Hópurinn keyrði yfir til St Petersborg í dag. Það tók góðan klukkutíma að fara í gegnum tollinn Rússlandsmegin við landamærin. Þegar ég rétt fram passann minn eftir að Finnarnir höfðu gegnið greiðlega í gegnum nálarauga rússneska tollvarðarins, þá gerðist eitthvað. Tollverðinum hnykkti við, mér var vikið til hliðar og annar tollari kom hröðum skrefum, sótti passann minn og hvarf með hann baksviðs. Ég fór að velta fyrir mér hvort eitthvað væri ógreitt af lánum íslenskra banka á rússneskri grund og íslendingar því óvelkomnir til ríkis Pútíns eða hvort ég hafi skrifað full óvarlega um Stalín á seinni árum. Eftir drykklanga stund skilaði passinn minn sér og ég leið þar á eftir lipurlega í gegnum landamærin. Svo var ekið áfram til Svetgorsk. Það er skelfilegur staður. Þar búa um 20.000 manns í niðurníddum Sovétblokkum. Um 2500 manns vinna í pappírsverksmiðjunni sem er þar rétt hjá. Í Svetgorsk er varla neitt til neins, eitt bíó og nokkrar búðir. Einhver íþróttamannvirki er þar þó að finna. Þangað var haugað fólki héðan og þaðan úr Sovétríkjunum eftir stríðið. Nokkrir tugir þúsunda finna höfðu orðið eftir á hernumda svæðinu, bæði af frjálsum vilja og aðrir náðu ekki að koma sér burtu. Af þeim hefur ekkert spurst síðan. Strax og komið er yfir landamærin er hinn gamli sovéski ömurleiki uppmálaður hvert sem litið er. Niðurnídd hús, hálfhrundar byggingar, drasl og drulla. Við komum aðeins við í kaupfélaginu. Þar bar mest á alkóhóli og sígarettum.
Síðan keyrðum við í tæpan klukkutíma og þá komum við til Viborgar. Við drukkum kaffi á gömlu og ágætu veitingahúsi sem var staðsett í Sívalaturninum. Borgarstjórinn Vasiliev kom og fræddi okkur um málefni Viborgar. Athyglisvert er að sveitarfélagið fær mestar tekjur sínar frá höfninni (sem mafían kontrollerar). Viborg leit vel út og var það strax allur annar heimur en Svetgorsk. Síðan var ekið til St Petersborgar. Aksturinn tók um þrjá klukkutíma og maður sá ekkert á leiðinni nema skóg. Það sást vel þegar komið var inn í borgina að St Petersborg er sannkölluð stórborg. Hún hefur verið lagfærð gríðarlega frá niðurníðslu Sovétáranna og heldur glæsileg að sjá. Það verður spennandi að fara aðeins um hana á morgun.
I gegnum borgina Imatra rennur mikil á, eða réttara sagt rann mikil á. Hún hefur nú verið virkjuð og stíflan og lónið eru inni í miðri borg eða svona 500 metra frá hótelinu sem við gistum á. Á sumrin er hleypt úr lóninu einu sinni á dag kl. 18:00 fyrir túrista og þykir það mikið sjónarspil þegar áin rennur óhindrað niður gljúfrin. Það stendur yfir í 20 mínútur en þá er sú gamla beisluð aftur. Það var hins vegar gert kl. 21:00 í gærkvöldi svo norræni hópurinn gæti notið þess. Meðan áin rann óbeisluð þá var mikill foss í henni. Á Stalinstímanum gerðu ungar stúlkur frá borgum skammt fyrir austan landamærin sér það til dægrastyttingar að ferðast til Imatra og kasta sér í fossinn. Sagt er að fleiri hundruð sovéskra stúlkna hafi horfið í hann. Það kvað svo rammt að þessu að lögreglan var farin að hafa eftirlit með lestinni sem gekk þar á milli og athuga hvort ungar stúlkur væru með miða í báðar áttir. Ef miðinn var aðeins í aðra áttina þá var málið skoðað betur og þeim jafnvel snúið við. Maður getur hins vegar velt fyrir sér hvað það hafi verið fyrir austan landamærin sem gerði það að verkum að ungar sovéskar stúlkur streymdu vestur yfir til Imatra og hurfu í fossinn. Ekki fer sögum af því aftur á móti að strákar hafi stungið sér í hann.
Það er flott þátttaka í Reykjavíkurmaraþoni á morgun. Ég minnist þess að fyrir nokkrum árum töluðum við um að það væri skynsamlegt framtíðarmarkmið að stefna að 1000 þátttakendum í heilu maraþoni. Ég sé að það eru 700 hlauparar skráðir til leiks á morgun í heilt maraþon. Það er frábært. Veðrið verður einnig gott það maður sér. Þetta verður frábær dagur.
föstudagur, ágúst 19, 2011
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli