Ég kaypti nýlega bókina um Íslensku kommúnistana eftir Hannes Hólmstein Gissurarson. Bókin spannað áttatíu ára tímabil eða frá 1918 til 1998. Árið 1917 höfðu þau tíðindi gerst að lítil glæpaklíka hafði náð völdum í Rússlandi með því að brjótast inn í keisarahöllina bakdyramegin í því upplausnarástandi sem þar ríkti. Hún náði síðan undir sig völdum um gervallt Rússland á næstu fjórum árum. Sá atburður var síðan nefnd rússneska byltingin. Glæpaklíkan hafði á næstu áratugum gríðaleg áhrif um gervallan heim á marga lund. Hún kom fram undir merkjum breyttrar þjóðfélagsskipunar sem myndi bæta hag alþýðu um heim allan. Það má minna finna en grand í mat sínum. Það var því ekki hjá því komist að áhrif hennar bærust til Íslands og hefði þar veruleg áhrif. Um þau fjallar bók Hannesar að miklu leiti.
Það er í sjálfu sér ekki óeðlilegt að alþýðu manna þættu það nokkur tíðindi þegar fréttir bárust af því að búið væri að þróa nýja þjóðfélagsskipan sem myndi auka réttlæti og jöfnuð. Mjög eðlilegt var að margir snerust til fylgis við slíka stefnu þar sem hagur fólks var í það heila tekið ekki beysinn á marga lund. Það átti bæði við íslenskt þjóðfélag svo og mörg önnur. Fljótlega kom í ljós að ekki var allt sem skyldi þar eystra. Samfélaginu var breytt í grundvallaratriðum. Miðstýring varð alger. Séreign var bönnuð. Bændur voru flæmdir milljónum saman af búum sínum þegar samyrkjuvæðingin var keyrð í gegn með fulltingi hersins. Hungursneyð í Úkraníu á árunum í kringum 1930 drap milljónir manna. Milljónir manna voru fluttar í þrælkunarbúðir í austur Sovétríkjunum sem kallað var Gúlag. Hinir svokölluðu óvinir ríkisins voru drepnir miskunnarlaust. Alræðisvald kommúnistaflokksins var algert. Þannig mætti lengi áfram telja. Það var því ekki óeðlilegt að það rynnu tvær grímur á ýmsa um hvort þessi nýja samfélagsskipan væri sú sem koma skyldi. Engu að síður urðu áhrif kommúnismans mikil víða um heim. Eftir seinni heimmstyrjöldina lagði hann undir sig alla Austur Evrópu. Í Kína náði kommúnistaflokkurinn undirtökunum árið 1949 eftir langvinna borgarastyrjöld. Sovétríkin voru áratugum saman annað tveggja heimsveldanna. Milli þeirra ríkti ógnarjafnvægi um áratuga skeið. Síðan gerist sá merkilegi atburður fyrir rúmum tuttugu árum síðan að kommúnisminn í Austur Evrópu hrundi eins og spilaborg. Hver þjóðin á fætur annarri varpaði oki glæpaklíkunnar í Moskvu af sér. Sovéski kommúnistaflokkurinn var bannaður með lögum og Sovétríkin lögð niður fyrir réttum 20 árum síðan eða milli hátíðanna 1991. Þannig lauk þessari voðalegu sögu. Leidd hafa verið rök að því að kommúnisminn hafi kostað um 100 milljónir manna lífið. Það er því að minnssta sem hægt er að gera til að sýna minningu þess fólks þá virðingu sem það á sklið að fjalla um þennan hluta í mannkynssögunni. Þó ekki væri nema til að sýna fram á að til þess eru vítin til að varast þau.
Bók Hannesar fjallar um tengsl íslenskra einstaklinga, félagasamtaka og stjórnmálaflokka við sovéska kommúnistaflokkinn svo og annarra eftir því sem leiðir þeirra hafa legið saman. Þau voru gríðarlega mikil á marga lund. Eftir því sem aðgengi hefur batnað að skjalasöfnum í Moskvu þá hefur verið mögulegt að draga staðreyndir fram á sjónarsviðið. Fram að því gátu viðkomandi einstaklingar haldið hverju sem var fram. Gagnrýnin umfjöllun á margvísleg samskipti við Sovétríkin eða lýsingar á ástandinu í Sovétríkjunum var yfirleitt afgreidd sem Moggalygi. Í bókinni kemur fram að áhrif Sovétmanna hérlendis voru gríðarlega mikil á marga lund. Gríðarlegir fjármunir runnu til Íslands eftir ýmsum krókaleiðum til að styrkja margháttaða starfsemi sem var Sovétmönnum þóknanleg. Það er í sjálfu sér ekkert smámál að erlent stórveldi hafi reynt eftir margháttuðum aðferðum að hafa áhrif á umræðuna, stjórnmálabaráttuna og ýmis önnur atriði. Tilgangur þess er einungis einn, að auka áhrif Sovétríkjanna á Íslandi. Menn gátu deilt um ágæti þess á vissum tímum en ég held að þeir séu ákaflega fáir sem mæli með því í dag að Sovétmenn hefðu náð undirtökum hérlendis. Það þarf ekki að líta lengur en til Eystrasaltsríkjanna til að fá borðleggjandi staðreyndir um hvað hefði beðið íslendinga undir þeim járnhæl. Ísland liggur miklu fjær öðrum norrænum ríkjum en Eystrasaltslöndin svo einhver nálægð við þau hefði ekki skipt neinu máli. Það er hægt að skipta áhangendum Sovétríkjanna á síðustu öld í þrjá flokka í grófum dráttum. Í fyrsta lagi var allur almenningur sem heyrði dýrðarlýsingar á nýrri samfélagsskipan í Sovétríkjunum. Hverju átti fólk að trúa? Það voru margir áhrifamiklir menn sem lofuðu Sovéska skipulagið. Kvæði voru ort, ræður voru haldnar, bækur voru skrifaðar og blöð og tímarit gefin út sem sungu þennan kór. Vitaskul hafði hann áhrif. Í öðru lagi má nefna þá einstaklinga sem fóru til Sovétríkjanna í flokkslega þjálfunarskóla. Það er til svolítið sem heitir heilaþvottur og innræting. Það er ekki óeðlilegt að fleitir þerra sem gengu þann veg hafi tekið trúna. Í þriðja lagi má nefna þá sem voru að flækjast árum og áratugum saman í Sovétríkjunum eins og gráir kettir. Það var ákveðinn hópur íslendinga sem dvaldi langtímum saman í Sovétríkjunum sér til "heilsubótar og hressingar" í boði sovéska kommúnistaflokkins. Það voru sumir jafnari en aðrir á þessum tímum eins og síðar. Hafi þeir ekki verið skyni skroppnir úr hófi fram þá vissu þeir allt allt um ástandið í Sovétríkjunum. Þeir hölluðu réttu máli þegar heim er komið. Þessir einstaklingar eru smæstir. Ég ætla ekki að nafngreina þá sem mér finnst fylla þennan flokk en meðal þeirra eru þeir einstaklingar sem hefur verið hampað hvað hæst. Hægt væri að nota orð sem varla er í munn takandi um ákveðna einstaklinga sem unnu hvað markvissast að þvi að auka ítök Sovétmanna hérlendis.
Fram kemur t.d. í bókinni að nóbelsskáldinu hafi verið heimilað að fylgjast með Búkarín réttarhöldunum þar sem sovétmenn treystu því að skáldið myndi vera til gagns um að halda fram sjónarmiðum Stalíns í þessu máli þegar heim var komið. Sú von brást ekki. Búkarín réttarhöldin eru orðin symbol fyrir misbeitingu yfirvalda á réttarkerfinu til að knésetja aðila sem voru valdinu ekki þóknanlegir.
Bók HHG er gagnlegt innlegg í samfélagsumræðuna hérlendis. Það er vafalaust ekki auðvelt fyrir alla að fara yfir þessa sögu nú á tímum. Þögnin hefði vafalaust verið þægilegust. Opnun sovéskra skjalasafna gerir það að verkum að það er ekki eins auðvelt og áður að afneita staðreyndum. Þó eru vafalaust ekki öll kurl þar komin til grafar. Bókin er afgreidd af mörgum á þann veg að HHG sé svo pólitískur að hann sé ekki trúverðugur sem sögurýnir. Nú veit ég ekkert um þau mál en það liggur ljóst fyrir að það er þá vafalaust nógu margir sem myndu hrekja skrif hans ef hann hefði gefið höggstað á sér með óvönduðum vinnubrögðum. Meðan það er ekki gert þá lítur maður á bókina um Íslenska kommúnista 1918 - 1998 sem trúverðugt og faglegt sagnfræðirit sem sé betur skrifuð en óskrifuð. Að mínu mati er hún mjög gagnlegt innlegg í þjóðfélagsumræðuna. Hún varpar góðu ljósi á svo gríðarlega margt um áratugalöng áhrif sovésku glæpaklíkunnar hérlendis sem manni var áður hulið. Það eitt er af því góða.
sunnudagur, desember 18, 2011
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli