miðvikudagur, september 22, 2010

Til að halda almennilegum dampi þarf að vera markið framundan, eitthvað til að stefna að. Annars verður þetta bara einhevr ferð út í óvissuna. Það er gott að hafa ákveðin markmið með ekki of löngu millibli því ef það er of langt á milli þeirra þá er hætta að fókusinn verði ekki eins skarpur og ella. Ég hef verið að gæla við að taka brettishlaup í endaðan nóvember eða á sömu helgi og 24 tíma hlaupið er í Bislet í Osló. Það verður haldið síðustu helgina í nóvember. Þau Dísa og Bjössi í World Class voru svo vinsamleg í fyrra að gefa mér tækifæri til að takast á við 100 km á bretti. Það gekk fínt og nú bíður annað verkefni. Við ákváðum í dag að nú yrðu það 24tímar. Það er ágætis verkefni að stefna að. Norðurlandametið er 203 km það ég best veit. Þarf að kanna það betur og eins hver landsmetin eru á Norðurlöndum. Ég hef hlaupið yfir 200 km á 24 tímum í síðustu þrjú skiptin sem ég hef tekist á við hlaup af því tagi.

Það var gott viðtalið við Þorbjörn á Ósi í Arnarfirði á Stöð 2 í gærkvöldi. Hann er að bregða búi eftir að hafa lifað og starfað á Ósi alla æfina. Hann gerir það með meiri reisn en margur annar sem meir er hampað. Verpir haug yfir uppáhaldskindurnar og eyðir húsunum svo þau fjúki ekki út um allt. Ég hef einu sinni hitt Þorbjörn. Það var fyrir akkúrat 33 árum síðan þegar ég fór þarna út í sveitina til að mæla fyrir skurðum. Þá sá ég mann koma hlaupandi á eftir kindum inn hlíðina fyrir utan Fjallfoss. Ég þekkti á eigin skinni hvað smala kom oft vel ef honum var lögð hendi svo ég fór fyrir rollurnar upp í hlíðina og stuggaði þeim niður og til baka. Þorbjörn kunni mér góðar þakkir fyrir viðvikið. Ég var reyndar ekki að fara að mæla fyrir skurðum á Ósi í þessari ferð heldur hjá nágrannanum, Alla á Laugabóli. Þar valt á ýmsu við skurðamælingar og skurðgröft á næstu vikum en skurðirnir voru grafnir áður en yfir lauk og landið þornaði vel. Ég fór þarna úteftir í ágústbyrjun þremur árum síðar til að skoða vegsummerkin. Landið sem var svo blautt að það hélt varla hundi var orðið pallþurrt og æðrarfuglinn fluttur úr bleytunni upp í þurra ruðningana. Alli var þarna orðinn sjötugur og sagist hafa átt sér þann draum í þrjátíu ár að geta komið sér upp vísitölubúi. Aldrei held ég að sá draumur hafi ræst hjá Alla en það gefur á að líta heim að Laugabóli í dag samkvæmt fréttum á Stöð 2 í kvöld. Þarna er risið stórhrossabú og búið að reisa höll bæði fyrir fólk og fénað. Meir að segja er sundlaug í hlaðvarpanum. Það held ég að Alla fyndist á að líta eins og Laugabólið er setið í dag. Hann hafði miklar áhyggjur af því að jörðin færi í eyði eftir hans dag og hafði ýmsis ráð á takteinum til að sporna við því. Á þau reyndi víst aldrei en svona geta hlutir gerst.

Engin ummæli: