Foreldra mínir voru venjulegt bændafólk vestur á fjörðum. Þau puðuðu þar í 45 ár. Lengi framan af lifðu þau við heldur þrönga afkomu eins og gerðist og gekk hjá bændum þess tíma. Það var aldrei fátækt en það þurfti að halda vel utan um allt til að hlutirnir gengju upp. Það var ekki fyrr en vélvæðingin hélt innreið sína, sem ákveðnir meðvitaðir einstaklingar fordæma nú svo ákaflega, að það varð allt heldur léttara og það fór að vera einhver afgangur til að ráðstafa í annað en bráðustu nauðsynjar. Þegar þau hættu búskap þá seldu þau það sem þau gátu losað sig. Jörðinni héldu þau áfram enda var hún verðlítil á þeim árum. Þau hafa farið vel með það sem þau eiga og eiga vel fyrir sig sem betur fer. Skárra væri það nú. Það var ekki farið með aurana í neinar spekúlationir eða fjárfestingar á kúlutímunum heldur voru þeir geymdir á sparireikning. Ýmsir hafa sagt að það hafi verið rétt að þau og aðrir í álíka stöðu hefðu átt það skilið að tapa því sem þau áttu að mestu eða öllu leyti við bankahrunið. Sparifjáreigendur eru heldur slæmt fólk í augum ýmissa og tiltölulega réttlitlir þjóðsfélagsþegar. Þeir eru skattlagðir eins og mögulegt er. Skattlagningin er ekkert annað en eignaupptaka eins og hún er framkvæmd þegar ríkið hagnast á því að verðbólgan sé sem mest. Fjármagnstekjuskattur er eitt. Auðlegðarskattur er nýjasta uppfindingin. Nú hefur hugmynd þess efnis verið viðruð að ríkið geri þessa aura upptæka að mestu leyti sem foreldrar mínir og annað aldrað fólk í álíka stöðu hafa sparað saman gegnum áratugina. Það eru þakkirnar fyrir að hafa lagt sitt af mörkum til uppbyggingu samfélagsins alla starfsæfina. Ég held að það myndi heyrast væl frá einhverjum ef þeir þyrftu að vinna og búa við álíka aðstæður og þótti sjálfsagt á síðustu öld, bæði til sjávar og sveita. Á sama tíma eru til nógir peningar til að byggja monthús niður við höfn sem er gersamlega órekstrarhæft. Er það furða að manni blöskri.
Hið svokallaða stjórnlagaráð hittist víst í dag til skrafs og ráðagerða. Leitun er að álíka verkefni sem hefur verið klúðrað jafn svakalega eins og hinu svokallaða stjórnlagaþingi. Allur þessi prósess hefst með því að einhverjir fóru að æpa úti á Austurvelli að það þurfi að endurnýja stjórnarskrána eins og hún væri einhver sökudólgur. Framboðsfyrirkomulagið var í tómu rugli. Kynning frambjóðenda mistókst og fór fyrir ofan garð og neðan hjá flestum. Kosningaþáttakan var svo lítil að það er einsdæmi í lýðveldissögunni. Kosningin sjálf og talning atkvæða var þannig framkvæmd að Hæstiréttur dæmdi hana ónothæfa og ómerka. Landskjörstjórn sagði af sér í kjölfar þess. Ríkisstjórnin valdi að virða niðurstöðu Hæstaréttar að vettungi. Lögð var tillaga fyrir Alþingi að skipa þá sem voru efstir í kosningu sem dæmd var ómerk í svokallað stjórnlagaráð. Þeir sem eru efstir í ómarktækri kosningu hafa enga stöðu aðra en allur almúginn. Hlutirnir eru ekki flóknari. Þrátt fyrir að ríkisstjórnin legðist á árarnar þá tókst henni ekki að fá meirihluta þingmanna til að fylkja sér bak við tillöguna. Stjórnlagaráðið hefur því enga stöðu til að búast við að það verði gert eitt eða neitt með það sem kemur frá því. Því má ekki gleyma að það er verið að höndla með sjálfa stjórnarskrána, grundvöll samfélagsins. Af því þessi frasi er svo vinsæll þá væru þeir menn að meiri að mínu mati sem myndu hafna því að taka þátt í þessari vitleysu.
Síðast minntist ég á einkennilegt fréttamat. Um daginn voru nokkrir svokallaðir útrásarvíkingar teknir í yfirheyrslu úti í London. Einn þeirra sendi frá sér yfirlýsingu þar sem hann lýsti vinnubrögðum við yfirheyrsluna. Þetta var fyrsta frétt í öllum fjölmiðlum þann daginn. Það er verið að taka menn í yfirheyrslur dag út og dag inn. Má maður búast við því að allra handa sakborningar fari að senda frá sér yfirlýsingar þar sem þeir gera lítið úr rannsóknaaðilum og ákæruvaldinu og fjölmiðlar éti þetta upp eins ég veit ekki hvað. Af hverju hafa sakborningar á þessum nótum aðra stöðu en aðrir sakborningar? Eru þeir trúverðugari en aðrir. Ég hef ekki séð dæmi þar um.
Ég sé fréttir af að fyrstu þrestir vorsins eru komnir til Hafnar í Hornafirði. Nú veit ég ekki hvort þeir hafi lagt fram sönnunargögn þess efnis að þeir væru nýkomnir yfir hafið en það hafa verið þrestir í garðinum hér í Rauðagerðinu í allan vetur. Ég skil nú ekki alveg svona fréttaflutning.
Það var fínt hlaup í morgun með Jóa, Stebba og Sigurjóni. Hlýtt, léttur úði og stígarnir að mestu auðir. Ég er að skrúfa mig upp hægt og sígandi. Það liggur ekkert á. Þessi vika fer vel yfir 100 km og það er ágætt.
laugardagur, mars 26, 2011
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli