eru nógir um að halda lífi í barninu og sinna því ef það er eina markmiðið. Kosningabarátta er hins vegar ekki einhver 9-5 vinna. Hún er þrotlaust púl og stress allan sólarhringinn, ferðalög og þvælingur, taugaspenna og áreiti. Konur sem eru komnar á steypirinn og eða nýbúnar að fæða eru undir miklu álagi vegna þess eins þótt svo að allt hitt bætist ekki ofan á. Ekki meir um það. Ég hefði síðan aldrei kosið frambjóðenda til forseta sem á maka sem er á sakaskrá samkvæmt því sem fram kom í fjölmiðlum. Það er mjög einfalt og í raun stórfurðulegt að upphafsmenn framboðsins skuli ekki hafa ígrundað þá hlið málsins. Vitaskuld hlaut það allt að koma upp á yfirborðið. Það var reynt að berja umræðu um það niður með því að kalla það persónulegar árásir og annað slíkt en auðvitað var það gagnslaust. Síðan voru örþrifaráð eins og Þórudagur, Þórupylsur, Þóru hitt og Þóru þetta bara til að gera framboðið hlægilegt í augum margra. Það var eins og upp væri sprottinn sértrúarsöfnuður sem hafði fundið sinn leiðtoga.
Hvað aðra frambjóðendur varðar þá hefði ég aldrei getað kosið Ara Trausta og mun aldrei gera. Ég virði hann sem fræðimann, fagmann og rithöfund en ég hef ekki séð að hann hafi gert upp kommúnistiska fortíð sína. Sem formaður Einingarsamtaka kommmúnista (EIK) á sínum tíma var hann enginn venjulegur kaffihúsakommi. Formaður í byltingarsinnuðum kommúnistasamtökum er enginn venjulegur vinstri maður. Ég er ekki tilbúinn til að styðja einstaklinng með slíka fortíð til forsetaembætts þjóðarinnar. Flóknara er það ekki. Það kom mér á óvart hvað Herdís Þorgeirsdóttir fékk lítið fylgi.Sama og ekki neitt. Mjög snemma fékk maður að heyra úr öllum áttum að hún væri svo frek og leiðinleg að það væri ekki hægt að púkka upp á hana. Ég veit ekkert um það. Einnig heyrði maður fljótt að hún væri ekki alvöru lögfræðingur þótt svo hún kallaði sig svo. Þetta hafði ég meir að segja frá lögfræðingum. Það var fljótgert að ganga úr skugga um að þetta var þvæla. Hún er hdl með fullum réttindum. Það kom síðan í ljós í kosningunum að hin svokölluðu Hagsmunasamtök heimilanna eru bara lítill þröngur hópur. Ef samtökin væru fjöldasamtök hefði formaðurinn ekki fengið einungis 1,eitthvað % atkvæða. Samtökin virðast því einungis vera lítil en hávær klíka sem að mínu mati skreyta sig nafni sem þau standa ekki undir. Formaðurinn fór einnig út um víða völl án þess að vita hvað hún var að segja eins og þegar hún sagðist sem forseti leysa ráðherra frá störfum ef þjóðinni sýndist ástæða til þess. Maður getur rétt ímyndað sér stjórnarfarið er forsetinn væri að ráða og reka ráðherra eftir niðurstöðum skoðanakannana. Ég ætla ekkert um Hannes að segja. Hann átti vitaskuld aldrei séns enda hömpuðu fjölmiðlar honum ekki eins og ýmsum öðrum. Hann er vafalaust ágætis maður sem hefur viljað vel.
Sem sagt, kosningar eru alltaf skemmtilegar og gefa tækifæri til margháttaðra vangaveltna. Á hinn bóginn má aldrei gleyma því að niðurstaða úr lýðræðislegum kosningum er ætíð rétt. Fólk getur verið ósátt við niðurstöðuna en hún er rétt ef farið hefur veruið eftir gildandi reglum þar um. Flóknara er það ekki. Það má hins vegar ekki gleyma því að það er ekki sjálfsagt að hafa réttindi til að kjósa. Almenningur í fjölmörgum þjóðríkjum heimsins hefur ekki þann rétt. Því eigum við að umgangast hann af virðingu.  

sunnudagur, júní 24, 2012

Bjartmar Súrmjólk

Esjutattú



Það var óskaplega fallegt veður úti þegar ég vaknaði um kl. 3:30 aðfaranótt laugardagsins. Úti var heiðskýrt, blæjalogn, hlýtt og smá þokuhnoðrar í Esjunni. Betri gátu aðstæður ekki verið fyrir komandi dag. Ég hafði reyndar ekki sofið allt of vel um nóttina. Upp úr miðnætti lenti kötturinn okkar í miklum hávaðaslagsmálum við einhvern aðkomuribbalda úti á bílastæði. Lætin í þeim gerðu hundinn í næstnæsta húsi vitlausan svo hann gelti allt hvað af tók. Geltið í honum vakti smábörn í einhverju húsi sem grétu ákaflega. Það má því segja að kettirnir hafi komið hverfinu í uppnám um stund. Ég hafði ákveðið síðla vetrar með nokkrum Rotarryfélögum að fara 10 ferðir á Esjuna til stuðnings baráttu Rotary gegn lömunarveiki í nokkrum löndum þriðja heimsins. Það hafði hist svo skemmtilega á að  bjartsýnis- og framkvæmdafólkið Elísabet, Daníel Smári og Sigurður höfðu skipulagt fyrsta Esjumaraþonið sama daginn. Ég hafði fyrst svolitlar áhyggjur af að það gengi ekki að tvinna þetta tvennt saman en svo hurfu þær og ég skráði mig í 10 hringja hlaupið. Ég rann að vísu blint í sjóinn hvernig ég væri í stakk búinn til að takast á við þetta verkefni. Bæði var ég nýlega búinn að hlaupa GUCR hlaupið í Bretlandi og síðan var ég ekkert sértaklega vel Esjuæfður. Ég fór í fyrsta sinn á Esjuna í vor fyrir mánuði síðan. Samtals hafði ég farið sex sinnum á fjallið. Tvisvar eina ferð, þrisvar tvær ferðir og eina fjögurra ferða ferð. Eftir fjögurra ferða túrinn þá vissi ég að ég gæti lokið 10 ferðum. Ef maður lýkur 40% af hlaupi í góðum gír á æfingum, þá á maður að komast næstu 40% með þokkalegum hætti og svo fer maður rest á þrjóskunni. Þetta var hins vegar spurning um tíma. Ég setti mér það markmið að fara tíu ferðir undir 14 tímum. Það viðmið var sett þar sem ég hafði heyrt að það hefðu verið farnar sjö ferðir á Esjuna fyrir nokkrum árum á 14 tímum. Mér fanst því tilvalið að stefna að 10 ferðum á sama tíma. Planið var að fara hverja ferð upp og niður að jafnaði á klukkutíma og korteri. Svo tekur smátíma að fara aukahringinn niðri og alltaf tekur einhvern tíma að næra sig og græja á drykkjarstöðinni en þetta ætti að ganga upp.
Ég plástraði fæturnar vel og sérstaklega hælana áður en lagt var af stað. Það er vont að fá skafsár á hælana í fjallgöngum, sérstaklega ef maður á langt eftir. Ég skipulaði næringuna vel en reynslan hefur kennt mér að það er affarasælast að vera sem mest sjálfbjarga í þeim efnum. Uppi við Esju var allt að verða klárt. Skipuleggendur, starfsfólk og keppendur mættir. Við vorum fjórir sem ætluðum að þreyta þessa frumraun. Rétt um kl. 5:00 var hlaupið ræst og ákveðin óvissuferð hófst. Það var smásvalt í byrjun en það breyttist fljótt þegar brekkurnar tóku við. Þá var svitinn fljótur að spretta fram. Þeir Sigurður og Þorlákur voru léttir á brekkkuna, þá kom Birkir og ég rak lestina. Það olli mér ekki áhyggjum. Ég fer yfileitt hægt af stað í löng hlaup. Það getur margt gerst á langri leið. Sólin var að koma upp þegar við vorum í brekkunum og það leit út fyrir að þetta gæt orðið heitur dagur. Logn og heiðskýrt. Þegar komið var upp að Steini var strikað á númerið og svo var rúllað niður. Strákarnir voru miklu grimmari í niðurhlaupinu en ég svo þeir hurfu fljótlega. Ég var ekki viss um hvernig staðan væri í lærunum svo ég vildi varast að bræða úr þeim í upphafi. Þegar ég var að komast niður þá mætti ég Þorláki. Hann var orðinn fyrstur og hélt þeirri stöðu til loka hlaups. Síðan tók hver hringurinn við á fætur öðrum. Daníel hlaupafélagi slóst í hópinn á þriðja hring og fór þrjár ferðir með mér. Það var fínt að hafa einhvern með til að spjalla við öðru hverju. Rotarymenn voru mættir í lok þriðja hrings. Þeir settu upp tjald fyrir daginn og voru með kynningarefni og annað fyrir áhugasama. Í lok fjórða hrings þá hringaði Þorlákur mig. Hann var mjög léttstígur á brattann og rann lipurlega niðurímót.
Það hitnaði vel í fjallinu þegar leið á morguninn. Samt var veðrið óskaplega gott. Smá svali af og til en annars logn. Það var bara að passa sig á að að drekka vel og reglulega. Ég tók Herbalife prótei hristing á ca þriggja tíma fresti.Oft tók ég með mér orkukex til að maula þegar ég var að fara frá Steini. Það þarf einnig að hugsa um magann og gæta þess að hann tæmist aldrei. Ég fór fram úr Birki á fimmta hring. Hann sagðist hafa verið frekar illa fyrirkallaður og var farinn að þreytast.
Á sjötta hring varð ég dálítið áhyggjufullur. Þá varð ég allt í einu orkulaus á leiðinni upp. Ég þurfti oft að stansa upp brekkurnar og safna kröftum. Mér leist ekki á þetta. Ef ég væri kominn í vegginn þá ætti ég langa og erfiða leið fyrir höndum. Loks komst ég upp að Steini og gat farið að anda léttar (í bili). Þegar ég kom niður borðaði ég vel, tók orkugel, drakk mikið kók og gerði hvað ég gat og kunni til að rétta af orkubalansinn. Það kom í ljós að þetta dugði. Nú gat ég haldið sama dampi og áður upp brekkurnar. Ég fann fyrir örlitlum sinadrætti af og til eftir fimmta hring. Það var ekkert annað að gera en að drekka vel og taka steinefnatöflur í brúsann. Það hreif og sinadrátturinn hvarf. Það er ógaman að fá sinadrátt í fæturna þegar maður er á léttu rennsli niður í mót. Guðni Rotaryfélagi fór með mér tvær ferðir. Við höfðum verið saman í fótbolta úti í Kaupmannahöfn forðum daga í Íþróttafélaginu Guðrúnu. Hann var minnugri en ég því ekki þekkti ég hann aftur. Svona er þetta. Það fjölgaði hressilega í fjallinu þegar fimm hringja hópurinn lagði af stað. Þar var tekið á því. Það var miklu skemmtilegra að vera í fjallinu þegar fjölgaði í hópnum. Menn heilsast og hvetja hver annan. Einnig var töluverð umferð gangandi fólks yfir daginn. Þar hittir maður yfirleitt einhvern kunnugann. Síðan fjölgaði aftur hressilega þeggar tveggja hringja fólkið lagði af stað um kl. 14:00. Þar fóru menn mikinn upp og hlupu síðan niður brekkurnar með látum. Fyrstu menn hlupu upp brekkurnar eða rótuðust áfram í framdrifinu með stöfum. Þá var ekki mikið heilsað!!!
Það er alltaf svo að niðurtalningin er léttari þegar fyrri hlutinn hlaupsins er liðinn. Þá er farið að hilla undir lokin. Hringirnir liðu einn af öðrum og ég sá að sett markmið myndi nást ef ekkert kæmi upp á. Það eina sem pirraði mig var að stundum var maður dálítið lengi að finna það sem maður þurfti á að halda í dótinu. Smátafir í hverju drykkjarstoppi draga sig saman þegar upp er staðið. Ég mætti Þorláki í upphafi áttunda hrings. Þá var hann að klára. Frábært hjá honum. Sigurði mætti ég í upphafi níunda hrings þegar hann var að ljúka hlaupinu. Það var gaman að leggja í síðasta hringinn og sjá fram á lokin. Þetta hafði verið frábær dagur og allt gengið eins og best var kosið. Ég kvittaði í gestabókina uppi með hringjunum 10. Það mátti ekki minna vera en að festa þetta í letur í gestabók FÍ. Ég lagði inn í síðasta hringinn upp úr hálf sex og með sama dampi myndi ég ná í mark undir 14 tímum. Það stóð heima og síðasti hringurinn tók klukkutíma og kortér eins og planið var. Ég kom í mark á 13.50 sem ég var hæst ánægður með. Ég var afar ánægður með stöðuna á fótunum. Ekkert hafði komið upp á. Engin blaðra hafði myndast og engin nögl horfið. Lærin voru mjúk og fín og kálfarnir eins og þeir áttu að sér. Ég hafði haldið að mestu jöfnum og góðum dampi yfir allan daginn. Þetta var mun betra en ég átti von á því ekki hafði ég æft svo mikið eða skipulega fyrir þetta. Þess vegna hefði ég getað haldið áfram. Það er óhætt að segja að 10 hringir á Esjunni standa mjög vel undir nafni sem fullorðið ofurhlaup. Þótt kílómetrarnir séu 70 þá segir það einungis hluta af sögunni. Brattinn skiptir svo miklu máli í öllu samhenginu. Það var óvænt ánægja að hitta mömmu og Heiðu frænku við markið. Mamma hefur stundum verið svolítið áhyggjufull yfir að ég væri að ofgera mér í svona dæmum en þarna fékk hún að sjá ástandið á syninum þegar hann kom yfir marklínuna. Móttökurnar í markinu voru fínar og flott verðlaun voru veitt. Það er alltaf ágætt þegar svona þrautir eru yfirstaðnar. Á hinn bóginn er mismikil eftirsjá að svona dögum. Þetta var afar fínn dagur. Veðrið eins og ég veit ekki hvað, umhverfið og umgjörðin frábær og fagmennska og metnaður við framkvæmdina. Starfsfólkið hjálpsamt og allt eftir því. Bros á hverri vör. Þannig á þetta að vera.

miðvikudagur, júní 13, 2012

Bjartmar og Bergrisarnir - Negril


GUCR 2./3. júní

Ég hef vitað af Grand Union Canal Race í nokkurn tíma. Það er eitt af virkilega löngu hlaupunum og þeim stóru. Það er lengsta og erfiðasta hlaup Bretlands sem hlaupið er í einum áfanga eða 144 enskar mílur. Það er hlaupið frá miðborg Birmingham og endar inni í London. Nokkrir félagar mínir í langhlaupunum höfðu tekið þátt í því og sagt mér frá því. Þar má t.d. nefna Neil Capoor, okkar ágæta breska félaga, sem hljóp það árið 2005 á rúmum 35 klst. Geir Frykholm, norskur hlaupari sem lauk Spartathlon sama ár og ég, hljóp það árið 2008 á rúmum 39 klst og Stefan Lindwall, sænskur hlaupari sem býr í Gautaborg, lauk því árið 2009 á tæpum 35 klst. Því byggðist þarna upp áskorun sem freistaði að takast á við. Ég ákvað því í fyrra að GUCR skyldi vera eitt af verkefnum ársins ef ég kæmist í hlaupið. Þátttaka er takmörkuð því aðstandendur ráða einungis við um 100 manna hóp. Ég meldaði mig í hlaupið í fyrrahaust og vonaði það besta. Þegar ég sá svo listann um þá heppnu á heimasíðu hlaupsins þá var ég ekki þar. Þannig fór það. Það verður þá bara eitthvað annað. Nokkrum dögum síðar fékk ég síðan tölvupóst frá Dick, forsvarsmanni hlaupsins þar sem hann bauð mér að taka þátt í hlaupinun þrátt fyrir að ég hefði ekki verið dreginn út. Hann var með einhverjar skýringar um að það hefði gleymst að setja mig í pottinn en hvað veit ég. Ég tók umsvifalaust hinu góða boði og kúrsinn var settur. Æfingarnar gengu ekkert sérstaklega vel í vetur. Ég var nokkuð lengi að koma mér í gang efti áramótin en svo fór þetta aðeins að rúlla. Páskarnir, þar sem átti að taka á því, fóru alveg í vaskinn út af kvefi. Á hinn bóginn var ég orðinn nokkuð góður eftir páskana og náði fínum dampi þegar fór að líða á maí. Ég fann á Esjunni að ég var kominn í ágætt form. Líklega hjálpaði það mér að ég hjólaði í vinnuna í allan vetur. Það er lúmsk styrking að hjóla í misjafnri færð.
Annað sem olli mér áhyggjum þegar fór að styttast í hlaupið var rötunin. Ég lenti í vandræðum með hana nokkrum sinnum í London – Brighton hlaupinu og vildi ógjarna tefja mig á því aftur. Bretarnir sendu kort en þau voru dálítið smáletruð. Það bjargaði mér hins vegar að Stefan Lindwall sendi mér mun betri kort sem Svíarnir höfðu útbúið. Það létti af mér nokkrum áhyggjum svo nú var mér ekkert að vanbúnaði. Með nesti og nýja skó frá Sportís (Asics) hélt ég svo út til Bretlands þann 31. mai. Ég tók lestina strax uppeftir til Birmingham og kom þangað um 1:30 um nóttina. Ég tók leigubíl á hótelið og skildi ekkert í því hvers vegna bílstjórinn varpaði öndinni svo mæðulega þegar ég sagði honum hvert ég ætti að fara. Hann ók mér nefnilega aðeins bak við næsta horn en það var svona fimm mínútna gangur á gistiheimilið frá lestarstöðinni á New Street.
Daginn eftir notaði ég m.a. til að finna staðinn þar sem afhenda átti gögnin síðdegis. Það átti að ske á gistiheimili á Broad Street nr 15. Það var svo sem allt í lagi nema að bæði er númerakerfið á húsunum í þessari borg þannig að númerin byrja frá einum annars vegar á götunni og á einhverjum stað snýr talnarunan við og hækkar á hinni hlið götunnar. Einnig eru húsin mjög illa merkt með númerum. Mér gekk því ekkert að finna gistiheimilið þar sem átti að afhenda gögnin. Ég fór að lokum inn á hótel og spurðist til vegar. Sá sem ég talaði við sagðist ekki vita um neitt gistiheimili með þessu tiltekna nafni á Broad Street ef ske kynni að ég væri að leita að því sem væri akkúrat hins vegar við götuna. Það stóð heima!!! Merkingin var ekki betri en þetta að ég hafði ekki tekið eftir skiltinu.

Tæpum tveimur vikum fyrir keppnina hafði verið spáð nær 30°C hita í Birmingham þessa helgi en nú var spáín orðin breytt. Hún hljóðaði upp á 13-15°C hita og rigningu með köflum. Það var í sjálfu sér betra en ofsahiti. Maður renndi hins vegar blint í sjóninn með hvað myndi rigna mikið.
Ég var kominn út um kl. fimm um morguninn. Þá var byrjað að rigna. Það var ekkert við því að gera. Við rásmarkið fór fólki stöðugt fjölgandi því margir áttu eftir að taka gögn. Stöðugt rigndi og manni leist ekkert á þetta. Það var þó sárabót að það var hlýtt. Að lokum safnaðist hópurinn saman við kanalinn og Dick sagði nokkur orð. Hann ráðlagði hlaupurunum meðal annars frá því að taka “painkillers” þrátt fyrir að þeim liði illa í fótunum. Það væri betra að vera smá sárfættur um tíma en að lenda á sjúkrahúsi út af pilluáti. Svo var sagt GO og strollan lagði af stað. Það voru um 100 hlauparar sem lögðu af stað meðfram kanalinum í þetta langa hlaup.

Ég fer alltaf hægt af stað í svona hlaupum. Maður þarf tíma til að finna taktinn og eins er löng leið fyrir höndum. Það var hlaupið á bakkanum á kanalinum. Víða voru brýr sem þurfti að fara yfir. Brýrnar voru hálar í rigningunni svo ég fór varlega og gekk yfir þær. Það var skynsamlegt því eftir ca einn km þá datt hlaupari rétt fyrir aftan mig og meiddi sig eitthvað. Líklega hefur hann ekki farið mikið lengra. Eftir skamma stund var komið út úr borginni og þá var hlaupið meðfram kanalinum þar sem hann lá um breskar sveitir. Stundum lá hann lægra en landið í kring en stundum mun hærra. Landið var svo sem ekki mjög fjölbreytt, akrar, tún og beitiland. Á kanalinum voru fjöldi báta sem voru flestir líkir í útliti, langir, mjóir og grunnristir. Þetta eru sumarbústaðir margra breta sem nota sumarfríið til að dóla um landið eftir þessu kanalakerfi. Sumstaðar voru skipastigar með allt að 10 tröppum.
Það var gaman að hlaupa meðfram framandi umhverfi en hlaupið var þó aðalatriðið. Um hádegið hætti að rigna og var að mestu leyti þurrt fram á kvöld. Drykkjarstöðvarnar voru á um 25 km fresti og því þurfti maður að hafa nægan vökva með sér. Ég var framan af með bakpoka með vatni og ýmsu dóti í en þegar var komið undir kvöld þá losaði ég mig við hann og tók brúsa í báðar hendur. Mér fannst það einfaldlega þægilegra.

Það teygðist fljótlega úr hópnum og eftir nokkra klukkutíma sást einungis í mann og mann á stangli. Það rættist þarna eins og í svo mörgum hlaupum að þegar komið er yfir 60-70 km þá fer að þyngja fyrir fæti hjá mörgum. Ég hugsa að ég hafi farið fram úr 20-30 manns á tímabilinu 60- 100 km. Þá fer þreytan að færast yfir fólk. Við 100 km markið sat strákur sem var alveg búinn og hefur vafalaust ekki farið lengra. Ég var um 12 klst að fara 100 km. Það var með vilja gert að fara ekki hraðar því það var löng leið framundan. Leiðin var einnig einkennilega hægfarin þrátt fyrir að hún væri heldur flöt. Malarstígar og gras er ekki ætlað til hraðhlaupa klukkutímum saman. Rötunin var víðast hvar mjög einföld. Ég var þó alltaf með kortið í hendinni sem skipti máli til að hafa á hreinu hvar maður væri. Mér leið alltaf heldur vel nema einu sinni undir kvöldið fór maginn að kvarta. Ég þurfti að hægja á mér í svona klukkutíma til að ná honum í lag aftur. Það gengur ekki að geta ekki drukkið eins og maður þarf á að halda fyrir ógleði. Þá er voðinn vís. Því er betra að hægja á sér, drekka minna og bíða eftir að jafnvægi komist á. Myrkrið skall á um kl. 21:30 og það var dimmt fram til 4:00 um morguninn. Ég hringdi í Svein og lét vita af mér og gerði ráð fyrir að hringja aftur eftir um 12 tíma til að sigtað út tíma við markið. Með vasaljósi og höfuðljósi var myrkrið engin hindrun en það var annað verra sem skall yfir.  Þegar leið á kvöldið fór að rigna á nýjan leik og undir miðnættið fór að hellirigna eins og hellt væri úr fötu. Það hellirigndi í um tvo klukkutíma og eftir dembuna var ekki á manni þurr þráður. Það var ekkert annað að gera en að paufast áfram en þetta flýtti ekki fyrir. Það vildi til að það var heldur hlýtt svo manni kólnaði ekki mikið. Á þessum tíma týndi ég þó upp einn og annan því það voru fleiri sem rigningin hægði á. Ég kom að drykkjarstöð um kl.3:30 og skipti þar um skó. Þó að skórnir sem ég fór úr daginn áður hafi verið orðnir rakir þá var það þó betra en að vera í drullublautum skóm. Blöðrurnar fara fljótt að sýna sig við slíkar aðstæður Ég plástraði mig vel til að draga úr blöðrunum eins og hægt var. Það var auðveldara að halda áfram þegar það var farið að birta. Ég var um 20 tíma með 160 km en annars er ég ekki alveg klár á tímanum því úrið mitt fór eitthvað að pirra sig á rigningunni og seinkaði sér. Áfram var haldið en nú fór maður að verða sárfættur. Malarstígar eru ekki heppilegasta undirlagið fyrir blauta fætur. Það dró úr hraðanum ef eitthvað var. Á næstu drykkjarstöð var boðið upp á “english breakfast”. Spæld egg, pulsur og heitar baunir er kostafæða við þessar aðstæður. Þessi morgunmatur hressti mann allan upp og áfram var haldið. Nú var farið að hilla undir endamarkið. Ég hringdi aftur í Svein og lét vita að ég yrði kominn undir kl. 17:00 ef allt gengi að óskum. Ég vissi af einum sem var dálítið fyrir aftan mig en það var nokkuð langt í þá sem voru fyrir framan mig. Þó dró ég upp konu á næstsíðustu drykkjarstöðinni en hún fór af stað á undan mér. Svo kom sá sem var á eftir mér rétt áður en ég fór af stað. Annars vissi maður ekkert um fjölda, röð eða neitt hvað varðaði framgang hlaupsins. Fólkið á drykkjarstöðvunum var afar hjálplegt og vildi allt fyrir mann gera. Ég lét flytja töskuna mína milli drykkjarstöðva og borgaði sérstaklega fyrir það. Aðrir voru með aðstoðarfólk sem hittu hlauparann hér og hvar á brautinni með vistir og föt. Ég hitti nokkrum sinnum eldri hjón sem voru að aðstoða son sinn. Þau voru afar vinsamleg, gáfu mér að drekka og gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til að létta undir með þyrstum hlaupara. Ég var með lykil að British Waterpost og fékk mér vatn þar af og til úr þeim. Það var hins vegar ekki á vísan að róa að finna kranana svo maður var með birgðir eftir því sem hægt var. Rötunin hafði gengið áfallalaust nema einu sinni missti ég af litlu skilti sem var á hliði á hliðargötu þar sem maður átti að fara út af aðalveginum. Sem betur fer kom bíll á eftir mér sem leiðbeindi mér á rétta leið áður en ég fór villur vegar. Því var ég orðin nokkuð áhyggjulaus um að hún yrði til vandræða. Þegar maður verður kærulaus þá gerast óhöppin. Við þriðja síðasta punktinn (af 48) þá tók ég ranga ákvörðun. Ég beygði til hægri í stað þess að halda beint áfram. Ég hélt svo áfram uns ég fór út af kortinu og tók upp síðasta kortið. Þá sá ég að það var eitthvað sem ekki passaði. Ég hitti mann og spurði hann til vegar en hann vissi ekki neitt. Að lokum bar ég saman kortin og þá fór ekki á milli mála að ég var á rangri leið. Djöfull varð ég reiður við sjálfan mig. Þarna var ég búinn að fara a.m.k. tvo kílómetra úr leið og örugglega búinn að missa slatta fram úr mér. Það var ekkert við því að gera annað en að snúa við og gera sitt besta. Ég fór að hlaupa til baka og þá var það svo merkilegt að allur sársauki var horfinn úr fótunum og ég hljóp miklu hraðar en ég hafði hugmynd um að ég gæti. Ég keyrði því alveg eins og ég gat til að reyna að vinna upp skömmina. Þarna voru um 27 km í mark með aukakílómetrunum. Ég kom fljótlega að gatnamótunum og sneri inn á rétta leið. Fljótlega náði ég þremur mönnum sem fóru heldur hægt yfir. Það herti mig upp og ég sá að kannski var ekki allt komið í vaskinn. Ég hélt áfram mínu striki og þurfti ekkert að hægja á. Eftir stund kom ég að síðustu drykkjarstöðinni. Ég skellti í mig tvemur banönum, svolgraði slatta af kóki, fyllti á alla brúsa og æddi svo af stað. Nú skyldi ekkert gefið eftir. Það voru nákvæmlega 20 km í mark frá síðustu drykkjarstöð. Það gat ýmislegt gerst á þessari leið. Eftir stund náði ég tveimur hlaupurum og þekkti þar konuna sem hafði farið á undan mér frá drykkjarstöðinni þar á undan. Ég vissi síðan að hlauparinn sem var rétt á eftir mér fram undir það síðasta hlyti að vera kominn á undan. Það herti á mér ef eitthvað var. Nú beit maður sig fastan í styttri veglengdir og skipti hlaupinu upp í stutta áfanga. Hlaupa stanslaust að næstu beygju. Þá var að hlaupa þaðan án þess að stoppa að að næsta tanga. Þá var að hlaupa af sama krafti að næstu brú. Þar gekk ég nokkur skref og fékk mér að drekka. Þannig var haldið áfram, kílómeter eftir kílómeter. Fæturnir héldu fullkomlega, enginn sársauki og allt í fínu lagi. Þar var hins vegar farið að rigna með mótvindi sem hjálpaði ekki til. Loks þegar um einn km var eftir sá ég kunnuglegan gulan jakka framundan. Þar var kominn hlauparinn sem ég vildi hafa fyrir aftan mig. Ég hélt mínu skriði áfram og fór fram úr honum þegar um 500 metrar voru í mark. Þá var ég örugglega búinn að hala allt inn sem ég hafði misst niður á aukakróknum. Ég kom síðan í mark á 34.35 og var mjög sáttur við það. Það var betri tími en félagar mínir þrír höfðu náð á fyrri árum. Ég hafði gert ráð fyrir að fara síðasta legginn á um þremur tímum en það tók mig tvo tíma og fimm mínútur að hlaupa hann. Þannig held ég að villan hafi jafnvel skilað betri tíma þegar upp var staðið þegar reiðin ýtti sársaukanum til hliðar. Í markinu biðu Sveinn og Elísa kærastan hans. Þau komu með bjórinn sem ég bað þau um og það var fínt af fá sér einn kaldan að hlaupalokum. Fólkið í markinu sagði mér að ég hefði verið sá fimmtándi sem kom í mark. Það var fínt en um 100 lögðu af stað. Síðan frétti eg að það hefðu rímlega 40 hætt. Það kom mér ekki á óvart miðað við veðrið og hvað maður sá til fólks. Það var hins vegar ekki til setunnar boðið því það húðrigndi og það slær fljótt að manni við svona aðstæður. Því drifum við okkur eins fljótt og hægt var niður í næstu lest og ég skipti svo um föt í vagnunum og skeytti ekkert um hvort þar væri eðlilegt eða ekki. Nauðsyn brýtur lög. Ég var í fínu lagi eftir hlaupið og fann ekki til í kálfum eða lærum. Það var ánægjulegt að hafa lokið þessari þraut á góðum tíma og án erfiðleika.

þriðjudagur, maí 22, 2012

Manfred Mann - davy's on the road again (live 1999)

Gargönd á Álftanesi


Árni Johnsen vakti nokkra athygli fyrir skömmu þegar hann flutti álfastein út til Vestmannaeyja. Nú ætla ég ekki að segja um hvort álfar hafi verið í steininum eða ekki, á því hef ég ekki vit eða þekkingu. Á hinn bóginn er ég viss  um að það er eitthvað til í kringum okkur sem við geetum ekki skilgreint eða sagt hvað er. Um það eru til fjölmörg dæmi. Mér er t.d. sagt að á einni jörð í hreppnum geri síðasti bóndinn svo ákveðið vart við sig að þar geti ekki nokkur maður  gist. Ekki ætla ég að sanreyna það. Þa var lengi haft á orði hérr i denn tíð að það væri reimt á Hálfdán, fjalllveginum milli Tálkafjaðar og Arnarfjarðar. Ég þekkti bílstjóra sem sögðust aldrei fara þar einir yfir næturlagi. Haukur bróðir var á jarðýtu ræktunarsambandsins þar vestra á árunum fyrir og eftir 1970. Hann fór víða um héraðið og vann hjá bændum eftir því sem verkefni féllu til. Einu sinni sem oftar þurfti hann að fara norður í  Arnarfjörð. Það var unnið í vaktavinnu á vélinni. Sá sem vann á móti honum lagði af stað á vélinni norður og Haukur átti að taka við honum undir nóttina. Þegar Haukur mætti á vaktna þá sá hann sér til nokkurrar undrunar  að vélin var komin miklu styttra en hann hafði búist við. Hún stóð við Ketilseyrarána við vegamótin upp á Hálfdán í Tálknafirðinum. Þar svaf ýtumaðurinn í vélinni. Haukur tók svo við vélinni en kunni ekki við að spyrja hverju sætti að vélin var ekki komin lengra. Hann keyrði svo sem leið lá norður yfir Hálfdán. Að áliðinni nótt, þegar hann var kominn norður yfir kjöl, þá stoppaði hann og fékk sér kaffisopa. Eftir kaffidrykkjuna helltist yfir hann svefn og hann dormaði í sætinu á vélinni. Þegar hann vaknaði eftir skamma stund þá brá honum heldur betur. Á honum lá slíkt farg að hann gat ekki hreyft legg né lið. Honum var haldið í einhverjum heljargreipum á þann hátt að hann gat sig hvergi hrært. Hann hafði heyrt að ráð við slíkar aðstæður væri að reyna að hreyfa eitthvað og þá myndi farginu verða létt af honum. Hann gat að lokum hreyft annað augnlokið. Þar á eftir gat hann hreyft hitt augnlokið. Síðan losnaði um fleiri líkamsparta, hann gat hreyft fingur og loks fætur. Þá fannst honum að farginu létti og það væri eins og hann lyftist upp í sætinu. Hann heyrði þegar réttist úr svampinum. Honum var nokkuð brugðið og ók sem hraðast norður af heiðinni og bar ekki til frekari tíðinda í þessari ferð. Hann sagði okkur frá þessu á sínum tíma man ég eftir en hann minntist ekki á þetta við hinn ýtumanninn. Leiðir þeirra skildu svo skömmu síðar og þeir hittust ekki fyrr en fyrir þremur árum síðan. Þá kom fyrrum vinnufélagi hans í heimsókn upp að Hvanneyri og þeir rifjuðu upp gamla tíma ýtunni fyrir vestan og ýmislegt sem minnisvert var frá þessum árum. Þá spurði Haukur hann að því sem hann hafði langað til að gera í tæp 40 ár: Hvers vegna hann hafði stoppað við afleggjarann upp á Hálfdán á sínum tíma en ekki haldið á fjallið? Það stóð ekki á svari. Það skal ég segja þér sagði vinnufélaginn gamli. Síðan kom saga af ferð hans yfir Hálfdán á jarðýtu sem var nákvæmlega eins og upplifun Hauks í sinni ferð. Honum hafði orðið svo brugðið við þessa reynslu að hann ákvað að hann skyldi aldrei fara aftur einn yfir Hálfdán á jarðýtu. Því stoppaði hann við vegamótin og lagði sig frekar en að halda á fjallið. Nýliðinn fékk svo að tölta á ýtunni yfir Hálfdán á vit hins óþekkta. Svona er þetta. Ég veit að þetta er rétt efftir haft en merkilegast var að um 40 árum síðar skyldi saga vinnufélaga Hauks koma fram. Það er best að fullyrða ekki neitt um þessi mál annað en að það er ýmsilegt til sem maður getur ekki skýrt.

mánudagur, apríl 09, 2012

The Pogues - Fiesta

Það er eðlilegt að á páskum komi kirkjan upp í huga manns. Ekki það að hún sé mér neitt sérstaklega hugleikin. Ég sagði skilið við þjóðkirkjuna fyrir góðum áratug síðan. Síðan hef ég látið hana í friði og hún hefur látið mig í friði. Það er í sjálfu sér ágætis sambúð. Ég fer í kirkju við sérstök tilefni s.s. fermingar og jarðarfarir og virði aðkomu kirkjunnar við slík og önnur ámóta tilvik. Að öðru leiti hef ég ekki þurft á henni að halda. Það er bara þannig. Ég er eðlilega ekki einn um að renna huganum til kirkjunnar um páska. Það er eðilegur hlutur því páskarnir eru stærsta hátíð kristinna manna. Það sem vekur manni hins vegar nokkra furðu er sú heift sem virðist brjótast fram hjá mörgum sem eru andsnúnir kirkjunni á hátíðisdögum sem þessum. Þeim hópum virðist afskiptaleysið ekki vera nóg heldur finna þeir hinir sömu sig knúna til að hreyta úr sér köpuryrðum allskonar yfir kristna trú, kristna siði og kirkjuna í heildinni eða gera lítið úr þeim hinum sömu siðum með dárskap og aulahúmor ef húmor skyldi kalla. Sú umræða minnir mann um margt á það sem hægt er að lesa um frá Sovétríkjunum gömlu. Sovétkommarnir vildu kirkjuna feiga. Frasinn um að trúin sé ópíum almennings er kominn þaðan. Einfeldningar annarra landa sem höfðu tekið sovétkommana sem sína guði öpuðu þetta eftir eins og svo margt annað sem þaðan kom. Glæpaklíka Lenins og Stalíns vildi útrýma kirkjunni og kirkjunnar siðum. Prestar voru ofsóttir, drepnir eða, ef þeir voru heppnir, sendir í Gúlagið. Kirkjur voru teknar til ýmissa annarra nota s.s. sem geymslur eða breytt í íshokkíleikvang. Ég kom í tvær slíkar kirkjur í St. Petersburg sl. haust. Það var hins vegar svo merkilegt að eftir 70 ára ógnarstjórn kommúnismans í Sovétríkjunum þá reis kirkjan úr læðingi um leið og ógnarhrammi kommúnismans var létt af þjóðinni. Þráin eftir kirkjunni hafði blundað með þjóðinni alla þessa áratugi. Ég ætla ekki að leggja dóma á slíkt og hvorki mæla með því eða lasta, þetta var hins vegar bara svona. Meðvitaða liðið sem eys úr sér hrakyrðum út í kirkjuna og kirkjulega siði ætti að velta þessum staðreyndum fyrir sér. Þeim verður ekki á móti mælt.


Þegar umræða um þessi mál hefst þá er stutt í að það sé hrokkið yfir í biskupsmálin og hvernig kirkjan tók á þeim málum hérlendis. Ekki ætla ég að afsaka það né réttlæta. Það er á hinn bóginn ætíð hollara að reyna að sjá skóginn fyrir trjánum.



Það er eins og því fólki sem virðist heltekið af andúð á kirkjunni og kirkjulegum siðum sé ekkert heilagt, ekki einu sinni því sem snýr að krökkunum. Nú á síðustu jólaföstu skemmtu einhverjir sjálfskipaðir húmoristar sér við að snúa jólasveinavísum Jóhannesar úr Kötlum yfir í klámsora. Uppskerunan var svo birt á vef hópsins. Af því svona fólk nærist á athyglinni þá ætla ég ekki að gefa upp vefslóðina. Nú hélt ég í fyrsta lagi að það væri til eitthvað sem héti sæmdarréttur rithöfunda eins og annarra listamanna. Ritverk væri varin gegn því að þau væru skrumskæld og afbökuð. Nú má vera að svo sé ekki en það getur verið að það skipti máli hver kemur að slíkum hlutum. Í annan stað hélt ég að fólk bæri aðeins meiri virðingu fyrir því sem tengist börnum öðru frekar. Það á greinilega ekki við í þessu tilviki. Jólasveinavísur Jóhannesar úr Kötlum hafa unnið sér sess gegnum áratugina sem órjúfanlegur hluti jólaundirbúningsins hjá börnum. Ég las þær og lærði sem krakki og það gerðu mín börn einnig. Ég hugsa að ég hafi mætt á annan áratug með krakkana í Þjóðminjasafnið til að upplifa sívaxandi spennu jólaföstunnar með þeim þegar jólasveinarnir týndust ofan af fjöllum einn eftir annan. Nú virðist ákveðinn hópur fólks fá eitthvað út úr því að gera sem minnst úr slíkum hlutum.

Maður heyrir því iðulega slegið fram að kristnar hátíðir, jól og páskar, hafi orðið markaðsöflunum að bráð. Því séu þær léttvægar fundnar og skipti ekki máli. Í kvikmyndinni Bjarnfreðarson var gefin innsýn í jólahald fólks sem hafði slíka lífssýn. Nú halda vafalaust flestir að þarna hafi verið um uppdiktaða skrumskælingu að ræða sem eigi sér ekki fyrirmynd í raunveruleikanum. Ég þekki hins vegar fólk, sem er yngra en ég, sem upplifði jólin á þennan hátt. Það á vægast sagt blendnar minningar frá jólahátíðinni á meðan straumar kommúnismans réðu ríkjum á heimilum þess. Ég hef tvisvar lifað jólalausan desember. Bæði skiptin var það í kommúnistiskum ríkum. Á Kúbu árið 1979 og í Rússlandi árið 1995. Mikið skelfing var það innihaldslaus og flatur desember þegar jólin létu ekki sjá sig. Reyndar voru aðstæður þó betri á Kúbu á þann hátt að við höfðum um nóg annað að hugsa en í Rússlandi helltist grámi tilbreytingarleysins yfir mann í jólalausum desember. Ég hef engan áhuga á að upplifa það aftur.

Ástæða þess að ég læt hugann reika um þessi mál nú á páskum er að mig óar við þeim kommúnistisku viðhorfum sem virðast skjóta upp kollinum á þessu sviði í æ ríkari mæli hérlendis. Lítill en hávær hópur hefur séð ljósið í þessum málum. Það er með hann eins og aðra álíka að þegar menn hafa höndlað sannleikann þá gefa menn sig aldrei. Ég hef illan bifur á þeim félagsskap sem hefur verið myndaður utan um slík viðhorf og önnur álíka. Það var svolítið dæmigert að fréttin í Ríkissjónvarpinu á föstudaginn langa frá bingóinu á Austurvelli var lengri en fréttin frá lestri Passíusálmanna í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. Ég skil ekki altaf þann leik sem Ríkissjónvarpið leikur í þessum málum. Svo er um fleiri.

laugardagur, mars 24, 2012

Nina Hagen & Nana Mouskouri - Lili Marlene

Kristjana Skúladóttir syngur lög stríðsáranna

Nú á að fara að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um ákveðin atriði úr tillögum hins sérkennilega skipaða stjórnlagaráðs. Þegar spurningar þær sem á að greiða atkvæði um voru kynntar þá fannst manni að þar færi amen eftir efninu miðað við það hvrnig þessi prósess hefur allur verið. Ég ætla ekki að rekja það frekar. Áhugasamir þekkja það. Ég hélt að allir vissu að við þjóðaratkvæðagreiðslu verður að ganga út frá tveimur principum. Í fyrsta lagi er ekki efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu nema tilefnið sé brýnt. Það má segja að ný stjórnarskrá sé brýnt tilefni. Í öðru lagi verða þær spurningar sem lagðar eru fyrir í þjóðaratkvæðagreiðslu að vera skýrar og hnitmiðaðar svo svörin gefi afdráttarlausa niðurstöðu. Þetta hélt ég að allir vissu. Alla vega finnst mér að alþingismenn eigi að hafa þetta á hreinu. Mér finnst að mikið vanti á að svo sé um þær hugmyndir að spurningums em kynntar hafa verið og á að samþykkja með hraði á næstu dögum frá alþingi. Skoðum það aðeins nánar. Hér kemur yfirlit um spurningarnar.

1. Viltu að tillaga stjórnlagaráðs verði lögð fram sem frumvarp að nýrri stjórnarskrá eftir að hún hefur verið yfirfarin með tilliti til laga og alþjóðasamninga?

Hér er í fyrsta lagi lagt til að maður taki afstöðu til heildartillögunanr áður en hún er endanlega frágengin. Það sér náttúrulega hver maður að það gengur ekki. Það er ekki hægt að leggja ófrágenginn texta fyrir í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er eins og að skrifa undir óútfylltan víxil. Síðan geta verið atriði sem maður er smammála og önnur sem maður er ósammála. Niðurstaðan segir því ekkert um afstöðu fólks. Menn geta tekið afstöðu á móti tillögunum út frá fjölmörgum ástæðum. Hver á að greina þær forsendur ef niðurstaðan verður nei. Það er ekki hægt.

2. Einnig ertu beðin(n) um að svara nokkrum efnislegum spurningum um nýja stjórnarskrá. Viltu að í nýrri stjórnarskrá Íslands verði:

1. Náttúruauðlindir lýstar þjóðareign?

Nú vandast málið. Um hvaða náttúruauðlindir er verið að tala. Grasið á jörðinni, vatnið í ám og vötnum, vindinn, námur, sjávarföll, fiskinn í sjó, vötnum og ám, fuglana í loftinu, dýr merkurinnar. Svar óskast. Svo kemur hin spuringin, Hvað þýðir að náttúruaðlind sé í þjóðareign? Er það þjóðnýting náttúruaðlinda? Er verið að innleiða sovéskan, kúbanskan eða ródesískan kommúnisma undir rós?Hér er spurningin alveg úti á túni og ekkert vit í henni. Gjörsamlega ótæk í þjóðaratkvæðagreiðslu.

2. Ákvæði um þjóðkirkju Íslendinga óbreytt frá því sem nú er?

Hvað þýðir þetta? Hvað eru ákvæðin um þjóðkirkjuna mörg í stjórnarskrárdrögunum? Geta menn ekki verið sammála sumum og ósáttir við önnur? Þýðir já að ekki bmeigi breyta neinu frá því sem nú er. Hvað þýðir nei? Hvað er lesið út úr slíku svari?

3. Persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er?

Í meira mæli!! Hvað þýðir það? Segir þetta eitthvað til um hverskonar persónukjör á að innleiða. Þó verður að segja að þessi spurning meikar hvað mestan sens. Af hverju er ekki hægt að spyrja: Viltu taka upp persónukjör til Alþingis?

4. Ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt?

Af hverju er ekki spurt hvort landið eigi að vera eitt kjördæmi? Er verið að lauma inn ákvæði þess efnis undir rós?

5. Ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningabærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu?
Ef já, hve hátt finnst þér að þetta hlutfall ætti að vera? 10%, 15% eða 20%.

Hvað ef mjög lítill eða enginn munur verður á milli valkostanna þriggja? Hvað gera bændur þá?

Mér finnst þetta ekki gæfulega af stað farið í þessum efnum. Undirbúning að þjóðaratkvæðagreiðslu verður að vanda svo hún verði ekki ein vitleysa. Þá er ver af stað farið en heima setið.