sunnudagur, ágúst 28, 2005

Fór í ágæta ferð til Austurlands með stjórn sambandsins og nokkrum starfsfélögum á föstudag og laugardag. Það var gaman að fá leiðsögn heimamanna yfir þær miklu framkvæmdir sem standa yfir á miðju Austurlandi. Eftir stjórnarfund á hótelinu héldum við niður í Fjarðabyggð og hittum bæjarstjórann við túnfótinn á Sléttu í Reyðarfirði. Rennt var í gegnum þorpið og hvarvetna voru gríðarlegar framkvæmdir í gangi, bæði hjá bæjarfélaginu og hjá einkaaðilum. Blokk upp á sex til sjö hæðir hafði verið reist fyrir skömmu. Bölsýnismönnunum, sem finnast allsstaðar, hafði ekki þótt sérstaklega gáfulegt að reisa blokk á Reyðarfirði. Hver vill búa í blokk? Blokkir eiga ekki heima á Íslandi sagði fólk og þar fram eftir götunum. Nú eru allar íbúðir í blokkinni seldar og hún er full. Það sem menn sáu ekki fyrir var meðal annars það að eldra fólkið sem bjó í alltof stórum húsum var guðs lifandi fegið að geta minnkað við sig, komist í húsnæði sem passaði því og jafnvel sloppið við að eyða stórum hluta sumarsins við að hirða garðinn!!.
Við komum svo til Bectel fyrir utan Reyðarfjörð og fengum leiðsögn og frásögn um framkvæmdir þar. Umfangið og stærðin er svo gríðarlegt að mann sundlaði næstum. Bectel hefur mjög ákveðna stefnu í öryggismálum, jafnvel svo að mönnum þótti nóg um. Það leiðir hins vegar til þess að slys eru í algeru lágmarki hjá fyrirtækinu. Þeir segja að hægt sé að koma í veg fyrir öll slys. Þetta er ekkert venjulegt fyrirtæki og hefur það komið að mörgum gríðarlegum framkvæmdum víðsvegar um heiminn. Að aflokinni heimsókn á vinnusvæði Bectels var keyrt í gegnum Eskifjörð og Neskaupstað og hvarvetna voru framkvæmdir og uppgangur.

Síðan var siglt yfir til Mjóafjarðar og tekið hús á hjónunum Sigfúsi og Jóhönnu. Afar gaman var að heimsækja þau og var setið góða stund við spjall og kaffidrykkju. Síðan var keyrt upp á Egilsstaði aftur og gist þar. Á laugardaginn var ekið í hina áttina eða upp að Kárahnjúkum. Fyrst var komið við í félagsheimili Fljótsdælinga og upplýsingasetrið skoðað og horft á myndasýningu. Síðan var ekið sem leið lá upp áð Kárahnjúkum og ekið þar um svæðið undir leiðsögn Landsvirkjunarmanna. Ég hef ekki komið þarna í tvö ár og umskiptin eru gríðarleg. Stíflan er ca hálfbyggð en þann 1. sept. á næsta ári á að ýta á hnappinn og vatnssöfnunin hefst. Magntölurnar eru svo óskaplegar að það er varla að maður átti sig á þeim. Þarna vinna um 1400 manns. Landsvirkjunarmenn sögðu að miklu hefði skipt að fá Kínverjana þarna til vinnu í stað suðurEvrópubúa. Þeir hefðu einfaldlega ekki verið í stakk búnir til að takast á við veðurfarið þarna uppi. Mest eru það karlar sem vinna þarna en þó er nokkuð um kínverskar konur sem stjórna vinnuvélum. Um 80 km jarðganga eru boraðar, bæði rennslisgöng og yfirfallsgöng. Risaborarnir þrír hafa verið á fullu en nú er verið að snúa einum við og tekur það um tvo mánuði. Heimamenn sögðu samskiptin við Impreglio mega að sumu leyti vera betri og er það önnur saga en samskiptin við Alcoa bera með sér. Kannski helgast það af því að Impreglio fer að framkvæmdum loknum en Alcoa er komið til að vera.
Að síðustu var ekið niður að Valþjófsstaðafjalli og þar inn um gat á fjallinu. Þar tók við sýn sem var allt að því óraunveruleg. Þarna iðaði allt af vinnandi fólki hvar sem litið var. Göngin eru vel á annan kílómeter inn í fjallið og hvelfingarnar gríðarlegar. Verið er að byrja á að koma fyrir vélum og tæknibúnaði svo og er að hefjast fóðrun fallganganna. Þau eru um 450 metra há og verða fóðruð með stálrörum sem eru um 3 metrar í þvermál. Þeim verður raðað hverju upp á annað og soðin þannig saman. Allar suður eru gegnumlýstar og röntenmyndaðar. Hvelfingin fyrir stöðvarhúsið er um 40 metra há og 100 metra löng.

Það var gaman að kynnast þessu gríðarlegu framkvæmdum með góðri leiðsögn. Maður fær innsýn í hvílíkt gríðarlegt tæknilegt stórvirki svona verkefni er, bæði framkvæmdin sem slík og einnig starfsemin þegar hún fer að rúlla. Maður getur ekki annað en hrifist af þeirri verkþekkingu og skipulagningu sem þarna þarf að vera til staðar til að allt gangi upp.

Hvað afstöðu til framkvæmdarinnar sem slíkrar hafa ýmsir (ekki margir) menn barið sér á brjóst, sagst vera betri en aðrir og eru á móti því að fórna einhverju af landi vegna slíkra framkvæmda. Slíkt fólk verður alltaf til sem eðlilegt er. Á hinn bóginn er grundvallaratriði að virða lögformlega ákvarðanatöku og við skæruaðgerðum örlítilla öfgahópa verður að bregðast af fullri alvöru. Ég þarf að komast inn á Kringilsárranasvæðið næsta sumar. Nú er sem betur fer búið að setja kláf yfir ána þannig að það er miklu auðveldara að komast þarna inneftir. Aðgengi almennings að þessu svæði hefur batnað gríðarlega og malbikaðir vegir komir um helstu leiðir. Heimamenn segj að það hafi m.a. gert það að verkum að utanvegaakstur hreindýraveiðimanna hefur minnkað gríðarlega. Hvað kláfinn varðar hefur enginn rövlað yfir honum það ég hef heyrt en ég man eftir því að þegar ég kom eitt sinn í Stefánshelli í Hallmundarhrauni að þá var búið að setja snyrtilegan stiga niður efstu klettana til að draga úr slysahættu og bæta aðgengið. Einhverjir urðu æfir yfir þessu og vildu halda því fram að það væri verið að grípa inn í sköpunarverk náttúrunnar. Því skyldi stiginn burt. Svona eru vitleysingarnir til bak við annan hvern hól.

Samfélögin fyrir austan hafa breyst gríðarlega vegna þessara framkvæmda og verða ekki söm eftir. Breytingin er til mikilla bóta. Þar sem áður ríkti deyfð og svartsýni er nú til staðar kraftur og bjartsýni. Heimamenn segja að breyting hugarfarsins sé kannski stærsta breytingin sem þessar framkvæmdir skilja eftir sig. Nú sjá menn hvarvetna tækifæri og möguleika og eru óragir í stað grámóskunnar.

Ég las í Sunnudagsblaði Moggans viðtal við fjóra samkynhneigða menn. Þar á meðal er Hörður Torfason. Ég kynntist Herði dálítið þegar ég bjó í Kaupmannahöfn á sínum tíma og er svona paa talefood við hann síðan. Þó eru allmörg ár síðan ég hitti hann síðast. Hörður var fyrsti pólitíski flóttamaður Íslands eftir að hann kom út úr skápnum fyrir um 30 árum en hann flæmdist úr landi því ella var lífi hans beinlínis hætta búin. Hörður var afskaplega góður og indæll maður maður í viðkynningu og mikill snillingur á mörgum sviðum. Hann er einn af þeim sem lætur ekki deigan síga en heldur ótrauður sínu striki. Sem betur fer hefur öldurnar lægt á seinni tímum þannig að hann gat snúið til baka úr útlegðinni. Þáttur hans í útvarpinu "Sáðmenn söngvanna" er ætíð jafngóður. Gott þegar einstaklingurinn stendur eftir sem sigurvegari gegn fordómum, þröngsýni og útnesjamennsku.

Engin ummæli: