Ég reyni yfirleitt að lesa eftir föngum eins og svo margir. Góðar bækur í bókaskápnum eru nauðsynlegar. Þótt bókasafn borgarinanr sé gott þá er það dálítið annað að eiga bókina alltaf tiltæka. Ég er hins vegar orðinn vandfýsnari á bækur en áður. Ég var alæta á bækur þegar ég var yngri og var þá oft með margar undir í einu. Nú er tíminn orðinn dýrmætari. Ein af þeim bókum sem ég keypti mér strax og hún kom út fyrr í haust er bókin: Icesave samningarnir - afleikur aldarinnar? Mér finnst að svona bækur þurfi maður að eiga. Þær eru svo samþjappaðar af fróðleik að það er aldrei hægt að innbyrða allt við einn hraðan lestur. Ég verð að segja að bókin olli mér ekki vonbrigðum. Fá mál hafa verið meir í umræðunni á árunum eftir hrun en Icesave málið. Það má segja að það hafi tröllriðið umræðunni frá miðju árið 2009 fram á árið 2011 eða í nær tvö ár. Sigurður Már Jónsson blaðamaður hefur unnið mikið starf við að fara yfir tiltækar heimildir, bæði opinberar og óopinberar, og draga saman atburðarásina og efnisinnihald umræðunnar um málið. Það er nú svo að það skefur fljótt í sporin. Enda þótt heimildir séu tiltækar hér og þar út um allt þá er það ekki vinnandi vegur fyrir venjulegt fólk að draga þær saman ef menn vilja kynna sér málið. Það verður einnig erfiðara eftir því sem árin líða. Því er mikils um vert að hafa tiltæka heildaryfirsýn yfir umræðuna og átburðarásina um svo afdrifaríkt mál sem Icesave málið var. Uppruni Icesave málsins er eitt, úrvinnsla þess er annað. Sigurður Már leggur í bók sinni megináherslu á úrvinnsluna. Icesave málið var staða sem stjórnvöld stóðu frammi fyrir. Ég þekki Sigurð ekkert og veit ekkert um hann annað en að hann hafi unnið sem blaðamaður við viðskiptafréttir. Ég hef hvergi séð að meðferð hans á málinu hafi verið hrakin eða hann gerður uppvís að óvandaðri með ferð heimilda eða vilhallri túlkun þeirra.
Ég sagði eftir að ég lauk við bókina að ég hafi verið skelfingu lostinn að lestrinum afloknum. Icesave samningur nr 1 var lagður fyrir Alþingi á þeim nótum að það lá við að það ætti að samþykkja hann óséðan. Þingmenn höfðu einunigs möguleika á að lesa hann í sérstöku herbergi en fengu ekki eintak afhent. Málfar samningsins var slík samansúrruð samningaenska að einstaklingar sem voru uppaldir á enska tungu og höfðu starfað um árabil í enskumælandi landi áttu í erfiðleikum með að skilja textann. Samningnum var síðan dreift nafnlaust á fjölmiðla og til ákveðins hóps manna þann 17. júní árið 2009 til að brjóta þessa stöðu upp. Það hefur aldrei fengist uppgefið hver stóð að því. Eftir það fór boltinn að rúlla. Alþingi og aðrir aðilar fóru að kynna sér efni samningsins og við hann voru gerðir fjölmargir fyrirvarar. Þegar forsetinn ákvað að vísa Icesave 1 til þjóðaratkvæðagreiðslu átti allt að fara til andskotans ef hann yrði ekki samþykktur hraðar en hratt. Hann var sem betur fer felldur með um 95% atkvæða. Þá var annar og betri samningur gerður. Hann var enn felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu en með miklu minni mun. Í bókinni kemur fram að íslenska ríkið væri nú búið að greiða út 110 milljarða króna ef Icesave 1 hefði verið samþykktur eins og hann var lagður fyrir. Fjárlögin eru samtals upp á tæpa 500 ma. króna. Ég ætla ekki að fjölyrða um einstök málsatvik í þessu máli en það er afar fróðlegt að hafa svo greinargott yfirlit um það í þessari bók. Það má þó fullyrða að tíminn hefur heldur betur unnið með Íslendingum í þessu máli. Bæði hefur það komið í ljós í fjölmörgum löndum að innistæðutryggingasjóðir landanna geta hvergi staðið undir hlutverki sínu ef bankakerfið riðar til falls. Því var sú staða alls ekki einstæð fyrir Ísland og í raun fáheyrður ruddaháttur að ætlast til þess íslenska þjóðin stæði skil á skuldum óreiðumanna. Það er afar fróðlegt í þessu sambandi að rifja upp rök þeirra sem mæltu hvað ákafast með samþykkt samningsins. Það er eins og menn hafi ekki haft neina tilfinningu fyrir þeim fjárhæðum sem voru í spilinu né hvaða áhrif það hefði ef þær væru teknar út úr hagkerfinu. Meir að segja átti gengi krónunnar að styrkjast ef gríðarlegar skuldbindingar til viðbótar yrðu lagðar á herðar ríkisins.
Ég las einnig aðra bók um helgina og um ánægjulegra efni. Það er bókin "Sú kemur tíð.." sem er æfiminningar Kristjáns Þórðarsonar á Breiðalæk á Barðaströnd. Ég hafði lesið hana áður en fannst tilvalið að renna yfir hana aftur. Ég þekkti Kristján ágætlega og margt hans fólk þegar ég bjó heima fyrir vestan. Breiðilækur er í næsta hreppi fyrir innan Rauðasand eða inni á Barðaströnd. Saga Kristjáns er gott dæmi um lífsbaráttu þess fólks sem valdi ekki auðveldu leiðina heldur lagði allt undir til að efla sveitina sína og láta gott af sér leiða. Kristján og Valgerður kona hans voru á þrítugsaldri þegar þau fengu úthlutað landi til að byggja nýbýli á upp úr 1950. Í sjálfu sér hefði það verið miklu auðveldara að flytja í þéttbýlið, kaupa sér hús og fá sér fasta atvinnu sem var allstaðar þá að finna fyrir duglegt fólk. Þess í stað hófust þau handa við að rækta og byggja jörðina upp frá grunni, því það voru engin mannvirki til staðar á landinu sem nýbýlið skyldi reist á. Það er ekki átakalaust að rækta tún, koma upp bústofni, byggja hús og kaupa vélar. Þetta var ekki allt tekið út með sældinni því ýmis áföll urðu á þessari vegferð s.s. hús- og heybruni, kalár og riðuveiki. Að byggja upp jörðina hefði nú einhverjum þótt vera ágætt dagsverk en það var öðru nær. Kristján var gríðarlega öflugur félagsmálamaður og bókin fjallar um tvennt annað til viðbótar við búskaparsöguna. Það er baráttan fyrir framfaramálun innan hreppsins svo og félagsmálastörf á héraðsvísu. Í hreppnum var það uppbygging skólastarfs í sveitinni, bygging grunnskólans, félagsheimilisins, sundlaugarinnar, iðnaðarhúsnæðis, íbúða, barátta fyrir möguleikum á mjólkursölu, oddvitastarf, ungmennafélagið og ég veit ekki hvað það var sem lenti ekki á herðum Kristjáns. Á héraðsvísu var það mjólkursamlagið, sláturhúsið, ræktunarsambandið, sparisjóðsmál, kaupfélagið, og fleiri og fleiri mál þar sem hann var virkur þátttakandi. Yfirleitt lentu stjórnarstörf á hans herðum og oftar en ekki formennskan. Alltaf var drifkrafturinn sá sami, að vinna sveitinni sinni og héraðinu gagn. Þessi bók lýsir einnig ágætlega þeirri gríðarlegu byltingu sem varð víða í sveitum landsins á þessum árum. Fólk braust úr næstum því allsleysi og erfiði yfir í að geta séð fyrir sér og sínum við góðar aðstæður og veitt sér margt það sem óhugsandi hafði verið talið þar áður. Þegar menn keyra nú vestur Barðaströnd eftir fínum vegi þá gefur að líta húsin á Breiðalæk fyrir ofan veg um miðja Ströndina. Vel setin, vel hýst og snyrtileg jörð. Ég veit að það gustar oft um þá sem taka að sér forystu í ýmsum málum. Sú ganga er ekki alltaf auðveld. Því finnst mér það vera einn höfuðkostur bókarinnar og frásagnarinnar hvað Kristján er umtalsgóður um allt og alla. Hann lítur sáttur um öxl og sér að það hefur margt ánægjulegt áunnist á langri ævi.
mánudagur, desember 05, 2011
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli