þriðjudagur, febrúar 01, 2005

Aðalfundur UMFR36 var í gærkvöldi. Mæting var fín og tekin góð umræða um marga hlaupavinkla. Farið var yfir baráttuna við kerfið og dálítið fyndin viðbrögð innan UMFÍ og IBR við formlegri og fyllilegra lögmætri umsókn félagsins inn í musteri íþróttanna. Enn megum við óverðugir þó norpa á dyrahellunni, meðal annars vegna þess að nafn félagsins hefur ekki fallið laganefnd ÍSÍ í geð!! Fundarmenn voru fullir eldmóðs og hvöttu ákaft til að láta reyna til þrautar á hvort kerfið láti ekki undan. Verðlaun fyrir sigur í sveitakeppni í maraþoni í RM 2004 voru afhent á fundinum. Betra er seint en aldrei. Þeir Þórhallur J., Sigþór K., Pétur Reimars, Eiður Aðalgeirsson og Gísli Ásgeirsson skipuðu sveitina sem sigraði með mikilli sæmd. Verðlaunin voru afhent svo seint sökum þess að þau bárust ekki fyrr en í nóvember. Því þótti við hæfi að afhenda þau á aðalfundinum og ná sömuleiðis góðri hópmynd af sveitinni frekar en að senda gripina í pósti eins og hverja aðra rukkun.
UMFR36 vann einnig sveitakepnina í maraþoni á Mývatni í fyrra þannig að við erum harla ánægðir með uppskeru ársins í sveitakeppnum fyrir utan allt annað. Félagi Jóhann hafði sýnt þá stórlund og rausn að láta gera einkennishúfur fyrir félagið og afhenti hann þær á fundinum við mikla ánægju fundarmanna. Það er stórt skref í tilveru hvers félagsskapar að öðlast karakter, hvort sem hann birtist í húfu, bol eða fána. Ég fór síðan aðeins yfir nokkur atriði er varðar WS 100 til fróðleiks fyrir félagana. Meðal annars sýndi ég slidesmyndir frá hlaupinu árið 2002 sem ég fann á netinu. Slóðin er http://www.run100s.com/photos . Hlauparinn sem tók myndirnar heitir Steve Patt. Fundarmenn setti hljóða þegar ég sýndi þeim þverskurðarmynd annars vegar af Bostonmaraþoni og hins vegar af WS 100. Boston er eins og stuttur tvinnaspotti við hliðina á hinum ósköpunum. Því miður klikkaði DVD diskurinn sem er með mynd af Borgundarhólmshlaupinu frá þvíí fyrra svo hann var ekki sýndur. Ekkert var hlaupið í gær því mánudagar eru hvíldardagar eftir planinu. Ég náði hins vegar í lykilinn í Nautilus þannig að ég sé fram á að geta farið að styrkja mig þar innan dyra þegar tími gefst til.

Engin ummæli: