fimmtudagur, ágúst 18, 2011

Ég flaug í gær til Finnlands. Vél Icelandair í beinu flugi til Helsingfors var full. Íslendingar, Finnar og Rússar voru á leið yfir hafið. Frá Helsingfors fór ég með rútu til borgarinanr Imatra sem liggur um sex kílómetra frá rússnesku landamærunum, skammt norður af Karelska flóanum. Hagdeildir norrænu sveitarfélagasambandanna hittast einu sinni á ári og bera saman bækur sínar og nú er fundurinn sem sagt haldinn hér í Imatra. Á þessum slóðum er umhverfið þétt ofið saman við einn af dramatískari þáttum sögu Finnlands, Vetrarstríðið. Það stóð yfir um nokkrurra mánaða skeið árið 1939-1940. Sovétríkin réðust inn í Finnland og ætluðu að innlima það eins og gerðist með Baltnesku ríkin. Finnar börðust hetjulega gegn ofureflinu og náðu að halda Rauðahernum í skefjum, þrátt fyrir að hann væri a.m.k. þrefalt fjölmennari. Það hjálpaði Finnum að kuldinn þennan vetur var óskaplegur. Þá voru slegin kuldamet sem standa enn en kuldinn fór niður í -45°C. Í kjallara hótelsins sem við búum í hafði Mannerheim og hershöfðingjar hans aðalstöðvar sínar. Lítið safn er hér niðri til minningar um það. Við friðar samninga Finna og Sovétríkjanna þá urðu Finnar að láta af hendi 10% af landi sínu sem Rauði herinn hafði hertekið. Á því svæði var Viborg sem var önnur stærsta borg Finnlands á þeim tíma og sú framsæknasta í menningu og listum. Um 400.000 finnar þurftu að taka sig upp frá heimilum sínum og koma sér fyrir annarsstaðar í Finnlandi. Þeir sem völdu þann kostinn að búa áfram á því svæði sem Rússar hertóku voru sendir til Síberíu og áttu þaðan fæstir afturkvæmt. Í því sambandi er rétt að hafa það í huga að þeir sem völdu að vera eftir voru sannfærðir um yfirburði kommúnismans og Sovétskipulagsins og vildu því njóta þess að búa í sínu Eldoradó. Veruleikinn varð síðan annar hvað þá varðaði. Rétt er að minnast þess að Sósíalistaflokkur Íslands, arftaki Kommúnistaflokksins og forveri Alþþýðubandalagsins, var eini stjórnmálaflokkurinn á Íslandi sem ekki fordæmdi innrás Sovétmanna í Finnland.
Á morgun förum við yfir til StPetersborg og svo verður flogið heim á sunnudag. Það er gaman að rifja það upp að fyrir réttum 20 árum síðan þá var ég einnig á leið til Rússlands. Ég vann þá hjá bændasamtökunum og við vorum nokkrir úr landbúnaðargeiranum að endurgjalda heimsókn landbúnaðarstofnun Magadan fyrr um vorið. Við flugum austur á föstudegi 16. ágúst. Gist var eina nótt í Moskvu en á laugardegi var flogið austur til Magadan í Síberíu. Það var eitt að alræmdustu Gúlagsvæðunum. Á sunnudegi var farið í ferð út í sveit og á mánudegi byrjuðu hinar formlegu heimsóknir sem áttu að standa í nær viku en þá ætluðum við að fljúga yfir til Kamchatka. Á þriðjudegi var síðan allt komið einhvern veginn upp á rönd. Allt prógram var út og suður og við vissum ekki hvað sneri upp eða niður. Seint um síðir fengum við að vita það að það hefði verið gerð bylting í Moskvu. Púkó og fleiri hershöfðingjar hefðu steypt Gorbatjov af stóli að honum fjarstöddum. Við hlustuðum á útsendinu úr Rússneska útvarpinu þar sem Púkó talaði og lýsti ástandinu. Fólkið þarna austur frá var eins og það hefði fengið loftstein í höfuðið. Heimurinn var hruninn. Sú glæta sem hafði opnast virtist vera að lokast aftur. Okkur leist ekki á blikuna, við þarna staddir austur í Síberíu og byltingarástand í landinu. Við höfðum samband heim og okkur var skipað af utanríkisráðuneytinu að hafa okkur úr landi sem fyrst. Við vorum einu íslendingarnir sem voru staddir í Rússlandi á þessum tíma fyrir utan sendiráðsfólkið. Það var farið að leita og loks fengust miðar með flugi sem var að koma frá Khabarovsk í suður Rússlandi og var á leið til Ancourige í Alaska. Vélin átti að lenda á miðvikudagskvöldi. Okkur þótti þetta vægast sagt dapurlegt að vera loks komnir þarna austur á framandi slóðir og varla lentir þegar við áttum að yfirgefa þetta ágæta fólk sem var búið að hlakka til komu okkar. Við fórum að tygja okkur út á flugvöll á miðvikudagskvöld eftir kveðjuveislu. Tollurinn fláði hvern einasta mann inn að skinni og tók allt upp úr öllum töskum. Einn var tekinn fyrir í einu. Tveir voru búnir og ég var á leið inn í tollinn þegar skilaboð komu um að flugvélin gæti ekki lent vegna þoku. Það var náttúrulega bara lygi, það var engin þoka heldur hefur vélin vafalaust verið fullbókuð. Við þurftum því að fara aftur heim á hótel. Þetta hefði ekki verið svo slæmt ef það það hefði ekki bara ein flugvél verið eftir af sumaráætluninni, n.k. sunnudag. Ef hún væri líka full þá var okkur sagt að möguleiki væri á að við kæmumst til Japan einhvern tíma um veturinn með fiskiskipum!!! Ég man að á fimmtudagsmorguninn fór ég einn út að ganga í morgunsárið og þá fór maður að horfa á hlutina eins og þeir voru. Fram til þess hafði maður horft á borgina með augum hins forvitna og jákvæða og ekki verið að velta sér upp úr smáatriðum. Þarna um morguninn horfði ég aftur á móti opnum augum á drulluna, draslið, niðurníðsluna og ömurlegheitin. Þarna gætum við átt eftir að dvelja mánuðum saman og spurning var hvort við kæmumst burt. Ég verð að játa það að mér leist alls ekki á blikuna. Var maður innilokaður um óvissan tíma, jafnvel mánuðum saman, á þessum volaða stað. Hvað vissi ég? En síðar þennan sama dag þá birti til. Púkó og félagar hans gáfust upp, enda búnir að vera fullir allan tímann frá því þeir reyndu að hrifsa völdin til sín. Jeltsín stökk upp á skriðdrekann og öðlaðist alheimsviðurkenningu fyrir að bjóða gömlu kommúnistaöflunum birginn. Allt varð normalt aftur og við héldum áfram ferð okkar og fórum síðar yfir til Kamchatka. Það var nær því úti á enda alheimsins. Þar vorum við í viku tíma og höfðum af því gagn og gaman. Þegar við yfirgáfum þennan heimshluta þá bjóst ég við að þetta væri "once of a life time". En réttum fjórum árum síðar var ég kominn aftur til Kamchatka til tæplega ársdvalar en þar er allt önnur saga.

Engin ummæli: