fimmtudagur, mars 31, 2011
Það var fín umfjöllunin í Kastljósi RUV í kvöld um stöðu gamla fólksins og samskipti þeirra við kerfið. Það er náttúrulega með ólíkindum að heyra svona sögur en þær eru því miður ekki einsdæmi. Maður fer að halda að gamla fólkið sem er orðið örvasa hafi verið afgangsstærð í samfélaginu hingað til. Glæpamenn og drullusokkar sem dæmdir eru til fangavistar eru vistaðir á hálfgerðum sumarhótelum á meðan gamla fólkið eða aðstandur þess verður að berjast mánuðum eða misserum saman fyrir eðlilegri þjónustu af hálfu hins opinbera. Það kom fram í Kastljósinu í kvöld að markmið kerfisins væri að aldrað fólk ætti að vera eins lengi heima hjá sér og hægt væri. Heimahjúkrun og önnur aðstoð ætti að gera þetta mögulegt. Danskir sveitarstjórnarmenn sem komu í hemsókn til sambandsins fyrir nokkrum árum sögðu aðra sögu. Þeir sögðu svo frá að Danir væru horfnir frá þessari stefnu vegna þess að aldraðir einangruðust svo heima hjá sér. Þar búa þeir oft einir og sjá ekki nokkurn mann nema aðstoðarfólkið. Þeir komast ekki út undir bert loft hjálparlaust og svo framvegis. Danir eru sem sagt búnir að breyta um kúrs í þessum málum fyrir löngu. Ég hef aðeins kynnst samskiptum aldraðra við kerfið að undanförnu í tengslum við aldraða ættingja. Tvær aldraðar systur í fjölskyldunni létust í vetur. Sú yngri dó í endaðan janúar. Hún var búinn að vera sjúklingur lengi og hafði ekki getað komist um nema í hjólastól árum saman. Hún var einnig farin að láta sig andlega undir það síðasta. Í endaðan september í fyrra fékk hún þann úrskurð að hún væri of hress til að geta komist inn á hjúkrunarheimili. Það var ekki gefist upp og í nóvember komst hún inn á stað þar sem hún átti heima á. Hún gat fylgt fötum fram að jólum en svo var það búið og hún lést í endaðan janúar. Systir hennar sem var komin hátt í nírætt lá milli heims og helju á sjúkrahúsi vikum saman síðastliðið sumar. Fyrir einhvert kraftaverk komst hún á fætur en var eðlilega enginn bógur. Seint í febrúar fékk hún þann úrskurð að hún væri ekki nægjanlega heilsutæp til að fá vist á hjúkrunarheimili en var send heim til sín úr hvíldarinnlögn. Fjölskyldan kom að henni látinni heima hjá sér fjórum dögum síðar. Svona er nú þetta. Aldrað fólk með alzheimer sjúkdóminn er síðan enn einn kapítulinn. Þar er fólk oft búið að tapa ráði og rænu enda þótt það sé líkamlega nokkuð vel á sig komið. Það getur verið gersamlega útilokað fyrir aðstandendur að annast slíka sjúklinga enda þótt ætlast sé til þess. Ég hef heyrt það sagt en hef það ekki staðfest að í átökum um svona mál þegar ættingjar voru að berjast fyrir því að aldraður ættingi fengi pláss á hjúkrunarheimili og neituðu að taka á móti viðkomandi að þá hafi sjúklingurinn verið skilinn eftir úti á stétt þegar komið var með hann og dyrnar ekki opnaðar. Sel það ekki dýrara en ég keypti.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Skratti góð grein Gunnlaugur. Stend sjálfur í þessari baráttu vegna foreldra minna og vann einnig við heimaþjónustu aldraðra í Reykjavík samhliða námi í HÍ, fyrir þó nokkrum árum reyndar. Þá sá maður margt ömurlegt í aðstæðum fólks og síðan hef ég verið mjög efins um þessa stefnu að halda öllum heima sem lengst.
Kveðja, Halldór.
Takk fyrir svarið Halldór. Mér finnst að umræða um þessa hluti sé nauðsynleg og af hinu góða. Margt er alls ekki forsvaranlegt.
Skrifa ummæli