föstudagur, október 15, 2010

Loksins virðist niðurstaða hafa fengist í hina háværu umræðu um niðurfærslu lána. Eftir stíf fundahöld var niðurstaðan sú að almenn flöt niðurfærsla lána gengur ekki upp. Ef ráðist væri í slíka hluti væri ósköp einfaldlega mjög illa farið með peninga og aðgerðin bæði vitlaus og ómarkviss. Maður skilur eiginlega ekki hugsanaháttinn hjá þeim sem hafa talað hástöfum fyrir þessari aðferðafræði. Halda þeir að allir skuldi sömu upphæð? Afhverju að vera að aafskrifa skuldir hjá þeim sem enginn möguleiki er að bjarga. Af hverju að afskrifa hjá þeim sem enga þörf hafa fyrir niðurfellingu. Heldur fólk virkilega að efnahagskerfi þjóðarinnar geti hrunið, gengi krónunnar fallið gríðarlega og verðbólgan hækkað án þess að það komi eitthvað við allan þorra fólks. Þá er ekkert verið að taka afstöðu til afhverju þetta gerðist allt saman, heldur atburðarins sem slíks. Það á að skipta skuldurum í þrjá megin flokka. Þeim sem ekki er við bjargandi, þeim sem hægt er að bjarga með eðlilegum aðgerðum og þeims em ekkert þarf að hjálpa. Þeir sem ekki er við bjargandi fara sína leið í hefðbundnu ferli en því fólki verður að tryggja búsetu. Þá kemur manni til hugar Kreppulánasjóðurinn frá því eftir 1930. Þá misstu skuldugir bændur jarðir sínar í stórum stíl. Ríkið yfirtók jarðirnar en gaf fólkinu kost á að búa áfram á þeim. Þegar úr rættist höfu þeir hinir sömu forkaupsrétt að jörðunum sem margir nýttu sér.
Halda verður við greiðsluvilja hjá þeim sem geta bjargað sér þannig að tryggt sé eftir föngum að þeir geti leyst úr sinni stöðu með aðstoð viðkomandi aðila. Þríðji hópurinn bjargar sér bara.

Í Mogganum sér maður í dag að 88% einstaklingslána í bankakerfinu eru í skilum. Umræðan undanfarna mánuði og misseri hefur verið á þann hátt að það séu eiginlega allir með allt í fjárhagslegri steik. Fólk sem vinnur á fjölmiðlum hefur henst hingað og þangað eftir því sem fólk hefur hringt inn og lagt vandræði sín á borðið. Gagnrýnin hefur engin verið. Alltaf hefur verið talað um að eiginlega öll þjóðin væri með fjármálin í uppnámi o.s.frv. Mér finnst að það þyrfti að koma fram hverjir standa á bak við svokölluð "Hagsmunasamtök heimilanna" og "Samtök Lánþega". Bæði þessi svokölluðu samtök hafa átt ótakmarkaðan aðgang að fjölmiðlum. Er þetta kannski mjög þröngur hópur fólks sem er í miklum persónulegum vandræðum en kemur fram undir nafni fjöldasamtaka og tekur sér það bessaleyfi að tala í nafni fjöldans? Er það rétt að svokölluð "Samtök Lánlega" séu bara einn maður? Með dyggri aðstoð fjölmiðla hvöttu þessi svokölluðu samtök til áhlaups á bankakerfið, til þess að neita að borga af lánum og ég veit ekki hvað.

Auðvitað eru of margir í erfiðleikum, mismunandi miklum, en sá vandi verður ekki leystur með affluttri umræðu, upphrópunum og kröfum um óraunhæfa aðferðafræði.

Ég fékk nýtt hefti Þjóðmála nýlega. Mér finnst það vera eitt besta tímarit um þjóðfélagsumræðu sem gefið er út á landinu í dag. Enda þótt maður sé ekki alltaf sammála öllu sem í tímaritinu stendur þá er í því oftast tekið á mjög áhugaverðri umræðu og höfundar greina ófeimnir við að velta upp vinklum sem koma ekki oft fyrir í almennri fjölmiðlaumræðu.

2 ummæli:

gandri sagði...

Sæll Gunnlaugur.

Þú getur vel kynnt þér sögu Samtaka lánþega ásamt því sem samtökin hafa staðið fyrir á vef samtakanna. http://gandri.com/?page_id=1372
Samtökin hafa meðal annars, að frumkvæði bænda á suðurlandi, staðið fyrir nokkrum fundum um lánamál þeirra og stöðu gagnvart bönkunum.
Það er frelsi hvers manns að stofna samtök og það er ekkert leyndarmál að upphafsmaður Samtaka lánþega er einn maður.
Hins vegar eru um 3000 manns í samtökunum nú.
Nálægt 1000 manns hafa á vegum samtakanna skráð sig sem áhugasama í hópmálsókn gegn fjármálakerfinu og þúsundir hafa tekið þátt í aðgerðum Samtaka lánþega um lögmæta stöðvun greiðslna af ólögmætum lánasamningum. Þær aðgerðir urðu til þess að bankarnir komu til móts við lánþega erlendra og gengistryggðra skuldbindinga með tilboði um greiðslu kr. 5.000,- pr. upphafleg milljón.
Margt fleira hefur verið gert í nafni samstöðu lánþega og hefur það verið gert í nafni samstöðu af því við höfum sýnt samstöðu.
Allt tal um að Samtök lánþega hafi óheftan aðgang að fjölmiðlum er auðvitað kjánalegt, því aðgangur að fjölmiðlum á auðvitað aldrei að vera takmarkaður. Slíkt er aðeins staðreynd í þjóðríkjum sem ástunda kúgun á þegnum sínum.
Ég vona að það sé ekki þín draumsýn um íslenskt þjóðfélag.
Samtök lánþega hafa barist fyrir því að koma rödd sinni á framfæri og samtökin hafa náð að koma þeirri rödd á framfæri...
...af því samtökin hafa eitthvað að segja.
Kveðja,
Guðmundur Andri
Talsmaður Samtaka lánþega

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir þetta innlegg Guðmundur. Ég skulda eins og margir aðrir en ég hef ekki fundið samsvörun við málflutning "Samtaka Lánþega" eins og ákveðinn hópur fólks hefur kosið að kalla sig. Ég er ekki sammála því að slíkur hópur, sem hefur fullan rétt til að berjast fyrir sínum persónulegu hagsmunum, segist tala í nafni miklu fleiri en standa bak við þá.
Mbk
Gunnlaugur