miðvikudagur, ágúst 31, 2005

Ég hef ekki skrifað mikið um hlaup að undanförnu. Mér hefur ekki fundist það taka því að tíunda það þegar ég hleyp úti í frekar tíðindalitlum hlaupum svona til að halda mér við. Ég hef tekið það rólega í sumar af ráðnum hug. Mér finnst miklu varða að vera búinn að vinna úr öllu sem kunni að leynast í fótunum og geta þá komið heill og tvíefldur til komandi átaka. Ég fann það t.d. í fyrra að það leyndist einhver bólga í ristinni á öðrum fætinum í á annan mánuð eftir að ég kláraði Borgundarhólm án þess að ég fyndi nokkuð fyrir henni í hlaupinu sjálfu. Það tekur langan tíma að byggja sig upp til að geta klifrað af alvöru upp á ultramaraþonhjallann. Reyndir menn segja að það taki ekki minna en þrjú ár af æfingum og keppnum til að ná þeim hlaupaþroska að geta farið að takast á við ultrahlaup af alvöru. Þá er ég að tala um hlaup sem eru 100 km, 12 tíma eða 24 tíma hlaup og 100 mílna hlaup og þaðan af lengri. Þessi upptalning er ekki sett fram með þeim skilningi að styttri hlaup séu eitthvað ómerkilegri. Langt í frá heldur er þessi skilgreining þannig að áreynslan á líkama og sál er það mikil í svo löngum hlaupum að það sé eiginlega komið í annað "borð" eins og sagt er í tölvuleikjum við slíka áreynslu. Maður sér til dæmis að þegar menn eru orðnir þjálfaðir ultrahlauparar þá geta þeir farið að takast á við mjög löng hlaup með ótrúlega stuttu millibili án þess að líkaminn verði fyrir skaða en ef maður fer í slíkar þrekraunir illa undirbúinn er hætta á að það verði ekki aftur tekið. Ég sé til dæmis að báðir norðmennirnir sem hlupu í WS í júní eru að takast á við mjög löng hlaup nú í haust svo og daninn. Allir eru þeir mjög reyndir ultrahlauparar með miklu meiri og lengri reynslu en ég. Ég fann það hins vegar að það væri hollast að taka það heldur rólega í sumar en leggja svo áfram inn í reynslubankann í haust og vetur.

Talandi um ultrahlaup. Laugavegurinn hefur verið okkar stóra markmið í þeim efnum og eini valkostur. Síðan hafa nokkrir langhundar dundað sér við að taka löng óformleg hlaup eins og Þingvallavatnshringinn (72 km) og Þingstaðahlaupið (um 50 km). Það eru hins vegar ekki formleg keppnishlaup með skráðum tíma. Ég held að það sé kominn tími á að fara að hugsa um að hafa fleiri formleg löng hlaup. Þá má til dæmis nefna 6 og 12 tíma hlaup. Með því að stika út braut sem kallar á lágmarks mannskap væri hægt að halda slíkt hlaup. Nauthólshringurinn það sem Pétursþonið var haldið er kannski tilvalinn í slíka hluti. Lágmarksmannafli og lokaður hringur sem hægt er að hlaupa í næði fyrir bílaumferð. Eini gallinn við hringinn er að það er svolítill halli á honum en það verður bara að hafa það. Ef yrði hlaupið út með flugvellinum og til baka myndi það kosta gæslu á endastöð. Ég sé á norska ultravefnum að fyrir ekki svo löngu síðan var einungis eitt ultrahlaup í Noregi. Nú eru þau nokkuð mörg og þátttakendum fjölgar. Nýtt 6 tíma hlaup var t.d. sett upp við Eidsvall í ágústlok sem ég fékk boð um að taka þátt í. Sigurvegarinn hljóp um 84 kílómetra (vantaði 150 metra upp á að ná tveimur maraþonum) og ég held að það hafi vel yfir 50 manns tekið þátt í hlaupinu. Það verður að fylgja þróuninni og hafa verkefni við hæfi. Það má byrja á að hvetja menn til að taka þátt í Þingstaðahlaupinu í haust. Í fyrra hljóp Svanur einn alla leið.

Tvær fréttir í sjónvarpinu í kvöld vöktu athygli mína. Önnur var um 25 ára afmæli Samstöðu í Póllandi. Þegar lætin voru í Póllandi haustið 1980 var ég nýfluttur til Svíþjóðar, mállaus og vitlaus en var að reyna að fylgjast með fréttum eftir föngum. Lech Valesa var síðan varpað í fangelsi, leystur úr því aftur, varð forseti Póllands og fékk friðarverðlaunin. Það kom mér á óvart þegar ég kom til Póllands í vor var að Pólverjar hafa ekkert álit á honum heldur líta á hann sem kverúlant. Á hinn bóginn er Jarúselsky, hershöfðinginn sem kældi ástandið og forðaði Pólverjum þannig frá innrás Sovétmanna, í miklum metum meðal almennings. Mér hefur hann alltaf hafa verið vanmetinn og hefði miklu frekar átt að fá friðarverðlaunin en Lech.

Í annan kant voru birtar myndir af safnaðarfundi í Garðabæ frá því í gærkvöldi. Mér finnst gott af sjónvarpinu að birta myndir af hegðan fólks á þessum fundi. Viðkomandi hafa gott af því að sjá sjálfan sig í sjónvarpinu. Að heyra fullorðið fólk vera æpandi að öðrum að viðkomandi ljúgi eins og alltaf, sé akandi um bæinn og njósnandi um fólk, af hverju hann hafi bakkað bílnum og þar fram eftir götunum er með ólíkindum. Ég þekki ekkert til þessara mála en sýnist að það segi nokkra sögu að þeir sem kjörnir voru í nýja safnaðarstjórn voru allir af öðrum arminum. Þeir sem æptu um lygar og njósnir fengu hins vegar engan mann kjörinn. Maður veltir fyrir sér flórunni í Garðabæ. Skyldu engin kristileg kærleiksblóm spretta þar um grundir?

Eitt að lokum. Sá á fótbolti.net að Þóra Helgadóttir markvörður íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu hafði verið kosinn besti leikmaður vallarins í jafnteflisleiknum frækna við Svía á dögunum og fékk ryksugu sem viðurkenningu. Kvenréttindakonunum í vinnunni fannst þetta ekki mjög fyndið.

Engin ummæli: