laugardagur, maí 03, 2008

Við Jói og Stebbi kvöddum Neil í gærkvöldi. Hann var kallaður snögglega til starfa í London og fór í morgun. Neil er fínn drengur og góður félagi fyrir utan að vera frábær íþrottamaður, líklega sá mesti sem maður hefur kynnst. Hann sagðist sakna Íslands, bæði alls þess góða fólks sem hann hefur kynnst hér í vetur, en einnig fannst honum mjög gott að æfa hérna. Hreina loftið er töluvert betra til langhlaupa en stórborgarbrækjan í London. Hann segir að mögulegt sé að hann komi aftur til starfa hér eftir tvö ár. Það er stuttur tími fyrir langhlaupara. Hann stefnir á að bæta sig í maraþoni í Edinborg eftir þrjár vikur og mun reyna að fara niður í 2.30. Sumarið samanstendur annars af 100 km hlaupi, Laugaveginum, 100 mílna hlaupi, Ironman og tvöföldum Ironman. Allt þetta er undirbúningur fyrir hinn tífalda Ironman sem hann ættlar að takast á við Í Mexíkó í haust. Þar mun hann synda 38 km í 25 metra laug, hjóla 1800 km á 2.5 km hring (tekur svona sex daga) og að lokum hlaupa 420 km á 400 metra braut. Hann segir að ef hann klárar hjólið þá muni hann klára þrautina því þá sé hinu erfiðasta lokið. Alls tekur þetta svona 10 - 12 daga og það er verið að í 20 - 22 tíma á sólarhring. Allt sem maður hefur kynnst er bara kjúklingagauf í samanburði við þessi ósköp.

Ég sá nýlega að það er búið að setja lag á netið um eggjakastið og piparúðaspreyið uppi í Norðlingaholti. Það er svo sem allt í lagi að gera lag um þetta ef menn hafa gaman af því en nafnið á laginu fannst mér í meira lagi aulalegt. Reykjavík - Belfast. Þarna er vísast verið að vísa til þess að það sé einhver samsvörun mili eggjakastsins á Olísplaninu og ástandsins á Norður Írlandi eins og það var til skamms tíma. Ég held að þessir krakkar viti ekkert hvað það er að tala um þegar þeim dettur í hug að setja samasemmerki milli þeirra atburða sem áttu sér stað á Norður Írlandi gegnum árin og þess sem skeði á Olísplaninu. Ég man vel eftir því hér fyurr á árum að það bárust stöðugt fréttir frá Norður Írlandi af götubardögum, skotbardögum, manndrápum og ég veit ekki hverju. Belfast og Londonderry voru helstu borginar sem nefndar voru í þessu sambandi. Átökin voru milli kaþólikka og mótmælenda, milli breska hersins og írskra andspyrnumanna. Leyniskyttur skutu á breska herinn, breski herinn skaut á almenna borgara. Blóðugi sunnudagurinn gleymist ekki þegar breski herinn skaut á þriðja tug barna, unglnga og fullorðins fólks. Bobby Sands og yfir tíu félagar hans sveltu sig til dauða. Þannig má áfram telja um þær mannfórnir sem færðar voru í þessum átökum sem virtust engan enda geta tekið en tókst loks að leiðpa til lykta á síðasta áratug. Svo er verið að setja samasem merki milli þessa ástands og eggjakasts uppi á Olíssjoppunni þegar unglingar sem leiðist fundu sér nokkra skemmtan í því að kasta eggjum í lögguna og lögreglan handtók nokkra menn sem höguðu sér eins og kjánar. Mér finnst þetta ekki fyndið heldur miklu frekar bjánalegt og vanvirða við þann fjölda fólks sem lét lífið í Belfast og á Norður Írlandi gegnum árin í raunverulegri frelsisbaráttu.

Hvað á að nú að þýða hjá RÚV að senda mann til Austurríkis til að standa fyrir framan hús í myrkri og endurtaka texta sem maður hefur heyrt og séð á öllum þeim fréttastofum sem maður hefur flett upp á að undanförnu? Ég skil það ekki. Það bætti engu við fréttirnar, skýrði málið ekki nokkurn hlut.

Víkingur hélt veislu í kvöld niður á Nordica hotel til að halda upp á 100 ára afmæli sitt. Húsið stappfylltist og þarna voru samankomnir um 500 Víkingar. Flott kvöld. Í gær var fjölskyldusamkoma í Víkinni og á morgun verður hátíðarfundur í Víkinni.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

spyrning nr 1. 10faldan ironman. hvernig er það hætt. Á first að klára að synda 38km, svo að hjola og svo að hlaupa. eda er hætt að klára bara 1 ironman á dag.
Spurning 2. Borða þessi ofur menn bara mat eða fáu þær lika næring i æð.
Spurning 3. þegar þu fer ut að hlaupa kl 6 og klára svona 20km, vaknar þu kl 4 og borða morgunmat þá eða borðar þú þegar þu ert komin heim.
það er komin nog i bili

Nafnlaus sagði...

Sæll.
Tífaldur Ironman er náttúrulega ofurmannleg raun sem er einungis á færi örfárra. Þar er ekki síður spurning um andlegan styrk en líkamlegan. Greinarnar eru teknar í beit, þ.e. fyrst eru syntir 38 km, síðan hjólaðir 1800 km og að lokum hlaupnir 422 km. Þeir borða allan venjulegan mat á meðan á þessu stendur því keppnin tekur 10 - 12 daga. Það þýðir ekkert að ætla sér að lifa á orkubitum og geli allan þann tíma.
Þegar ég fer snemma út að hlaupa á morgnana og hleyp langt (20 - 40 km) fékk ég mér morgunmat fyrr í vetur en er hætti því þegar leið á veturinn. Bæði er gagnlegt. Það er gott að venja magann við að vera saddur þegar maður er að hlaupa langt því í sólarhringshlaupi eða þaðan af lengra þarf maður að borða á leiðinni. Á hinn bóginn er einnig gott að venja sig við að hlaupa með tóman maga því þá þjálfast upp hæfileiki líkamans að vinna orku úr fitunni. Þá eru minni líkur á að maður hlaupi á vegginn. Ég fæ mér hins vegar alltaf vel að borða strax þegar ég er kominn heim. Það er eitt af tilhlökkunarefnunum í löngum hlaupum að vita að það bíður góð næring þegar heim er komið. Góður slurkur af herbalifehristing með nesquik útí, dolla af malti, ávextir og döðlur. Bragðgott og nærandi.