fimmtudagur, febrúar 02, 2012

Ríkissjónvarpið (ég er hættur að skrifa RÚV því þetta er sjónvarp sem ríkið rekur og maður er þvingaður til að borga það sem kostar að reka það) sýndi mynd í gærkvöldi sem fjallaði um hinn magnaða gítarleikara Jimmy Hendrix. Það eru að verða 42 ár síðan hann dó úr afleiðingunum af ruglinu en sama er, hann er enn jafn ljóslifandi og hann var á sjöunda áratugnum í augum rokkunnenda þess tíma.
Myndin var mjög fín að þvi leyti að hún sýndi vel hvernig hann þróaðist sem hljóðfæraleikari þar til Teh Great Leap Forward átti sér stað. Það er náttúrulega magnað að á aðeins nokkrum mánuðum breyttist tilvera hans úr því að vera sléttgreiddur jakkafataklæddur baksveitarspilari hjá einhverjum löngu gleymdum soul söngvurum yfir í að vera síðhærð, skrautklædd heimsstjarna. Það þarf sterk bein til að þola slíka stökkbreytingu. Tilviljanir eru magnaðar. Jim hitti Chas Chandler fyrir tilviljun. Chas segir honum að drífa sig yfir til Bretlands, þar séu hlutirnir að gerast. Því ekkiað slá til. Eftir aðeins fjóra daga í Bretlandi er kallinn komnn upp á svið með tvo stráka með sér og dæmið fer að rúlla. Síðan lá leiðin bara upp á við þar til hann hrapaði fram af brúninni. Það var áhugavert þegar það var rifjað upp að í Atlanta, hálffasískri suðurríkjaborg, þurftu gítarleikarar að geta spilað með tönnunum í þá tíð, ella væru þeir skotnir!! Það kom sér vel síðar að kunna þá list. Það kom vel í ljós í myndinni að það var sama hvort Jimmy spilaði eigin lög eða lög annarra, hann átti þau skuldlaust. Stíll hans var svo einstakur. Það á við um Jim Hendrix og svo marga aðra tónlistarmenn frá þessum árum að þeir eru orðnir eilífir. Krakkar nútímans þekkja þessa tónlist, virða hana og dá. Hún er ekki í síðra uppáhaldi heldur en það nýjasta sem gert er í dag. Mér er sem ég sæi okkur hafa hlustað á tónlist frá þriðja áratugnum þegar við vorum um tvítugt.
Margir þeirra öflugu tónlistarmanna sem komu fram í sviðsljósið á sjöunda áratugnum dóu ungir. Á þessum tíma var mikið að gerast og keyrslan mikil. Allt var prófað og allt var mögulegt. Sumir gáðu ekki að því að fara út úr lestinni ekki síðar en á næst síðustu stoppistöð, eins og Megas orðaði það svo vel hér um árið. Jimmy var einn þeirra sem hoppaði ekki af lestinni í tíma. Það er spurning sem aldrei verður svarað hvernig hann hefði þróast sem tónlistarmaður ef hann hefði lifað. Sumir brunnu út, aðrir þróuðust áfram og efldust með reynslunni.
Ég horfði um daginn á myndina Bird. Hún fjallar um Charly Parker, hinn magnaða djassleikara sem var uppi á fimmta áratugnum það ég best veit. Myndin er ein af 35 í Clint Eastwood kassanum sem ég keypti í haust. Charly Parker var og er einn af meisturum djassins ásamt Miles Daves og Dissy Gillespie svo einhevrjir séu nefndir. Myndin endar á dauða Charlies. Líkflutningamaðurinn er að ganga frá skýrslu og lýsir líkinu. "Blökkumaður, feitlaginn og á sjötugsaldri" segir hann. Þá heyrist kvenrödd: "Hann var aðeins 34 ára". The End. Það var kannski eins gott að meistarinn Jimmy Hendrix endaði ekki á þennan hátt.

Engin ummæli: