fimmtudagur, maí 22, 2008

Fékk SMS frá Eiolf Eivindsen í gær. Hann var að tékka af stöðuna. Þau hjónin voru á leið til Borgundarhólms en hann ætlar að debutera í 48 tíma hlaupi. Eiolf er fínn og glaðbeittur náungi. Við hittumst fyrst eftir Western States í Kaliforníu fyrir þremur árum. Hann leitaði mig uppi og fór að spyrja um gistimöguleika á Íslandi þannig að þau gætu notað "Stop over möguleika" á Íslandi í tvo til þrjá daga. Hann talaði ensku með kunnuglegum hreim svo ég spurði hvort hann væri norskur. Þegar hann sagði svo vera þá sagði ég að við gætum sleppt þvi að tala saman á ensku því ég kynni sænsku ágætlega. „Det er ju rena Biffen“ sagði Eiolf hinn kátasti og þýði það nú hver sem vill. Það gekk allt eftir með gistinguna, ég gat bjargað henni yfir hafið með stuttum fyrirvara og var ánægjulegt að geta gert þessu ágæta fólki smá greiða og ferðina enn eftirminnilegri. Síðan höfum við haft reglubundið samband og endurnýjuðum kynnin svo í Grikklandi í haust. Eiolf var stórreykingamaður áður en hann fór að hlaupa og er vafalaust jafn ofvirkur í hlaupunum eins og hann var í reykingunum hér áður. Hann vinnur í álveri og kann því hitanum vel.

Það lítur vel út með veður á Borgundarhólmi, 14 stiga hiti, sól og smá gola. Brautin verður 1.450 mera löng sem er betra en þeir 1.000 metrar sem ætlað var í upphafi. Hún er á tveimur samsíða stígum sem liggja í skógargöngum með örstuttu millibili. Fínar aðstæður.

Það verður hægt að fylgjast með hlaupinu á vef þess. Hlekkurinn er:

http://ultramarathon.dk/php-files/news_overview.php

Hann verður uppfærður á svona klukkutíma fresti.

Einnig er hægt að sjá frétt frá sjónvarpinu á Borgundarhólmi um hlaupið á þessum hlekk:

http://www.tv2bornholm.dk/moduler/nyheder/showregvideo.asp?dato=19-05-2008&cID=1&vId=424889

Þarna er viðtal við Kim Rasmussen hinn mikla hlaupara og myndir frá hlaupinu frá því í fyrra, m.a. frá startinu.

Bæinn R¢nne á Borgundarhólmi heyrði maður fyrst talað um í Nonnabókunum. Nonni fór til Danmerkur með skipinu Valdimar frá R¢nne. Rönne er stærsti ferjubær Borgundarhólms. Annars er útgerð því sem næst horfin á Borgunarhólmi eins og annarsstaðar umhverfis Eystrasaltið. Túrismi og landbúnaður eru helstu atvinnuvegirnir á Borgundarhólmi nú orðið.

Flýg til Köben í fyrramálið og tek rútuna frá Huvudbanegården út til Borgundarholms um eftirmiddaginn. Er kominn á staðinn upp úr kl. 20.00. Örstutt er frá höfninni út í smáhúsabyggðina þar sem er gist og þaðan er smá göngutúr út á hlaupasvæðið. Getur ekki verið betra. Held að allt sé klárt. Nú verður bara að borða nóg það sem eftir er.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gangi þér allt í haginn.

Fjölmenningarvitinn

Nafnlaus sagði...

Gangi þér nú allt í haginn! Við mamma fylgjumst með þér ;)

Nafnlaus sagði...

Bíð spent eftir fréttum gangi þér vel sem áður. Erla frænka

Nafnlaus sagði...

Gott gengi!

Bestu kveðjur
Halla Þorvaldsd.