þriðjudagur, janúar 01, 2008

Gamlárskvöld og áramót liðu hjá í góðum gír. Fjölskyldan kom saman hér í Rauðagerðinu eins og oft áður og allt fór fram eftir ritúalinu. Maður er eiginlega mest ánægður með það í dag hvað unglingarnir sem eru óðum að verða fullorðið fólk hafa enn nennu og ánægju af að deila svona stundum með eldri kynslóðunum og ekki síður hvað þau eru öll full af jafnvægi og rólegheitum. Veðrið var betra en áhorfðist svo það var haldin dálítil flugeldaveisla á planinu eins og víðar. Það er hins vegar eins með þetta og svo margt annað, unglingarnir eru óðum að vaxa upp úr hasanum og það eru fyrst og fremst þau yngstu sem enn hamast á fullu.

Það plagar mig ekki per ce þótt það sé auglýsing inni í áramótaskaupinu en það mætti sýna smá metnað og ferska hugsun þegar verið er að þróa svona hluti. Auglýsingin sem slík var hundleiðinleg og ófrumleg og hefur örugglega ekki verið fyrirtækinu til framdráttar. Auglýsing á áramótaskaupi þarf bæði að vera fyndin og frumleg, annars er hún verri en engin auglýsing fyrir viðkomandi fyrirtæki.

Áramótaskaupið sem slíkt var hefðbundið miðjumoð og fátt sem situr eftir. Mér finnst eiginlega með ólíkindum að að sé ekki hægt að setja saman sæmilega revíu þegar stjórnendur þess hafa til ráðstöfunar tugi milljóna og fleiri mánuða undirbúning.

Ég fór snemma út í morgun og tók gamlárshlaupið degi of seint. Það er fínt að fríska sig upp í morgunkulinu. Ég hlusta ekki lengur á áramótaræðu forsetans en sé á mbl.is að hann ætlar að gefa kost á sér áfram í næstu kosningum. Það skiptir mig ekki öllu máli en gaman væri ef fleiri gæfu kost á sér svo hægt verði að kjósa. Það var hins vegar gaman að horfa á myndina "Gamla brýnið" sem fjallaði um Pétur í Ófeigsfirði. Pétur er einn af þessum öðlingum sem er verðmæti að hafa kynnst. Ég hitti Pétur fyrst í ágúst 1976 þegar við komum nokkrir félagar norðan af Ströndum eftir eftirminnilega ferð frá Hesteyri. "Hér komu hinsvegar um árið nokkrir bændur á gúmmístígvélum og fóru hratt yfir" heyrði ég Pétur lýsa komu okkar í útvarpinu nokkrum árum síðar þegar hann hafði verið að lýsa því hve göngufólk væri oft aðframkomið þegar það kæmi að garði í Ófeigsfirði norðan af Ströndum þótt það væri klætt gönguskóm af bestu gerð.

Árið í fyrra var mitt besta ár til hlaupa frá upphafi og getur maður ekki verið annað en þakklátur fyrir að hafa getu til að takast á við ýmis fullorðin verkefni á þessu sviði. Ég hef aldrei hlaupið lengra en í fyrra og tekist á við álíka krefjandi verkefni enda þótt ég færi aldrei upp í eins langa hlaupamánuði eins og árið 2005 en síðasta ár var miklu jafnara. Ég tók útmánuðina sem æfingamánuði og notaði marsmaraþonið og Bostonmaraþonið sem part af því plani. Marsmaraþonið var félagshlaup sem endaði í svo mikilli snjókomu að maður átti í erfiðleikum með að halda brautinni undir það síðasta. Bostonmaraþonið var eftirminnilegt sökum þess að á leiðinni út í rásmarkið var ausandi rigning og hífandi rok sem setti hlaupið allt í óvissu. Veðurskilin gegnu hins vegar yfir skömmu fyrir hlaupið svo það fór hið besta fram. Það er alltaf gaman að taka þátt í þessum stóru borgarhlaupum. Ég á eftir að taka Berlín, Chicago og New York til að hafa náð fimmunni. Síðan eru mörg önnur sem skemmtilegt væri að takast á við.

Í maí tókst ég á við nýja raun sem var 24 tíma hlaup á Borgundarhólmi. Það gekk mjög vel og náði ég að skrefa rúma 197 km á tilsettum tíma og náði verðlaunasæti í hlaupinu. Þessi árangur setur mig í ca 220 sæti á heimslistanum af þeim tæplega 2100sem hlupu 24 tíma hlaup á síðasta ári. Síðast þegar ég vissi var þetta 16. besti árangur á Norðurlöndum á árinu.
Laugavegurinn var mjög skemmtilegur eins og æfinlega og náði ég að ljúka honum á um 6.30 klst. Nú þarf maður hins vegar að vera undir 6 klst ef maður vill komast í fullorðinna manna tölu þar svo það er enn verkefni að vinna á þessum vettvangi. Í þetta sinn var Laugavegurinn partur af æfingaáætlun fyrir ATC keppnina á Grænlandi sem ég hoppaði inn í með mánaðar fyrirvara. Það var mjög skemmtileg reynsla og vildi ég ekki hafa misst af henni. Að sögn er ég nokkuð elstur þeirra sem hafa lokið þessari miklu keppni og held ég að þeir félagar mínir frá Íslandi Trausti, Eddi og Pétur komi þar næstir en þeir urðu allir fimmtugir á árinu. Þetta sýnir mér að dagatalið segir ekki allt í þessu samhengi. Við vorum þarna m.a. að keppa við hörkufólk með mikla reynslu sem hafði æft skipulega fyrir keppnina mánuðum saman sem hópur. Við hittumst sumir fyrst á flugvellinum þegar flogið var til Grænlands. Það er sem sagt hægt að gera ýmislegt betur í þessu samhengi. Ég hafði aldrei komið til Grænlands áður en það var skemmtileg upplifun.
Ég rúllaði Reykjavíkurmaraþon í rólegheitum í frábæru veðri og lauk því á 3.48 sem var eftir planinu. Það átti ekki að vera átakahlaup heldur æfingahlaup og gekk upp sem slíkt.
Sex tima hlaupið var haldið í kalsarigningu miðjan september. Við tókum upp þá nýbreytni að hafa einnig 3ja tíma hlaup og mæltist það vel fyrir. Steinn setti glæsilegt íslandsmet í sex tíma hlaupinu og var þetta ný upplifun fyrir þann mikla jaxl sem er til allra hluta líklegur á komandi árum. Ég lét mér nægja að hlaupa 3ja tíma hlaupið því þetta var síðasta langa æfingin fyrir Spartathlon sem var haldið í lok september.

Spartathlon er hlaupið milli Aþenu og Spörtu í Grikklandi og er lengsta hlaup í heimi sem er hlaupið frá einum stað til annars. Hitinn var mikill þá daga sem hlaupið fór fram eða 34oC - 37oC. Það reyndist mörgum mjög erfitt og meðal annars undirrituðum. Ég tók þá ákvörðun að hætta eftir um 20 klst og 150 km eftir að hafa barist við brennandi sólarhita, orkuskort, uppsölur, blöðrur og skafsár. Ég sá að ég myndi ekki hafa það af í gegnum seinni daginn undir tilskyldum tímamörkum og sté í rútuna um kl. 3.00 um nóttina. Ég var hins vegar ánægður með margt og er síðan miklu betur undir það búinn að takast á við hlaupið næsta haust en það verður stóra markmiðið á þessu ári. Það sem ég var ánæggðastur með var að ég var ekki útkeyrður eða orkulaus þear ég hætti. Þrekið var til staðar en aðstæðurnar of brutal til að ná undirtökum í hlaupinu. Nú er markvisst níu mánaða prógram framundan sem saman stendur af hlaupaæfingum, þrekæfingum, keppnum, fjallgöngum og saunasetum. Miðað við allt og allt er það fyrst og fremst andlegi þátturinn sem ræður úrslitum um hvort þetta tekst eða ekki.
Haustmaraþonið átti að vera létt rennsli en það minnti mann óþyrmilega á að maður á alltaf að bera virðingu fyrir maraþoni. Ég hætti í hlaupinu þegar það var hálfnað og hundaðist heim stirður og orkulaus.

Fyrir utan hin hefðbundnu maraþon ætla ég að keppa í 24 tíma hlaupi á Borgundarholmi í maí. Kannski verður langt hlaup á döfinni um páskana, það kemur í ljós. Í sumar verður ekkert á döfinni annað en Laugavegurinn því ég ætla ekki að láta neitt trufla undirbúninginn undir Spartathlon. Maður má ekki taka úr sér hungrið með því að fara í of mörg verkefni þegar svo mikið er undir.

Ég hef í eitt og hálft ár farið eftir leiðarvísi Ásgeirs fjallgöngukappa og Ironmanns hvsð mataræðið varðar. Maturinn samanstendur fyrst og fremst af kjöti, fiski, grænmeti og ávöxtum. Morgunmaturinn er skyrhræringssteypa með hunangi, rúsinum og kanil sem bætiefni. Sætindi, kex, kökur, kolvetnaóhóf og ruslfæði heyrir sögunni til. Síðasta hálfa árið hef ég einnig borðað reglulega vítamín frá Heilsu samkvæmt ráðleggingum og reynslu Ásgeirs. Frá því í haust hef ég farið yfir í að nota Herbalive próteinduft sem grunn fyrir og eftir æfingar. Samkvæmt þeirri reynslu sem ég hef þegar fengið er hún mjög jákvæð og það verður haldið áfram á þeirri braut. Að mínu mati þá er fæðan undirstaða undir frekari árangur til að byggja upp þrek og úthald. Sérstaklega á það við þegar maður er ekki neitt unglamb lengur og hefur upp á minni náttúrulegan forða að hlaupa.

Eitt af kostunum við að taka þátt í alþjóðlegum hlaupum er að maður kynnist hlaupurum héðan og þaðan úr heiminum. Af þeim má mikið læra og safna þannig í sarpinn til að þoka sér áfram. Ég get ekki verið annað en þakklátur fyrir að hafa getu og möguleika til að verða hluti af þessu samfélagi einstaklinga sem leggja stund á íþrótt sem hefur þá sérstöðu að hún er ekki á allra færi. Í upphafi voru keppendur ultrahlaupa taldir hálfgerðir vitleysingar að vera að hlaupa langt þegar hægt er að hlaupa stutt en það er að breytast smám saman.

Ég sé ekki annað en að það sé allt í sómanum nú í upphafi árs með skrokkinn og andann sem gefur vonir um að ýmislegt geti gerst ef vel er haldið á spilunum 7 - 9 - 13.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gleðilegt ár Gunnlaugur.
Gaman að lesa yfir þennan pistil þinn og greinilegt að þú hefur aldeilis verið með þétta dagskrá á nýliðnu ári. Fróðlegt að sjá hvernig þú jafnt og þétt bætir í pakkann hjá þér með góðum árangri. Þar sem Spartathlonið verður aðalnúmerið hjá þér árið 2008 óska ég þér innilega alls velfarnaðar í því verkefni. Þú ert sannarlega reynslunni ríkari, sem þú mun njóta góðs af í haust, auk þess sem hæpið er að hitinn verði svona rosalegur tvö ár í röð (en maður veit auðvitað aldrei). Því tel ég allar líkur á að þú munir ljúka þessu máli með prýði og sóma.
Bestu kveðjur til þín og þinna
Þorkell Logi

Steinn Jóhannsson sagði...

Góður pistill sem er gaman að lesa. Það verður gaman að fylgjast með þér á næsta ári og maður bíður spenntur eftir að sjá þig setja Ironman á dagskránna í komandi framtíð. Annars held ég að 24tíma hlaupið standi upp úr hjá þér og nú verða væntanlega 200km á dagskrá í næsta sólarhringshlaupi.

Nafnlaus sagði...

Ég er svo sem farinn að hugsa um Ironman. Geri ráð fyrir að taka það á dagskrá á árinu 2009. Er farinn að hjóla dálítið og hleyp dálítið!! en þarf að læra að synda. það á aekki að vera svo mikið mál til að komast þrautina alla en dálítið mál að ná góðum árangri. Þetta er einnig fínt markmið til að dreifa álaginu á skrokkinn.
G

Nafnlaus sagði...

Ég þakka Benjamin Lee fyrir alla hjálp hans við að tryggja lánið okkar fyrir nýja heimili okkar hér í Fruitland. Þú varst skipulagður og ítarlegur og faglegur, svo og góður sem gerði gæfumuninn í samskiptum okkar við þig. Við settum traust okkar á þig og þú komst örugglega í gegn fyrir okkur. Þakka þér fyrir þolinmæðina sem og að koma fram við okkur sem fólk frekar en bara viðskiptavini til íbúðalána. Þú stendur ofar restinni, ég vil mæla með þeim sem eru hér að leita að láni eða fjárfestum að hafa samband við Benjamin Benjamin og starfsfólk hans vegna þess að það er gott fólk með ljúft hjarta, Benjamin Benjamin Netfang: 247officedept@gmail.com



Kveðja,
John Burley! Húfurnar okkar ber þig !! “