Það virðist vera svo að það sé vís leið til að komast inn í fréttir hjá 365 samsteypunni að gera eitthvað af sér gagnvart opinberum aðilum eða hóta þeim.
Maður brýtur allt og bramlar inni í Tryggingastofnun og ræðst á starfsfólk stofnunarinnar af því hann er ósáttur við úrlausn sinna mála. Tvö viðtöl á Stöð 2.
Maður ræðst á tæki og húsbúnað hjá Umboðsmanni skuldara og veldur stórskaða hjá stofnuninni af því hann er ósáttur við úrlausn erindis síns. Langt viðtal á Vísi.is þar sem honum er leyft að koma fram í skjóli nafnleyndar og réttlæta gjörðir sínar.
Maður stofnar Facebook síðu þar sem hann hvetur til þess að fólk brjótist inn hjá forsætisráðherra og fjármálaráðherra. Langt viðtal í fréttum Stöðvar 2 þar sem hann reynir að gera grín að eðlilegum viðbrögðum lögreglunnar.
Þetta eru alvarlegustu dæmin um þau tilvik þar sem mér hefur fundist að starfsfólk Stöðvar 2 hefur farið langt yfir strikið í eðlilegum fréttaflutningi ef fréttaflutning mætti kalla. Með þessari afstöðu er stöðin að ýta undir það að fólk beiti ofbeldi inni á stofnunum, gagnvart starfsfólki stofnana og gagnvart heimilum ráðamanna ef það er ósátt við úrlausn sinna mála. Nú veit ég að margir eru fjárhagslega í mjög erfiðum málum af ýmsum orsökum. Hluti þeirra hafa lent í atburðarás sem þeir eru ekki gerendur heldur fórnarlömb, m.a. vegna atvinnumissis. Aðrir voru skuldsettir fram á ystu nöf fyrir hrunið og ekkert mátti því út af bera. Enn aðrir eru þarna einhversstaðar mitt á milli. Það leiðir hins vegar til algerrar upplausnar ef það á almennt að gilda að einstaklingar nái fram úrlausn sinna mála með ofbeldi.
Hvað sem ráðamenn segja þá er það einföld niðurstaða sem fæst með því að beita heilbrigðri skynsemi að það verður aldrei hægt að leysa hvers manns vanda. Þannig er það bara. Svoleiðis hefur það alltaf verið. Ég þekki vel til stöðu mála út um allt land. Í gegnum árin hafa orðið miklir fólksflutningar frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins sem orsakast m.a. vegna mikilla breytinga á atvinnuháttum. Fjöldi fólks þurfti að ganga frá verðlausum eignum sínum vegna atvinnumissis en skuldirnar hurfu ekki. Það voru ekki settir á neinir neyðarfundir á ríkisstjórnarvísu vegna þessa fólks. Þetta fólk mátti bara axla þessar byrðar og koma undir sig fótunum á nýjan leik á eigin spýtur, sumt í þannig stöðu að það var stimplað vanskilafólk í nokkur ár. Hvort það er réttlátt eða ranglátt skal ég ekki segja til um en svona hefur þetta verið. Fjöldi fólks missti allt sem það átti á árunum 1983-1986 (svona gróft til tekið) eftir að samband vísitölu kaupgjalds og verðlags var tekið úr sambandi á árinu 1983. Það var ekki hægt annað en að gera það þegar verðbólgan var farin að liggja í 35-40% árlega og sló upp í 100% á ákveðnum tíma. Þetta var groddaleg hrossalækning sem kom mjög illa við þá sem stóðu illa á spori á þessum tíma. Sérstaklega átti það við þá sem voru að byggja hús eins og gefur að skilja. Fyrir þá sem þekkja söguna eru því fjárhagslegir erfiðleikar fjölda fólks ekkert nýtt.
Það er hins vegar kannske forskot þeirra sem þekkja söguna og hafa ekki gleymt ýmsu frá liðnum árum sem veldur því að þeir fara margir hverjir varlega í að eyða peningum sem þeir eiga ekki því þeir eiga að vita að það kemur alltaf að skuldadögunum. M.a. þess vegna notaði ég gamla éppann minn þar til í fyrra þegar hann sagði stopp á 17. aldursári.
Ég heyri nú í fréttum að allt dæmið í kringum stjórnlagaþingið eigi að kosta 500 milljónir. Ésús minn. Er þetta nú það nauðynlegasta í dag?
Mér finnst að hefja eigi uppskurð í opinberum fjármálaum á þann hátt að taka fram fjárlögin frá árunum 2000 - 2002 og bera þau saman við fjárlög fyrir árið 2010. Síðan á að draga út þau verkefni sem hafa bæst við á þessum árum. Þjóðin lifði ágætu lífi á árunum um og upp úr aldamótunum. Það sem hefur bæst við er að miklum líkindum eitthvað sem við höfum ekki efni á að gera í dag. Skoða á hvort ekki sé hægt að stroka það út tímabundið a.m.k. þegar fyrir liggur mikil nauðsyn á samdrætti í opinberum fjármálum.
laugardagur, október 16, 2010
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Það má heita góður éppi nú til dags að duga í 17 ár, að ná bílprófsaldri. Hvurslags éppi var þetta eiginlega, bara svona af forvitni?
Hvað ætli þú hafir sparað þér mikið á þessu? Einhverstaðar sá ég útreikninga á því hvað sparaðist á því að kaupa notaðan bíl og eiga lengi miðað við það, eins og flestir virðast gera, kaupa nýtt og skipta út á 2ja til 3ja ára fresti. Mismunurinn er alveg magnaður!
Að lokum: lastu viðtalið við Pétur H. Blöndal í Fréttablaðinu á laugard.?
Þetta var nú bara klassískur Patrol 92 módel. Hann þurfti vitaskuld ákveðið viðhald enda mikið keyrður. Það var samt alveg innan eðlilegra marka. Það að keyra svona bíl nýjan út af bílasölunni kostaði síðast þegar ég vissi ekki undir 500 þúsund kall. Líklega meira nú. Ég las viðtalið við Pétur og þótti það gott. Pétur er einn af mínum uppáhaldsstjórnmálamönnum. Það stenst honum t.d. enginn snúning í lífeyrissjóðamálum. Hann hefur heldur ekki misst kommon sence í almenri afstöðu. Margir afskrifa hann sem algerlega ómarktækan. Mér finnst það segja meir um viðkomandi en Pétur.
Skrifa ummæli