Haustmaraþonið var haldið í dag. Veðrið var eins og best er á kosið á þessum árstíma, logn og svalt. Ég bjó mig ekki neitt sérstaklega undir hlaupið nema að ég hljóp ekkert í gær. Svo varð ég of seinn að skrá mig, karbólódaði ekkert en tók það sem hluta af æfingaáætluninni. Hlaupið var fínt, góð þátttaka og öll umgjörð eins og best verður á kosið. Takk fyrir mig. Ég ætlaði að rúlla í gegnum hlaupið án mikilla átaka og það gekk allt upp. Tíminn varð betri en ég átti von á eða undir 3.30, þrátt fyrir að ég þurfti að skjótast út í skóg á fyrri hring. Það er gott aða eiga þenna tíma í handraðanum ef maður skráir sig í hlaup þar sem gerð er krafa um árangur. Þessi tími dugar hvar sem er fyrir mann á mínum aldri.
Ég held að ég hafi verið á negatívu splitti eða verið hraðari á seinni hring en þeim fyrri. Það er í sjálfu sér ágætt. Það er merkilegt hvað allt er afstætt. Áður fannst mér maraþonið vera mjög lengi að líða og nauðsynlegt var að hafa útvarp í eyrunum til að stytta sér stundir þennan langa tíma sem hlaupið tók. Nú líður tíminn eins og örskot, maður er kominn á seinni hring áður en hendi er veifað. Seinni hringurinn líður einnig mjög hratt og áður en maður veit af eru bara 5 km eftir. Leiðina frá Nauthól hef ég hlaupið 1000 sinnum svo hvert skref er kunnuglegt á þeirri leið og þá er orðið stutt eftir. Alltaf er jafngaman að ljúka maraþoni og henda sér niður í grasið á eftir. Í því fest tilhlökkunin!! Fyrir nokkrum árum fóru alltaf nokkrar neglur í maraþonhlaupi. Maður kom oft heim með blöðrur á fótunum og hélt að þetta ætti bara að vera svona. Maraþonhlaup væri alvöru mannraun sem kostaði blóð, svita og jafnvel tár. Eftir að ég er farinn að hlaupa í stærri skóm en áður þá er þetta alveg horfið. Fæturnir eru að afloknu hlaupi eins og maður hafi ekki farið út úr húsi.
Hröðustu menn voru vel undir þremur tímum sem er mjög gott í svalanum sem er hér um miðjan október.
Félag maraþonhlaupara a´sóma skilið fyrir hve vel er staðið að þessu hlaupi enda sýnir aðsóknin það að hlaupararnir kunna að meta það.
Sjónvarpið mætti á staðinn í morgun og tók viðtöl út og suður. einnig mynduðu þeir hlaupið þegar það var komið af stað. Flott hjá þeim. Mbl.is birti frétt af hlaupinu og einnig var frásögn af því í íþróttafréttum RUV í hádeginu. Það er að renna upp fyrir fjölmiðlamönnum hvað er að gerast í almenningshlaupuum á Íslandi. Það hefur orðið alger sprenging í þátttöku almennings í þeim. Það er á hreinu að þessi þróun hefur miklu meiri áhrif til almennrar heilsueflingar í landinu en menn gera sér grein fyrir í fljótu bragði. Maður er náttúrulega bara í forréttindahóp að geta verið þátttakandi í þessu æfintýri.
Ég er ekki sérstaklega kristinn og fer sjaldan í kirkju. Ég gerði tilraun til að skrá mig úr þjóðkirkjunni fyrir rúmum 10 árum þegar Ólafsmál Skúlasonar komu upp á yfirborðið af alvöru. Ég hef reyndar ekki gáð að því hvort úrsögnin hafi náð alla leið í gegn. Þrátt fyrir þetta þá virði ég þau grundvallaratriði sem kristin trú byggir á. Þá á ég fyrst og fremst við nýja testamentið. Hið gamla má sigla sinn sjó. Ég held að áhrif kristinnar trúar ínn í samfélagið séu meir til bóta en ógagns. Prestar eru mjög misjafnir. Góðir, mannlegir og gefandi prestar eru virtir vel. Hinir mega missa sín. Ég ber misjafna virðingu fyrir trúarbrögðum. Hindúatrú líkar mér ekki við. Það er fyrst og fremst vegna þes að hún viðheldur hinni hrikalegu stéttaskiptingu í þeim löndum þar sem hún hefur náð fótfestu. Islamstrú er enn verri. Trú sem byggir á sharialögunum er ekkert grín. Grýtingar, handhögg og kvennaforakt(svo dæmi séu nefnd) sem byggja á trúarsetningum eru vægt sagt varasöm. Mjög fámennur en hávær hópur fólks hérlendis hefur viljað útiloka umræðu um kristna trú út úr fræðslustarfsemi hérlendis. Nú virðist sem svo að þessi hópur hafi náð meirihluta í svokallaðri mannréttindanefnd hér í borginni. Niðurstaðan var dæmalaus samþykkt þar sem kristin trú skyldi útilokuð úr leikskólum og grunnskólum hérlendis. Ég heyrði á dögunum viðtal við einn úr þessum hópi í útvarpinu. hann avr spurður að því hvort ekki ætti að kjósa um þetta mál eins og almenn umræða gengur mikið út á þessa dagana. Nei, aldeilis ekki. Um þetta mátti ekki kjósa. Náunginn fimbulfambaði mikið um að meirihlutinn mætti ekki kúga minnihlutann í þessum efnum. En má þá mjög lítill minnihluti kúga meirihlutann eða hvað í skjóli pólitískrar hreintrúarstefnu? Öfgafull og vitlaus umræða hefur alltaf verið til staðar og verður alltaf til staðar. það er bara eðlilegt. Það sem manni finnst aftur á móti vera varasamt í dag að það er farið að taka meira mark á svoleiðis málflutningi. Þjóðfélaginu verður ekki breytt með einfaldri meirihlutasamþykkt einhverrar nefndar ef eitthvað vit væri í samfélagslegri umræðu.
Ég fékk tvær myndabækur í gær. Þessar stóru myndabækur, sem gefnar eru út í dag eru margar hverjar bæði frábærlega gerðar og fullar af flottum myndum. Þær kosta einnig miklu mina en þær gerðu fyrir um 20 árum síðan þegar þær fóru fyrst að koma á markaðinn. Ég held ég gleymi seint tilfinningunni þegar ég fletti fyrst Íslandsbókinni eftir Sigurgeir Sigurjónsson sem kom út á 10 áratugnum. Maður hafði aldrei séð aðrar eins myndir.
Önnur bókin sem ég fékk var Veiðimenn Norðursins eftir RAX. Stórkostleg bók með gömlum og nýjum frá Grænlandi. Þar er m.a. góð yfirlitsmynd frá Tassilaq sem sýnir vel hluta af leiðinni sem við fórum í óbyggðakeppninni árið 2007.
Hin bókin er Fótbolti í Afríku eftir Pál Stefánsson. Þessi bók er einnig frábær nálgun á óvenjulegt viðfangsefni. Það eru gríðarleg forréttindi fyrir ljósmyndara að hafa aðstæður til að takast á við svona verkefni og skila þeim svo vel frá sér eins go raun ber vitni.
laugardagur, október 23, 2010
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Þú misskilur umræðuna um skólana og trúna. Það er enginn að tala um að útiloka umræðu um kristna trú. Þvert á móti er lögð áhersla á góða trúarbragðafræðslu sem hlýtur að taka mið af yfirburðastöðu kristninnar á Íslandi fyrr og nú.
Hins vegar er talað um að trúboði og trúarlegu starfi verði úthýst úr skólum. Það er allt annað en að banna umræðu um kristna trú.
Ef þú vilt kjósa um hvort stunda eigi trúboð í skólum mætti allt eins spyrja hvort næsta skref ætti að vera að kjósa um hvort önnur trúfélög en Þjóðkirkjan fái að halda úti starfsemi sinni hér. Þetta snýr hvort tveggja að trúfrelsi. Trúfrelsi snýr ekki bara að því að fá að iðka trú sína án afskipta ríkisvaldsins heldur líka að ríkisvaldið beiti sér ekki í trúarlegum tilgangi í opinberum skólum.
Þetta er heldur ekki meira ofríki en svo að þeir sem vilja ala börn sín upp í kristinni trú geta gert það heima hjá sér, í kirkjunni, í samtökum eins og KFUM&K og þar fram eftir götunum. Eina sem við, sem teljum opinberu skólana í lýðræðisþjóðfélagi eiga að vera veraldlega, biðjum um er að börnin okkar sæti ekki trúboði í skólanum. Er það svo mikið að fara fram á?
Kveðja
Brynjólfur Þór Guðmundsson
Þessi trúarumræða er svona álíka eins og ef grænmetisætur vildu keyra þá stefnu sína í gegn í menntakerfinu að bannað bæri að halda því fram í skólum að fiskur sé hollur.
Tek undir hvert orð varðandi myndabækurnar og haustmaraþonið. Mér fannst reyndar Páll missa dampinn aðeins í Áfram Afríka bókinni, hefði verið gaman að sjá hann fara til fleiri landa, en Rax er auðvitað frábær ljósmyndari á heimsmælikvarða.
Skrifa ummæli