Hlaupadagbókin sem Stefán Þórðarson benti mér á í gær er flott framtak og afar gott skref fram á við. Kosturinn við þessa dagbók er að þar getur maður séð hvað aðrir eru að gera og hvernig maður stendur í samanburði við ýmsa aðra fyrir utan að hafa samanburð við sjálfan sig frá fyrri árum. Þetta heldur manni einnig við efnið þannig að maður dragist ekki aftur úr þeim sem stunda æfingar af miklu kappi. Ég sé ekki annað en að ég sé á ágætu pari. Stefni að því að fara um 300 km í mánuðinum og það á að ganga upp ef ekkert sérstakt kemur upp á. Svona 75 km í viku. Mér finnst gott að taka tíma í þrekæfingar inni og hraðahlaup á bretti á þessum tíma. Það er gott innlegg fyrir seinni tíma.
Það er rétt að minnast tveggja höfðingja í dag. Hinn fyrri er Edmund Hillary sem kleif fyrstur Mt. Everset ásamt sherpanum Norgay. Maður sér best hvílíkt afrek þeir unnu þegar það reynist flestum fjallgöngumönnum fullerfitt að ganga á fjallið í dag með öllum þeim nútíma búnaði sem til er. Því er varla hægt að ímynda sér hvernig þetta var hægt á sínum tíma. Ég hef lesið ævisögu Hillarys og hún er einfaldlega mögnuð ævintýrabók sem ætti að vera öllum ungum einstaklingum skyldulesning og þar með hvatning til dáða.
Seinni afreksmaðurinn sem ekki síðri á sína vísu er íslendingurinn Eyjólfur sundkappi sem hóf sjósund til efstu hæða á sínum tíma og er frumkvöðull sjósunds hérlendis. Hann synti frá Vestmannaeyjum til lands, Drangeyjarsundið tvisvar, upp á Akranes og var fyrstur íslendinga í stakk búinn til að takast á við Ermarsundið enda þótt honum tækist ekki að ljúka þeirri miklu raun. Það liðu einhver 50 ár þangað til næstu menn íslenskir töldu sig tilbúna til að takast á við það mikla sund. Eyjólfur var ekki hraustmenni á yngri árum en tókst að sigrast á ýmsum heilsufarslegum erfiðleikum og skráði nafni sitt óafmáanlega í íslenska íþróttasögu. Síðan má ekki gleyma því að hann á flestum frekar lífið í íþróttafélaginu Þrótti. Minningarathöfn um Eyjólf var haldin í Bústaðakirkju í dag en hann lést á Nýja Sjálandi fyrir jólin. Alnafni hans ungur spilaði í þeirri merku hljómsveit The Beautifuls í nokkur misseri hér í bílskúrnum og hefur mér til mikillar ánægju haldið merki afa síns og föður, sem báðir eru nú látnir, á lofti með því að stunda sjósund, m.a. á nýjársdag.
Víkingur vann ÍR í kvöld í Víkinni og stimplaði sig þar með inn aftur í keppni efstu liða eftir fiaskóið á móti Gróttu fyrir jólin. Á morgun spilar 2. flokkur við Gróttu úti á Nesi.
föstudagur, janúar 11, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli