fimmtudagur, apríl 10, 2008

Ég heyrði í morgunútvarpi Bylgjunnar í gær við tal við Rögnu á Laugabóli, aldraða konu, sem býr inni í Ísafjarðardjúpi. Hún var að tala um áföll þau sem hún hefur orðið fyrir vegna refsins á undanförnum árum. Refnum hefur fjölgað mikið og er aðalástæða þess friðun refsins á Hornströndum en þaðan flæðir hann út yfir nálæg héröð. Nú hef ég trú á að skaði bænda vegna refrsins hefur minnkað mikið frá því sem áður var, enda þótt alltaf séu dýrbítar á ferðinni. Á hinn bóginn veldur gengdarlaus fjölgun refsins gríðarlegum skaða á fuglalífi í landinu, svo miklum að hægt er að flokka það undir meiriháttar umhverfisslys eða umhverfisvá. Refurinn var friðaður á Hornströndum árið 1994 að því mig minnir. Fram að því hafði hann verið veiddur þar eins og annarsstaðar. Vafalaust hefur göngufólk sem hefur séð tófur á Hornströndum pressað á að hann yrði friðaður og hugsað þá fyrst og fremst um að þar væru engar rollur og því þurfti ekki að veiða hann. Popúlistar í stjórnmálum gleypa gjarna svona flugur og svo var í þetta skiptið. Friðun refsins á Hornströndum var skellt á án þess að nokkur tilraun væri gerð til að meta stöðuna eins og hún var fyrir friðun né að velta fyrir sér afleiðingum hennar. Síðan hefur friðun tófunnar á Hornströndum verið meðhöndluð eins og heilögu kýrnar í Indlandi þar sem ekki hefur mátt stugga við einu eða neinu. Árum saman stóð heimafólk í þrætum við einn mesta refafræðing þjóðarinnar, Pál Hersteinsson, um hvort tófur sem væru fæddar á Hornströndum héldu sig þar til dauðadags eða dreifðust til annarra héraða. Heimamenn töldu sig þekkja það mikið til að þeir gátu fullyrt að tófan af Hornströndum dreifðist yfir mörk friðlandsins út um Vestfirði á meðan Páll hélt hinu gagnstæða fram. Loks var fallist á að það voru settir sendar á nokkrar tófur. Viti menn, sendarnir sýndu svo óumdeilt var að tófan var síður en svo staðbundin heldur flækstust tófurnar með sendana út og suður um alla Vestfirði.
Ég gekk um Hornstrandir á hverju ári sumurin 1994 – 1999. Á þeim árum áttu sér stað miklar breytingar þar í náttúrunni. Mófuglar hurfu sem því næst alveg á þessu tímabili á meðan tófunni fjölgaði og fjölgaði. Ég fór fyrst um Hornstrandir sumarið 1976 og þá sást ekki tófa þarna. Árið 1999 var ekki þverfótandi fyrir tófu og það söng og hvein í henni í öllum fjörðum og fjöllum. Tófan hefur eytt stórum svæðum bjargfugls í Hornbjargi og Hælavíkurbjargi þar sem hún getur farið um. Þetta er eðlilegt því hun þarf að éta. Fjölgun tófunnar hefur mikil áhrif á rjúpnastofninn utan Hornstranda. Skotveiðimenn hafa sáralítil áhrif á þróun rjúpnastofnsins miðað við hina gríðarlegu fjölgun tófunnar sem er staðreynd.
Víða á landsbyggðinni hefur fólki fækkað verulega í dreifbýlum og landsstórum sveitarfélögum. Engu að síður er sú skylda lögð á herðar því fólki sem býr þar að annast og fjármagna að mestu leyti sjálft veiðar á ref og mink. Veiðar á ref og mink eru til þess að viðhalda ákveðnu jafnvægi í náttúrunni, m.a. til að vernda fuglalíf sem er verkefni sem alla varðar. Sem dæmi þá ber hið fámenna sveitarfélag Skútustaðahreppur ábyrgð á refa- og minkaveiðum í nágrenni Mývatns sem er á heimsminjaskrá sem einstakt náttúruvætti. Þjóðin kemur sáralítið að því. Ríkið leggur litla fjármuni til þessara veiða og innheimtir síðan virðisaukaskatt af vinnu veiðimanna þannig að þegar upp var staðið var þátttaka rískisins árum saman undir 10% af heildarkostnaði við refa – og minkaveiðar. Það þýðir að það er fólkið á landsbyggðinni sem ber að langmestu leyti kostnaðinn af þessu verkefni.
Viðkoma tófunnar er með ólíkindum. Ég man eftir því að Theódór Gunnlaugsson frá Bjarmalandi í Öxarfirði reiknar hann út hugsanlega fjölgun tófunnar í bók sinni Á refaslóðum. Hugsum okkur tvö tófupör sem eignast hvort um sig fjóra yrðlinga sem er eðlileg viðkoma. Þetta gætu verið tófur sem ekki hefði náðst að veiða þegar tófur voru friðaðar á Hornströndum. Þrír komast upp úr hvoru greni og þá eru 5 pör sem eignast yrðlinga á næsta ári og þannig koll af kolli. Eftir 8 ár væru tófupörin tvö sem dæmið byrjaði með búnar að eignast hátt á fjórða þúsund afkomendur. Auðvitað verða einhver afföll af hópnum t.d. eftir árferði en sama er að fjölgunin er með ólíkindum ef hún er látin vera óáreitt. Vitaskuld þurfa þessi dýr að éta. Fyrst er mófuglinn hreinsaður, þá er bjargfuglinn veiddur eftir því sem mögulegt er og svo er farið að leita á aðrar slóðir. Sjálfskipaðir umhverfisverndarsinnar horfa hins vegar á þetta með blinda auganu því þeim finnst svo gaman að gefa tófunni harðfisk og súkkulaði á gönguferð um Hornstrandir. Það er gott dæmi um úrkynjunina að villidýr sé farið að éta úr höndum fólks.
Tók 13 km hlaup út í Nauthólsvík í gær. Mikið af fólki að hlaupa í góða veðrinu.

Engin ummæli: