Stundum er fréttamatið hjá íslenskum fjölmiðlum óskiljanlegt. Á dögunum var það fyrsta frétt hvert sem litið var að einhver maður á Suðurnesjum vildi að Atli Gíslason segði af sér þingmennsku eftir að hann sagði sig úr þingflokki VG. Umræðan um að þingmaður eigi að segja af sér þingmennsku hefur komið upp allar götur frá því að þingmaður sagði sig fyrst úr þingflokki fyrir um 90 árum. Niðurstaðan hefur alltaf orðið sú sama að kjörnum þingmanni er þetta heimilt og það hefur aldrei komið til þess að þingmaður hafi sagt af sér þingmennsku eftir að hann hafi yfirgefið þann flokk sem hann var kjörinn fyrir á þig. Engu að síður láta fjölmiðlar með það eins og landafundafrétt að einhver formaður kjördæmisráðs sé eitthvað að tuða í þessu sambandi.
Það var fyrsta frétt hjá öllum íþróttafréttamönnum á dögunum að Eiður Smári var ekki valinn í landsliðið í fótbolta. Það hefði náttúrulega verið hrein móðgun við alla þá sem eru að standa sig vel á knattspyrnuvellinum ef maður sem ekki hefur spilað neitt af viti í a.m.k. tvö ár hefði verið valinn í landsliðið. Það hefði hins vegar verið alvörufrétt ef hann hefði verið valinn í liðið.
Mér finnst umræðan um að taka upp nýja krónu vera snargalin að flestu leyti. Í fyrsta lagi hefur það ekkert að segja þótt það verði skipt um kennitölu á krónunni. Það voru tekin af henni tvö núll árið 1980 en ekkert breytt um siði í efnahagsstjórninni. Aðgerðin hafði engin efnahagsleg áhrif nema að krónum í umferð fækkaði hundraðfalt. Það eina sem getur styrkt stöðu krónunnar er öflugari efnahagsstjórn. Síðan er hugmyndafræðin um að hafa skiptigengi mishjafnt á þann veg að maður skilur hvorki upp eða niður. Að fólk sé í fúlustu alvöru að leggja fram tillögur um gríðarlega eignaupptöku hjá því fólki sem á einhvern aur er eitthvað sem maður nær ekki upp í. Eru allir sparifjáreigendur af hinu illa í huga þess sem ber slíkar tillögur fram? Það er verið að tala um mörk í kringum 10 milljónir. Hvað með aldrað fólk sem hefur annað tveggja sparað saman eða á hinn kantinn selt eign og flutt í minna húsnæði? Ég veit það ekki en eðlilegt er að spurt sé. Mér finnst umræða um þessa hlið málsins vera undarlega lítil. Fólk sem vil láta taka sig alvarlega í þjóðfélagsumræðunni á alla vega ekki að flagga svona bölvaðri vitleysu. Stjórnvöld í Norður Kóreu framkvæmdu svona hluti þegar þau vildu tryggja það að það gæti ekkert venjulegt fólk sparað saman einhverja peninga. Svo var herinn settur á íbúana til að bæla niður ólguna sem hlaust af eignaupptökunni. Einu sinni var sagt: "Sovét Ísland, hvenær kemur þú?" Kannski slíkt taut sé farið að heyrast aftur.
Ég er alls ekki viss um að krónan sé sá bölvaldur sem af er látið af ýmsum. Hún er kannski ekki gjaldmiðill til brúks þegar litið er til lengri tíma en hún er ekki alvond. Það er alla vega víst að það munu ekki öll vandamál leysast við að taka upp evru. Portúgal, Írland og Grikkland eru öll með evru. Þar eru efnahagsmálin í steik. Á Spáni er 20% atvinnuleysi. Svíar prísa sig nú sælan við að hafa haldið sinni krónu. Það liggur einfaldlega í augum uppi að það var of stór biti í háls fyrir evruna að taka flest fyrrum austantjaldsríki inn í evrópska myntsvæðið. Þau voru alls ekki tilbúin til þess, hvorki stjórnarfarslega né efnahagslega. Myntin þolir einfaldlega ekki þann þunga sem lagður er á hana. Það er alla vega ljóst að ef við værum með evru þá væri atvinnuleysið mun meira en það er í dag. Það verður ekki bæði sleppt og haldið.
Mér finnst fínt að fólk er farið að tjá sig opinskátt um áhrif skóla án aðgreiningar fyrir þá sem eru minnimáttar. Það er ótækt að láta fámennan hreintrúarhóp ráða ferðina í þessu tilliti eins og verið hefur til þessa. Heilbrigð skynsemi verður stundum að komast að í umræðunni.
föstudagur, mars 25, 2011
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli