miðvikudagur, ágúst 03, 2005

Hlustaði í kvöld á formann Samfylkingarinnar og Einar Odd Kristjánsson, varaform. fjárlaganefndar ræða launamál með hliðsjón af nýframlagðri skattskrá og útreikningi á launum ýmissa manna í framhaldi af því. Þarna var mikill munur á. Ég er stuðningsmaður hvorugs þeirra en Einar talaði af þekkingu og raunsæi. Hann var greinilega ekki að velta fyrir sér hvað væri vinsælast heldur hvað væri rökréttast og raunsæast. Popúlisminn í málflutningi formanns Samfylkingarinnar var hins vegar án mikilla takmarkana. Það er voðalega auðvelt að fimbulfamba um málin og segja einhver orð sem menn halda að séu vinsæl en annað mál er að standa við þau. Það verður nefnilega að gera meiri kröfur til málflutnings formanna stjórnmálaflokkanna en annarra því það eru þeir sem eru kjörnir til forystu.

Formaður Samfylkingarinnar vildi meðal annars nota skattkerfið til jöfnunar. Það þýðir á íslensku að leggja á stighækkandi hátekjuskatt. Þetta hafa lönd sem stjórnað hefur verið af krötum reynt að gera hér í kringum okkur með þeim árangri að þetta hátekjufólk fólk sem stjórnvöld hafa reynt að ná aurunum af hefur flutt til annarra landa þar sem skattar eru lægri. Mér kemur í þessi sambandi í hug saga frá Svíþjóð. Astrid Lindgren rithöfundur þénaði mikla fjármuni vegna þess að hún skrifaði vinsælar barnabækur sem seldust vel. Stjórnvöld lögðu á hana allskonar skatta í jöfnunarskyni því hún hafði svo háar tekjur. Astrid greiddi viljug skatta til samfélagsins en þegar skattbyrði hennar var orðin hærri en 100% (þ.e. hún greiddi meir í skatta en sem nam heildarbróttótekjum hennar), þá þraut langlundargeð hennar. Hún skrifaði fjármálaráðherranum og krafðist þess að fá að eiga eitthvað eftir. Gunnar Strang sem var fjármálaráðherra í einhverja áratugi svaraði og sagði að Astrid þénaði svo mikið að hún hefði alveg efni á að greiða svona háa skatta (sem voru hærri en heildartekjur hennar). Þá varð Astrid reið fyrir alvöru og skrifaði frægt opið bréf til Gunnars sem hét: "Pomporiopossa í fjármálaráðuneytinu" og fjallaði það um hve skattaruglið væri orðið mikið í Svíþjóð og væri farið að virka í andhverfu sína.

Í íslandi í dag á Stöð 2 sagði annar fréttamaðurinn í aðdraganda samræðana þeirra tveggja hér að framan hvort Ísland væri hætt að verða stéttlaust land. Egill endurtók þetta síðan síðar. Þetta er þvílíkt rugl. Ísland hefur alltaf verið stéttskipt þótt stéttskiptingin hafi ekki verið eins mikil og t.d. í Indlandi. Það er kannski ekki heldur hægt að tala um jafn mörg lög stéttskiptingar eins og í Bretlandi en sama er, stéttskipting hefur ætíð verið til staðar hérlendis. Hér áður fyrr á öldunum var yfcirstéttin mynduð af stórbændum og embættismönnum. Síðar voru það embættismenn, stjórnmálamenn og þeir sem stunduðu verslun og viðskipti af ýmsum toga. Gott var t.d. að hafa sambönd til að fá umboð. Það var tryggur aðgöngumiði að yfirstéttinni. Á tímabili var talað um fjölskyldurnar fjórtán. Nú má segja að yfirstéttin hafi breyst nokkuð og margir nýríkir athafnamenn skipa sér í þennan flokk. Embættismenn eru ekki lengur nein yfirstétt. Ég hef hins vegar þá skoðun að stéttskipting hafi minnkað verulega áliðnum árum. Samfélagið er orðið opnara. Klíkuskapur og pólitísk sambönd ráða ekki eins og fyrr hvort menn komust áfram í samfélaginu eða ekki. Aðgengi að námi er jafnt fyrir alla. Auðvitað er erfiðara að stunda nám ef menn þurfa að flytja búferlum heldur en ef skólinn er við hliðinna á manni en þannig hefur það alltaf verið. Ef gæði íbúðarhúsnæðis, bílaeign, tíðni utanlandsferða, sumarbústaðaeign, vinnutími og annað sem fellur undir almenn lífsgæði hjá almenningi eru skoðuð þá er það mín skoðun að stéttamunur hefur aldrei verið eins lítill hérlendis og hann er í dag. Hagur alls almennings hefur batnað svo gríðarlega á liðnum áratug með auknum kaupmætti og opnara samfélagi.
Eitt að lokum úr launaumræðunni. Nokkuð var talað um að einungis þrjár konur væru í hópi 100 launahæstu mannanna. Mér sýnist að auðvelt sé að bæta úr því á þann hátt að viðkomandi konur sem telji að þær eigi að vera í þessum hópi sæki einfaldlega um launahækkun. Nú hafa þær alla vega góða viðmiðun og engin launaleynd á ferðinni.

Síðustu daga hefur verið gert mikið úr því að Reykvíkingar treysti Gísla Marteini best til að leiða Sjálfstæðisflokkinn í næstu borgarstjórnarkosningum. Þetta er sett fram í hverjum fjölmiðlinum á fætur öðrum athugasemdalaust. Manni blöskrar stundum hve gusað er á grunnu vatni af fjölmiðlamönnum. Þegar könnunin er skoðuð nánar þá eru það einungis rúm 50% aðspurða sem svara. Maður veit sem sagt ekkert um afstöðu tæplega 50% Reykvíkinga. Í öðru lagi er ekki spurt um stjórnmálaafstöðu manna (hvað þeir muni kjósa í næstu borgarstjórnarkosningum) og síðan þeir sem segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn spurðir um foringjaefni. Hvað veit maður nema að þeir sem muni ekki kjósa Sjálfstæðisflokkinn hafi gefið þeim kandidat sitt atkvæði sem þeir telji síður líkur á að vinni borgina. Ef Gallup væri alvöru skoðanakannanafyrirtæki þá hefðu þeir aldrei hleypt þessum niðurstöðum út frá sér. Niðurstöðurnar eru algerlega ómarktækar og segja ekki neitt til um stöðu einstakra forystumanna Sjálfstæðirflokksins í borgarstjórn. Túlkun þeirra segir meir um blaðamennina en stuðning við einstaka forystumenn.

Nú verður farið á Pæjumótið á Siglufirði á morgun. Þar bíður 3ja daga knattspyrnuhátíð. María og stöllur hennar keppti við KR í dag og gerðu jafntefli 1-1. Úrslit dagsins hjá A og B liðum Víkings tryggðu þeim sæti í úrslitakeppni í 5 flokki. Veðurspá er heldur þokkaleg. Fern foreldrapör fara norður af mínum 20 manna vinnustað. Það dettur engum að sitja heima sem hefur möguleika til að sækja svona mót, slík skemmtan sem þau eru.

Það eru að koma fleiri og fleiri myndir frá því vor inn á WS vefinn. Gaman af sjá svona mörg sjónarhorn af þessu eftirminnilega ævintýri.

Engin ummæli: