sunnudagur, maí 11, 2008

Fór í Elliðaárdalinn um kl. 7.00 í morgun. Verkefni dagsins voru 16 hringir. Því var lokið rétt um fjórum tímum síðar. Fínt veður, smá suddi rétt til að byrja með en svo bara hlýtt og gott veður. Gaman að fylgjast með fuglalífinu í dalnum svona snemma á morgnana. Þegar umferðin eykst flytja þeir sig upp í trén en eru meira út um allt þegar þeir eru ekki truflaðir. Sá maríuerlu sem var að baða sig. Hún óð út í grynningar við vaðið milli brúnna, stakk hausnum á kaf og jós yfir sig alla. Þetta endurtók hún nokkuð oft. Því miður var myndavélin ekki tiltæk.

Þegar maður hleypur langt þá er útvarpið alltaf tiltækt. Skemmtilegasta útvarpsefnið að mínu mati fyrir utan Útvarp Latabæ eru Sigurður G. og Guðmundur Ólafsson á Útvari Sögu eins og ég hef áður sagt. Svo eru oft mjög góðir þættir á Rás tvö á kvöldin eftir kl. 22.00. Sigurður og Guðmundur hafa rúman tíma og geta látið móðan mása um það sem efst er á baugi í það skiptið. Þeir voru að tala um deilu hjúkrunarfræðinga á Landsspítalanum um daginn. Guðmundur þekkir gamla konu í Keflavík sem heldur honum upplýstum um það sem er efst á baugi í þjóðfélaginu og Sigurður G. þekkir gamla konu í Vogunum sem er betri en engin. Sú gamla í Keflavík hafði lent á spítala um daginn og notaði tækifærið til að skyggnast bak við tjöldin þar. Að sögn Guðmundar saði sú gamla að hjúkrunarfræðingar væru yfirleitt ráðnir í hálft til treikvart starf en síðan ynnu þeir von úr viti og mestan partinn í yfirvinnu. Meðallaun hjúkrunarfræðinga á Landsspítalanum að sögn þeirra gömlu er um 510.000 kr á mánuði. Ónærgætnin er dálítið mikil á spítalanum segir sú gamla og meðal annars er þeim bannað að sofa í vinnunni. Slæmt er það. Hjúkrunarfræðingar hérlendis verða að vera með stúdentspróf til að geta farið í hjúkrunarfræðinám. Það er líklega til þess að vera samræðuhæfir um hvað er sínus af einum eða kunna skil á latneskum fallbeygingum ef vitrir fræðimenn skyldu þurfa á spítalavist að halda og vildu ræða um fagið við starfsfólkið. Í Danmörku segir Guðmundur að ekki sé gerð krafa um stúdentspróf áður en farið er í hjúkrunarfræðinám. Þar geta sjúkraliðar t.d. bætt við sig tveimur árum og lært til hjúkrunarfræðings. Skyldi vera borin minni virðing fyrir sjúklingum í Danmörku en hér?

Það var svakaleg lýsingin í 24 stundum í dag um hvernig staðið var að sölu hlutar ríkisins á 40% hluta í Íslenskum aðalverktökum árið 2003. Stjórnendur ÍAV fengu að kaupa hlut ríkisins þrátt fyrir að þeir hefðu ekki lagt fram besta tilboðið. Stjórnendur ÍAV voru fruminnherjar og vissu því margt um fyrirtækið sem aðrir áhugasamir kaupendur vissu ekki. Formaður einkavæðingarnefndar er á sama tíma stjórnarformaður fyrirtækisins sem verið er að selja. Hans rulla í þessu leikriti er afar áhugaverð. Hann dregur upp dökka mynd af stöðu fyrirtækisins þegar verið er að kynna það fyrir áhugasömum kaupendum samkvæmt lýsingu blaðsins. Hann sem formaður einkavæðingarnefndar hefur mikil áhrif á hverjum er seldur hlutur ríkisins hlýtur maður að álykta. Hann er síðan kosinn stjórnarformaður af kaupendum fyrirtækisins eftir að salan hefur átt sér stað. Árið eftir greiðir fyrirtækið kaupendum út hærri arð en sem nemur kaupverðinu!!! Hvurslags helvítis rugl er þetta?? Ég ætla rétt að vona að fjölmiðlamenn sýni þessu ráðslagi með opinberar eignir jafn mikinn áhuga eins og þeir hafa sýnt launakjörum framkvæmdastjóra miðborgarinnar að undanförnu.

Það hefur verið mikið fjallað um perra og meinta perra að undanförnu. Byrgisperrinn var dæmdur í þriggja ára fangelsi og að greiða háar sektir. Samkvæmt sögunni hlýtur sú spurning að vakna hvenær honum verði sleppt út. Eftir ca eitt til eitt og hálft ár? Hvenær ætla fjölmiðlamenn að rannsaka hið tvöfalda dómskerfi í landinu. Annars vegar er héraðsdómur og hæstaréttur og hins vegar náðunarnefndin. Síðan býst maður við að BP sé búinn að koma málum þannig fyrir að hann borgi aldrei neinar sektir. Prestur á Selfossi hefur verið sakaður um ósæmilegt framferði við ungar stúlkur. Fréttamenn túlkuðu þetta sem svo að hann væri sakaður um kynferðisafbrot um leið og myndir voru samdægurs birtar af honum á forsíðum blaða og í tengslum við fyrstu frétt ljósvakamiðla. Ca þremur vikum eftir að maður er settur í gæsluvarðhald sakaður um gróf kynferðisafbrot gagnvart börnum sínum og börnum honum tengdum kom frétt um það í fjölmiðlum. Mynd var blörruð og nafnið hefur ekki verið gefið upp. Af hverju er þessi mannamunur gerður. Er það eitthvað viðkvæmt um hvern er að ræða í þessu tilviki? Er þetta enn eitt dæmið um lágflugið sem fjölmiðlamenn iðka oft á tíðum?

Þegar maður hlustar mikið á útvarp getur ekki fram hjá því farið að málfar fjölmiðlamanna vekji nokkra athygli. Ég er ekki sérstakur málfarsmaður en smá "standard" reynir maður að hafa. Maður vill alla vega hafa orðtök á hreinu ef maður notar þau. Oftar en ekki er vitlaust farið með algeng hugtök þegar þeim er brugðið upp í máli fjölmiðlamanna. Nýlega var sagt í kvöldfréttum sjónvarpsins að kílómetrarnir styttust mikið sem hægt væri að keyra vegna hækkana á bensínverði. Fyrir fimm árum hefði verið hægt að aka ákveðinni bíltegund norður að Kópaskeri fyrir 5.000 kall en nú væri einungis hægt að keyra hann norður í Öxnadal fyrir sama pening. Ég hélt að kílómetrinn væri alltaf og eilíflega 1000 metrar hvað sem gerðist í olíuverði og verðbólgu. Þeim kílómetrum sem hægt er að aka fyrir sama pening fækkar hins vegar með hærra bensínverði. Í þessari sömu frétt var síðan klykkt út með að það væri hægt að aka 56 kílómetrum skemur nú á þessum tiltekna bíl en fyrir fimm árum siðan, þ.e. áður að Kópaskeri en nú í Öxnadal. Þarna munar allavega um 200 kílómetrum, a.m.k ef kílómetrinn er 1.000 metrar eins og hann var skilgreindur í Reikningsbók Elíasar Bjarnasonar fyrir margt löngu.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Væri nafn þess sem hefur verið sakaður um gróf kynferðisbrot gagnvart börnum sínum opinberað í fjölmiðlum væri um leið búið að opinbera hver fórnarlömbin eru.

Munurinn á þessum tveimur málum felst því í friðhelgi fórnarlambanna.