Sú var tíðin að ég var mjög sjaldan Sighvati Björgvinssyni. Það hefur breyst. Nú skal ég ekki segja um hverju það er að þakka eða kenna. Líklega er Sighvatur eins og hann var en ég hef breyst. Mér líkaði t.d. mjög vel hvernig hann tók á umræðunni um Sogn hér fyrr í vetur. Ef það er eitthvað sem er ekki hægt að segja um Sighvat þá er það að hann sé deigur.
Nýlega skrifaði hann grein í Fréttablaðið þar sem hann lýsir yfir áhyggjum sínum yfir því hve stór hluti stráka koma ólæsir út úr grunnskóanum. Ætli það séu ekki nálægt 25% stráka eftir því sem tölfræðin segir sem eru það sem kallað er ólæsir þegar þeir yfirgefa grunnskólann eftir 10 ára setu. Þetta er náttúrulega svakalegt. Síðan er allaf verið að hamra á því að leikskólinn sé líka skóli og þar bætast þá alla vega fjórir vetur við. Fjórtán ára skólanám og fjórðungur stráka ólæs. Það er nátturulega enn svakalegra. Þetta veldur vitaskuld mörgum áhyggjum en ég hef ekki séð ,ikla umræðu fara í loftið út af þessu. Alla vega ekki eins og þegar meint díoxín mengun á Ísafirði átti allt að drepa þar í firðinum en svo kom í ljós að sú umræða var öll hin mesta klámhögg.
Sighvatur Björgvinsson skrifaði nefnilega grein í Fréttablaðið nýlega þar sem hann lýsti áhyggjum sínum yfir þessu eins og hann hefur fullt leyfi til að gera. Hann vitnaði þar meðal annars í áhyggjur föður síns, Björgvins Sighvatssonar, sem var skólastjóri lengi, yfir því að ákveðnar breytingar í skólakerfinu myndu hafa óheillavænleg áhrif. Sighvatur vitnar til þess að lestur hafi hér áður verið talinn svo nauðsynlegur að unglingar voru ekki fermdir ef þeir kunnu ekki að lesa. Einstaka hafi þó verið fermdur upp á faðirvorið.
Það er síðan ekkert annað en að doktorsnemi í menntunarfræðum (hvorki meir eða minna) hellir sér yfir Sighvat í Fréttablaðinu í dag. Doktorsnemanum finnst t.d. það vera dæmi um þær villigötur sem umræðan um menntamál barna og unglinga er í hérlendis að veðurfræðingar og gamlir stjórnmálamenn skuli vera að tjá sig um þær á opinberum vettvangi. Þeim er líklega nær að hugsa um eitthvað annað. Það eigi ekki að taka mið af gömlum kerlingabókum í þessari umræðu heldur taka mið af sýn Háskóla Íslands og fræðsluyfirvalda í þessum efnum. Grunnskólarnir og sú menntun sem þeir veita séu aftur á móti afrakstur af aldagamalli stofnanavæðingu sem meðal annars eigi ákveðinn þátt í efnahagshruninu vegna þess hve vel þeir hafi innrætt þöggun og meðvirkni meðal þjóðarinnar o.s.frv. o.s.frv. Doktorsneminn vepur síðan persónulega í Sighvat í greininni. Sem betur fer sér maður slíkt frekar sjaldan nú orðið í fjölmiðlum.
Nú veit ég vafalaust ekkert um þessi mál og ætla mér því ekki þá dul að fara að kenna öðrum hvað er rétt og hvað er rangt í þessum efnum. Á hinn bóginn veit ég að lestrarkunnátta er undirstaða að flestu því sem maður lærir á einn eða annan hátt. Það er ekki sjálfgefið að það kunni allir að lesa eða að það sé talið sjálfsagt í nútíma samfélögum. T.d. má nefna að í Nýfundnalandi, sem er samfélag sem er hvorki ólíkt okkar samfélagi né langt í burtu, er ólæsi um 50%. Um helmingur þjóðarinnar getur einungis lesið einfaldan texta og fyrirsagnir í blöðum. Staða samfélagsins er í samræmi við þessa staðreynd. Það var ákveðin undirstaða það þeim framförum sem áttu sér stað hér á síðustu öld að það kunnu því sem næst allir að lesa þegar möguleikarnir fóru að skapast. Það gátu allir verið með, gripið tækifærin eða skapað sér þau sjálfir.
Það ætti náttúrulega allt að vera á öðrum endanum hérlendis út af þessari stöðu meðal yfirvalda fræðslumála og annarra sem málið varðar, m.a. doktorsnema í menntunarfræðum. Ég hef ekki séð né heyrt að svo sé.
Nú berast síðan fréttir af því að brottfall úr skólum sé mjög mikið hérlendis í alþjóðlegum samanburði. Um 30% íslenskra nemenda hefur hætt í skóla áður en þeir luku stúdentsprófi. Þar er Ísland í hópi þeirra þjóða sem við viljum ekki bera okkur saman við. Aðeins er meira brottfall úr skólum í fjórum löndum innan OECD heldur en hér. Ekki bætir þetta úr skák.
Það hlýtur eitthað mikið að vera að. Þeir sem áhuga hafa á þessum málum ættu frekar að einbeita sér að greiningu á þessum vanda og leita leiða til lausna heldur en að ráðast á þá sendiboða sem benda á vandann. Keisarinn er ekki kappklæddur. Í hér áður kenndu ömmur krökkunum að lesa með bandprjón sem hjálpartæki. Það þykir vafalaust mjög gamaldags en það dugði. Nú er hins vegar beitt nýmóðins aðferðum með þekktum árangri.
Það á að vera hægt að ræða stöðu þessara mála án gífuryrða eða persónulegra árása. Ef menn geta það ekki þá er annað hvort verið að verja vondan málstað eða hroki og rembingur hefur náð yfirhöndinni.
fimmtudagur, febrúar 09, 2012
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli