laugardagur, apríl 19, 2008

Tók fjögurra daga prógram í vikunni þar sem ég fór þrisvar út á hverjum degi. þetta var ekkert erfitt og léttara en ég hélt í upphafi. Þannig var hægt að blanda saman rólegri og hraðari, styttri og lengri hlaupum. Síðasta vika gerði um 190 km sem er það lengsta sem ég hef nokkru sinni hlaupið. Fyrir þremur árum fór ég í 140 - 150 km og í tvær vikur og ég man að ég var nokkuð þreyttur eftir það. Nú finn ég ekki fyrir þessu. Hvíldi í dag en tek langt á morgun og á sunnudegi.

Það fer að styttast í Þingvallavatnshlaupið. Líklega verður það haldið á næsta laugardag. Veðurspáin liggur ljós fyrir upp úr helgi. Nánari upplýsingar liggja fyrir fljótlega en þeir sem eru áhugasamir geta haft samband við mig eða Kalla Gísla. Hann hringdi í kvöld og ætlar örugglega að fara hringinn. Það liggur vel fyrir að taka síðustu löngu æfinguna fyrir 100 km hlaupið nú um mánaðamótin.

Fór á aðalfund SA í dag. Þrjár konur fluttu stutt erindi þar m.a. Mér fannst það bera af sem Edda Rós sagði. Hún lagði upp tvo valkosti sem viðbrögð við núverandi stöðu. Að herpa sig saman með gömlum aðferðum sem geta frestað vandanum eilítið en leysa hann ekki. Staðan mun síðan verða enn verri þegar upp er staðið. Á hinn bóginn er valkosturinn um að takast á við stöðuna og hugsa til framtíðar. Það kom glöggt fram hjá henni að mat hennar er að íslenska ríkið hefur ekki burði til að veita bönkunum nauðsynlega baktryggingu. Þess vegna er skuldatryggingarálagið svo hátt og aðgengi þeirra að fjármunum svo takmarkað. Það er ekki spurning um hvað þú sért heldur hvað aðrir halda að þú sért.

Í dag bárust fréttir af því að vefsíðu sem innihélt umræðu um Islam og ýmislegt sem þeirri trú tengist hefði verið lokað vegna fjölda kvartana. Það er skammgóður vermir að loka síðu sem endar á .is því það er hægt að setja upp síður allstaðar í heiminum sem engin íslensk lög komast nálægt ef vilji er fyrir hendi. Ég hafði skoðað þessa síðu nokkuð oft og kom ekki á óvart að það yrði reynt að láta loka henni. Ég ætla ekki að leggja dóm á það sem þar var sett fram en margt af því sem þar var skrifað er þess eðlis að það er nauðsynlgt að halda því á lofti í umræðunni. Sem dæmi má nefna giftingar smástelpna til eldri karla sem er iðkað of víða í múhameðstrúarríkjum. Maður trúir ekki sínum eigin eyrum þegar sæmilega upplýst fólk af því maður telur er að verja þetta með skírskotun til trúarbragða og mismunandi menningarheima. Það var verið að sprengja upp pedófílahóp í Texas sem stundaði þessa iðju í skjóli trúarinnar. Þetta hefur vakið mikla og verðskuldaða athygli. Í Svíþjóð eru hundruðir smástelpna sendar úr landi til að giftast sér miklu eldri körlum. Umræða um þá hluti fæst aldrei almennilega upp á yfirborðið. Sífellt er reynt að þagga hana niður s.s. með hótunum.

Víkingur verður 100 ára á mánudaginn kemur. Um aðra helgi verða hátíðarhöld. Meðal annars verður pylsuveisla við Grímsbæ og síðan skrúðganga þaðan niður í Vík með viðkomu í Bústaðarkirkju. Ég veit með vissu að það hafa komið upp raddir þess efnis hvort það sé tilhlýðilegt að koma við í kirkjunni þar sem einhverjir sem kannski séu í skrúðgöngunni séu ekki kristnir. Vitaskuld var ekki hlustað á þetta. Þeir sem ekki vilja fara inn í kirkjuna geta svo sem bara beðið fyrir utan, en safnaðarstarfið er svo samtvinnað öðru barna og unglingastarfi í hverfinu að það er að flestra mati sjálfsagt mál að gera þar stuttan stans með skrúðgönguna, sérstaklega þar sem hún er í leiðinni.

Í kvöldfréttunum var sagt frá niðurstöðum félagsfræðinema á Bifröst um kynjahlutfalll í nefndum sveitarfélaga. Þar kom m.a. fram að hafnarnefndir og bygginga- og skipulagsnefndir séu yfirleitt skipaðar körlum en félagsmála- og skóannefndir frekar skipaðar konum. Það var talið dæmi um hve sveitarfélögin ættu langt í land í jafnréttismálum að hafnarnefndir og skipulags- og bygginganefndir væru skipaðar körlum. Að sitja í nefnd sveitarfélags er í fæstum tilvikum bitlingur heldur samfélagsþjónusta. Í þessar nefndir eru yfirleitt valdir þeir eintaklingar sem taldir eru hafa hvað mest vit á viðfangsefninu. Á meðan því sem næst allir sjómenn eru karlar og því sem næst allir iðnaðarmenn eru karlar þá er mjög eðlilegt að þeir séu ráðandi aðilar í hafrnarstjórnum og byggingarnefndum, sama hvað jafnréttisiðnaðurinn segir. Hann mætti kannski byrja á því að spyrja hvers vegna konur sæki ekki í störf á sjó eða í byggingariðnaði. Spyr sá sem ekki veit.

Engin ummæli: