Góðu hlaupaári er að ljúka og mörg góð afrek hafa verið unnin á árinu. Það er erfitt að segja um hvaða afrek ber hæst af því sem maður fylgist helst með hér heima. Hlaupin eru svo ólík að allur samanburður verður erfiður. Það er erfitt að bera saman Laugaveginn og 5 km hlaup. Það er erfitt að bera saman 10 km hlaup sem tekur rúmlega hálfan til einn klukkutíma að ljúka og hlaup sem taka hálfan, einn eða tvo sólarhringa. Það reynir á allt aðra þætti í löngu hlaupunum en þeim styttri að það er eiginlega ekkert annað en nafnið sem sameinar þau.
Hlaup.is hefur nú þriðja árið í röð lagt upp með kosningu á langhlaupara ársins. Það góðra gjalda vert að beina athyglinni sérstaklega að þeim sem hafa náð góðum árangri á árinu. Það er erfitt að skera úr um hver sé bestur hlaupara sem hafa runnið skeið er sem er á skalanum 5 km til 100 km. Það er ekki einfalt. Í mínum huga er hér um sitt hvora íþróttina að ræða þótt hvorutveggja sé kallað hlaup. Hlaup sem rúmast innan ólympísku skilgreiningarinnar eru eitt en ofurhlaup eru annað. Það er vafalaust svo að það séu ekki allri sammála þessari skilgreiningu en það er bara allt annað mál.
Þegar verið er að leggja upp með kosningu eins og gert er á hlaup.is þá finnst mér að það megi taka nokkur atriði til skoðunar. Þó mér komi framkvæmdin ekki við per ce þá getur enginn bannað manni að hafa skoðanir á einu og öðru. Í fyrsta lagi skil ég ekki hvers vegna er byrjað að forvelja fólk og efna til kosningar áður en árið er liðið. Kosningunni lýkur síðan á hádegi á nýársdag!! Hvers á hlaupari að gjalda sem myndi setja landsmet í götuhlaupum í gamlárshlaupi ÍR? Vitaskuld getur það gerst. Það verður að hugsa hlutina út frá slíkum möguleikum. Það er hlaupið út um allan heim í desember ekki síður en aðra mánuði ársins. Því skyldu afrek sem mögulega eru unnin í hlaupum í desember ekki reiknast með í kosningu sem þessa? Reyndar má minna á að sama fyrirkomulag er haft þegar óskað er eftir tilnefningu sérsambandanna til íþróttamanns ársins. Þeirri tilnefningu á að vera lokið um mánaðamótin nóv / des eins og það gerist ekkert íþróttatengt í desembermánuði. Á norska hlaupavefnum www.kondis.no stendur kosning um ofurhlaupara ársins yfir frá því rétt eftir áramót og fram til janúarloka. Þá er tekið tillit til afreka sem unnin eru í öllum mánuðum áersins en ekki bara í ellefu þeim fyrstu. Í kosningunni oa kondis.no eru þeir einir eru gjaldgengir til að greiða atkvæði sem hafa hlaupið ofurhlaup á árinu. Þá er loku skotið fyrir vina- vinnustaða- eða fjölskylduatkvæðasafnanir.
Mikilvægt er við kosningu eins og þessa að þess sé gætt að jafnræði sé í upplýsingagjöf um einstaka hlaupara. Mér sýnist nokkuð vanta upp á það í þeim upplýsingum sem fyrir liggja um það ágæta fólk sem tilnefnt hefur verið sem hlaupari ársins á hlaup.is. Það segir mér afskaplega lítið um ágæti afreks ef enginn samanburður er gefinn. Samanburður hér innanlands er ágætur svo langt sem hann nær, norrrænn samanburður er stórum skárri en staða á heimslista er það sem mestu máli skiptir þar sem það er hægt. Við eigum að bera árangur íslendinga saman við heimsafrekaskrá þar sem þess er nokkur kostur. Það er m.a. hægt hjá Kára Steini, Sigurjóni og Sæbjörgu á þessum lista. Vitaskuld skiptir nokkru máli hve margir taka þátt í hlaupum af hverri tegund en heimslisti er alltaf heimslisti. Ef fáir taka þátt í hlaupi af einhverri tegund þá er það líklega vegna þess að hlaupin eru erfiðari en önnur. Um utanvegahlaup eru ekki neinar heimsskrár því þau eru ósambærileg. Hjá sumum er tiltekið hvað viðkomandi hefur bætt sig á árinu en það er ekki gert ekki hjá öllum sem þó hafa bætt sig verulega eða bætt fyrri met verulega. Mér finnst það hefði verið til mikilla bóta ef eitt hefði yfir alla gengið í þessu efni. Mér finnst grundvallaratriði þegar lagt er upp með opna kosningu af þessu tagi að jafnræðis sé gætt í upplýsingagjöf. Ef hægt er að segja meir um einn en annan hvað varðar afrek á árinu þá er það bara þannig. Hjá sumum er getið um aldursflokkatengda stöðu en ekki öllum. Af hverju skyldi það ekki vera gert? Þessar upplýsingar liggja allar fyrir.
Það var fínt viðtal við Kára Stein í Fréttablaðinu í morgun. Ég held að það sé alveg rétt mat hjá honum að hann á mun meiri tækifæri til að komast langt í maraþonhlaupi heldur en 10 km hlaupi. Ég tala nú ekki um ef hann færi að hlaupa 100 km. Það er við því að búast eftir svona 15 - 20 ár miðað við plönin hjá honum. Vonandi lifir maður þá tíma.
föstudagur, desember 23, 2011
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli