fimmtudagur, febrúar 23, 2012

Umræðan í fjölmiðlum er oft ekki sérstaklega beysin. Það er eins og gengur að fjölmiðlar eru vafalaust reknir af vanefnum núorðið og því hefur fólk ekki þann tíma og möguleika sem til þarf við að stunda vandaða blaðamennsku. Manni virðist því að það sé oft leitað auðveldu leiðanna til að fylla tímann, umræðan verður þannig oft yfirborðskennd og einkennist af upphlaupum. Það eykur hættu á að þróun mála taki mið af öðrum faktorum en þeim sem mestu máli skipta og grundvallast af fagmennsku. Auðvitað er þetta ekki algilt en svona er þetta að mínu mati of oft. Þrjú mál koma sérstaklega upp í hugann þegar huganum er rennt yfir sviðið og er þó af nógu að taka. Svo einkennilegt sem það er þá tengjast þau öll umhverfismálum. Íslendingar eru befnilega margir hverjir orðnir ofboðslega meðvitaðir í umhverfismálum. Hverju sem það er að þakka skal ekki sagt um. Vitaskuld er það gott að bera hag umhverfisins fyrir brjósti og hugsa til lengri tíma í þeim efnum. Það er gott og blessað. Þegar umræðan einkennist hins vegar af upphlaupum og hlandfroðuumræðu þá er annað uppi á teningnum.
Þessi þrjú mál er stóra díoxín málið, stóra cadmíum málið og stóra iðnaðarsaltmálið. Hva skyldi bera næst á land í þessum efnum.
Stóra díoxín málið í kringum sorpbrennslustöðina á Ísafirði vakti upp mikla og harða umræðu. Ásakanir gengu á hendur bæjarstjórninni um að hún hefði beint eða óbeint með aðgerðum og eða aðgerðaleysi verið allt að því að eitra fyrir bæjarbúa. Bóndinn sem bjó þarna í nágrenninu varð settur í brennidepil. Sú stemming fór á flug að framleiðan frá búinu væri baneitruð. Svo fór að skepnunum var öllum lógað undir vorið eins og það er nú skemmtilegt að lóga ám komnum að burði. Það gerir enginn maður ótilneyddur. Svona í framhjá hlaupi þá liggur það fyrir hvað sem öllum mengunarmælingum leið að það var gjörsamlega útilokað að kjötið af lömbunum af bænum gæti verið varasamt því lömb ganga uppi á fjöllum þegar þau eru að taka út vöxtinn og þar er engin díoxín mengun. Fólk sem bjó í Vík í Mýrdal var svo skelkað vegna umfjöllunar fjölmiðla að einhverjir íbúar bæjarins þorðu ekki að senda börnin í skólann þar sem hann stóð við hliðina á sorpbrennslustöðinni.
Svo farið sé hratt yfir þá er rétt að skoða niðurstöðuna. Hún er sú að það var engin díoxín mengun á Ísafirði frá sorpbrennslunni. Þetta var allt innihaldslaust upphlaup sem blásið var upp af upphlaupsliði. Skepnurnar voru drepnar að óþörfu þótt það þyki kannski ekki mikið máli í huga þeirra sem standa framar öðrum í umhyggju fyrir umhverfinu. Díoxínmengunin frá sorpbrennslunni mældist svo lítil að sérfræðingur minn í umhverfismálum segir að það sé meiri díoxínmengun frá arinstæði þar sem brennt er timburkubbum. Sem sagt Zero. Hitt er svo annað mál að reykurinn frá brennslunni er leiðinlegur og sjónmengun að honum. Það væri verðugt umfjöllunarefni fyrir fjölmiðla að fara yfir þessa umræðu og reyna að læra af henni til að lenda ekki í sama drullupyttinum aftur.
Cadmíummálið mikla spratt upp af því að í ljós kom að um 800 tonn (1% af ársnotkun landsmanna) hefði innihaldið cadmíum sem var yfir þeim mörkum sem sett hafa verið í innlendum stöðlum. Þessi ábyrður fór bæði á öræfin og eins á tún. Umræðan var næstum því eins og túnin og öræfin væru orðin geislavirk. Í ljós kom að víða í Evrópu er ekkert lágmark hvað varðar cadmíuminnihald í áburði og annarsstaðar er það mun hærra en hérlendis. Ég heyrði aldrei neinn fjölmiðil spyrja af hverju eru mörkin cadmíuminnihaldi í áburði séu lægri hérlendis en gengur og gerist í okkar nágrannalöndum. Hvaða ástæður eru fyrir því? Af hverju eru kröfurnar meiri? Er í gangi einhver öfga- eða hreintrúarstefna í þessum málum? Viljum við bara vera meiri en aðrir? Er íslensk gróðurmold viðkvæmari eða hvað? Nei, þess í stað var hnoðast áfram á einum umhverfisskandalinum til viðbótar. Sannkallaðir hátíðisdagar um stund.
Svo kom stóra iðnaðarsaltsmálið. Í ljós kom að um 13 ára skeið hefði verið notað svokallað iðnaðarsalt í matvælaiðnaði hérlendis. Þá hljóp aldeilis á snærið. Umræðan var álíka og það hefði verið notað salt í matvælaframleiðslu úr opnum haugum sem hefðu legið óvarðir fyrir allskonar skít og óhreinindum. Stofnanir voru skammaðar blóðugum skömmum fyrir að hafa ekki staðið vaktina um heilsu landsmanna. Sérfræðingur minn í saltmálum segir að munurinn á iðnaðarsalti og matarsalti sé sá helstur að það sé búið að bæta joði og einhverjum öðrum snefilefnum í matarsaltið.

Maður spyr sig bara hvað kemur næst.

Mamma varð 88 ára í gær. Gömul er varla orðið sem er rétt að nota því hún er afskaplega ern og ber aldurinn vel. Auðvitað er aldur afstæður. Aldur er ekki bara mælanlegur í þeim dagafjölda sem liðnir eru frá fæðingu heldur er aldur einnig mælanlegur í líkamlegu og andlegu ástandi. Mamma hélt upp á daginn með afmæliskaffi eins og hún hefur gert svo lengi sem ég man.

Engin ummæli: