sunnudagur, mars 30, 2008

Í dag var virk hvíld. For 20 km í morgun með systrunum Ernstdætrum og Úlfari. Poweratehringurinn og Breiðholtssstígurinn með smá slaufu. Fínn og fann engar eftirstöðvar í fótunum eftir gærdaginn.

Horfði á Silfur Egils eftir að heim var komið. Það er ekki laust við að maður hafi dálitlar áhyggjur. Ísland er örlítið samfélag. Við erum með gjaldmiðil sem er ekki gjaldgengur fyrir utan landssteinana, svona nokkurs konar Bíldudalskrónur. Bankarnir hafa stækkað það mikið að efnahagur og rekstrarreikningur þeirra er svo stór að þeir eru vaxnir ríkinu yfir höfuð. Engu að síður segja ráðherrar að ríkið ætli að verja krónuna. Það má ekki gleyma því að fyrir nokkrum árum var gerð árás á breska pundið. Það mátti engu muna að árásin tækist. Miðað við breska pundið er íslenska krónan eins og krækiber í helvíti. Í Silfrinu var sagt að íslensku bankarnir stæðu betur en flestir aðrir bankar (líklega í heiminum). Hvernig er hægt að segja svona? Hafa starfsmenn viðskiptaráðuneytisins farið yfir ársreikninga þeirra flestra eða hvað? Vonandi standa þeir vel en skuldatryggingarálagið segir aðra sögu. Komið yfir 1000 punkta hjá Glitni og Kaupþingi.

Ef ríkið ætlar að taka lán til að verja bankana hvað sem það kostar þá vakna nokkrar spurningar. Í fyrsta lagi, Hver há lán þarf að taka? Í öðru lagi, getur ríkið tekið eins há lán og þörf er á og í þriðja lagi: Hvað kemur það til með að kosta? Afborganir og vextir af slíkum lánum eru greiddir með skattfé almennings. Þeir fjármunir eru þá ekki notaðir í annað. Annað tveggja munu slíkar aðgerðir þýða hærri skatta eða samdrátt í verkefnum ríkisins. Það er eins gott að það verði farið að tala íslensku um þessi mál.

Gengi krónunnar hefur fallið gríðarlega frá því í fyrra haust. Það getur ekki þýtt annað en verulegar verðhækkanir og meðfylgjandi verðbólgu. Mér finnst óraunhæft annað en að gera ráð fyrir að hún verði vel yfir 10% á næstunni. Veruleg kaupmáttarskerðing er fyrirsjáanleg. Hvað þýðir það að fasteignamarkaður botnfrýs á mjög skömmum tíma. Ég er alveg sammála því að það verður að rýmka um reglur íbúðalánasjóðs þegar bakarnir eru hættir að lána til fasteignakaupa. Ég man eftir fundi sem ég sat fyrir ekki mjög mörgum árum þegar fulltrúar bankanna og ýmissa annarra vildu ekkert frekar en að Íbúðarlánasjóður heyrði sögunni til. Hvernig ætli staðan væri í dag ef það hefði gengið eftir?

Engin ummæli: