miðvikudagur, september 01, 2010

Ég verð nú að segja að ég sakna utanþingsráðerranna ef þeir verða að yfirgefa ríkisstjórnina. Þau hafa bæði sinnt sínum verkum af fagmennsku. Sérstaklega finnst mér Ragna Árnadótir vera rétt manneskja á réttum stað. Hún er principföst fagmanneskja sem ekki lætur sveiflast fyrir því hvernig vindurinn blæs. Þannig fólk þarf í ráðherrastóla. Í auknum mæli er farið að vitna í eitt og annað á netinu sem áhrifafaktora í fjölmiðlum. Það hefur verið búin til einhver grúppa á Facebook og því er vandlega lýst hvað svo og svo margir hafa sett "Like" á hana. Mjög margir vita ekkert um hvað málið snýst heldur fylgja hópnum. Atgangurinn í kringum prestinn í Reykholti fyrir nokkrum dögum er dæmi um þetta. Fyrst átti að krossfesta hann fyrir eitthvað sem hann sagði í blaðaviðtali. Það var togað og teygt út og suður því múgurinn hélt að hann hefði fundið fórnarlamb. Hann hefði verið brenndur á báli án dóms og laga hér áður, slíkur var æsingurinn. Einn stéttarbróðir hans stóð þar fremstur í flokki. Síðan kom í ljós að hann hafði staðið fastur á fótunum í biskupsmálinu. Þá var hann skyndilega hafinn til skýjanna. Svona er nú umræðan. Til upplýsingar þá hef ég það staðfest að Ólafur Skúlason, sem gegndi biskupsembætti um nokkurra ára skeið þess embættis óverðugur, kom aldrei í Reykholt í biskupstíð sinni og voru tilefnin þó ærin.

Mogginn fjallaði ágætlega um árangur íslensku stelpnanna á norðurlandamótinu í frjálsum íþróttum sem haldið var á Akureyri um helgina. Þakka það sem þakka ber. Það er mikil framför frá því fyrir þremur árum síðan þegar Ísland fékk tvo norðurlandameistara og einn silfurverðlaunahafa á þessu móti. Þá var skýrt frá því í fjögurra fersentimetra smágrein á íþróttasíðu Moggans. Hins ber að geta að fótboltinn var með 5-6 síður í þessu sama íþróttablaði þar sem fimbulfanbað var um miskemmtilega leiki í efstu deild.

Um daginn heyrði ég orðnotkun í útvarpinu sem stakk mig alveg á kaf. Leiðsögumaður sem sérhæfir sig í ferðum um miðbæ Reykjavíkur sagði að það væru margar "krær" við einhverja götu í miðbænum. Svona til upplýsingar þá beygist orðið krá í fleirtölu svona: Krár um krár frá krám til kráa. Kró er stía eða stórt hólf í fjárhúsi. Þar er talað um margar krær. Fyrir alla muni ekki blanda saman ölstofum og fjárhúskróm.

Eiði Smára var kippt um borð í Stoke á sem nokkursskonar "Last minutes passanger". Hann þurfti að slá af fáránlegum launakröfum sem eðlilegt er. Unndanfarnar vikur hefur blaðafulltrúinn pumpað út tilkynningum að Eiður væri að fara hingað eða þangað. Fréttamannagreyin kokgleypa allt. Þeir gleypa líka eina vitlausustu fréttatilkynningu sem ég hef heyrt úr þessum herbúðum. Það er ekki fyrr búið að kippa honum úm borð í Stoke og blekið varla þornað á samningnum fyrr en fréttatilkynningar eru birtar um að spil Stokeverja eigi bara eiginlega eingöngu að snúast um Eið kallinn. Hann á að vera lykilmaður og allir eiga að spila með tilliti til hans. Sér er nú hvert ruglið. Ætli nokkurt lið geri þann mann að lykilmanni í fyrsta leik sem er keyptur á útsölu rétt áður en dyrnar lokast og var orðinn svo desperat að hann sló verulega af óraunsæum launakröfum. Varla. Vonandi gengur honum vel en til að fæturnir fúnkeri þarf að skrúfa hausinn fast á. Það er óskandi að hann sjáist svo aldrei meir í landsliðinu á meðan hann spilar það með fýlusvip og sýnir pressunni hroka. Það er til nóg af strákum sem hafa ánægju af því að spila með landsliðinu og hafa alla burði til að selja sig dýrt.

Engin ummæli: