Það var farið í skoðunarferð um St Petersburg í dag. Í morgun fór ég út að hlaupa í almenningsgarði sem er hér beint á móti hótelinu. Ég er að ná mér aftur eftir að hafa tognað aftan í hægra lærinu og hef því lítið hlaupið síðan í Írlandi fyrir mánuði síðan. Það var fínt að hlaupa þarna í morgun, hlýtt, heiðskýrt og logn. Nokkrir voru að hlaupa en enn fleiri voru að veiða fisk í tjörninni í garðinum. Síðustu þrjú árin hef ég hlaupið tvöfalt maraþon í Reykjavíkurmaraþoni. Það byrjaði sem ein af löngu æfingunum fyrir Spartathlon árið 2008 en síðustu árin tvö hef ég hlaupið þessa vegalengd bara af því að ég gat það og þótti það gaman en án þess að það væri neinn dýpri tilgangur með því. Það hlýtur að hafa verið gríðarlega gaman í maraþoninu í dag. Veðrið alveg eins og það gat best verið, fullt af fólki og mikill fjöldi með brautinni. Áhuginn og virðingin fyrir Reykjavíkurmaraþoninu fer sífellt vaxandi og er það vel. Gríðarlega flott hlaup hjá Kára Steini í 1/2 maraþoni og kominn tími til að Sigurður P. yrði sleginn út eftir 25 ár. Besti tími í maraþoninu var hins vegar ekkert sérstakur en vel gert hjá ungum dreng. Vonandi munu okkar bestu menn stíla upp á að toppa á þessum tíma í stað þess að gera það á erlendri grundu. Vitaskuld er veðrið heima ákveðinn áhættufaktor. Ég man eftir því þegar ég sá hlaupara berjast inn Kleppsveginn í roki og rigningu í Reykjavíkurmaraþoninu á sínum tíma að ég gat ekki með nokkri móti skilið hvað fengi fólk til að leggja þetta á sig. Þetta var fyrir skemmtiskokkið örlagaríka í ágúst 1994.
Aftur að St Petersburg. Við heimsóttum Maríuhöllina fyrst. Hún er ein af fjöldamörgum höllum hér í borginni. Þar hefur borgarstjórnin og héraðsstjórnin m.a. aðsetur sitt. Finnarnir fóru upp í ræðustólinn og héldu málamynda ræður með leikrænum tilburðum á meðan félagar þeirra tóku myndir. Þeim þótti ekki leiðinlegt að eiga mynd af sér í þessum stól. Vitaskuld eru alltaf smá straumar þarna á milli. Sagan hverfur ekki svo glatt. Við fengum að heimsækja höllina fyrir tilstuðlan borgarstjórans í Imarta. Þannig ganga hlutirnir fyrir sig hér á þessum stað. Svo ókum við niður að Vetrarhöllinni og að gamla Börsinum. Þar fyrir utan voru rússar með lítinn björn í bandi sem lék á alls oddi. Leiðsögumaðurinn var ekki hrifinn af því. Hann sagði að fólkið hellti oft brennivíni í birnina til að fá þá til að gera allskonar kúnstir. Þegar þeir eltust yrðu þeir aftur á móti mjög aggressivir og þá væru þeir skotnir eða eitthvað þaðan af verra. Þegar maður hugsar um það þá var litli nallebjörninn í morgunn mun líflegari og fjörugari en eðlilegt er af villtu ungviði að vera. Hundur yrði hræddur við ókunnugt fólk, köttur yrði fornem en hann væri kjassaður mikið af ókunnugu fólki en bjarnarhúnninn lék á alls oddi.
Leiðsögumaðurinn (Olgan) rifjaði upp helstu atriðin er varða umsátur þjóðverja um Leningrad á sínum tíma. Umsátrið varði í um þrjú ár. Um ein milljón manna dó. Óskaplegt ástand ríkti í borginni. Um 1/3 allra bygginga var sprengdur í tætlur. Þær voru síðan allar endurbyggðar eftir stríðið. Það er virt finnska hershöfðingjanum Mannerheim til virðingar að þrátt fyrir að finnski herinn væri í seilingarfjarlæg við borgina öll þessi ár, þá beitti hann aldrei stórskotaliðinu á borgina. Mannerheim hafði búið mörg ár í Leningrad og átti djúpar rætur í borginni. Sagan segir að hann hafi ekki getað hugsað sér að eiga þátt í að eyðileggja hana. Eftir hádegismat fórum við í Vetrarhöllina. Hún er huge. Þar eru 2.7 milljónir listaverka. Vetrarhöllin er þriðja stærsta listasafn í heimi á eftir Louvre í París og breska listasafninu. Ég kom í Louvre í vor en mér finnst Vetrarhöllin vera enn meir imponerandi. Hún er eitthvað svo mikilfengleg. Við vorum þar í ca tvo tíma og þá var bara komið nóg. Fólk var orðið svolítið þreytt á allri þessari göngu.
Svo var farið niður á Nevsky Prospekt, skoðað í búðir og að því loknu farið heim á hótel og skipt um föt í snatri fyrir kvöldverðinn. Mér tókst að villast en af því ég gat lesið á götuskiltin þá áttaði ég mig í tíma.
Verðlag hér er hátt. Ýmsir hlutir sem ég keypti fyrir skid og ingenting í fyrri ferðum til Rússlands kosta nú formúgu. Góð matrúska kostar 1.500 rúblur. Hægt er að margfalda upphæðina með 4.0 til að fá út íslenskt verðlag. Tebolli sem ég keypti fyrir smápening forðum daga kostar nú 6.000 krónur. Ég ætla ekki að segja hvað útskorna rostungstönnin sem ég keypti í Magadan forðum daga fyrir lítið fé kostar hér út úr búð. Það borgar sig ekki að kaupa vín hér í búðum nema þá kannski hreinan vodka, en þar er drasl sem ég vil ekki sjá.
Það er svo ótrúlega mikið að sjá hér í St Petersburg að maður á vonandi eftir að koma hingað síðar. Það kostar hinsvegar dálitla peninga en ég held að það sé þess virði. Ég kom til Parísar í vor. Maður sér engan mun á að vera að þvælast á götum í París eða St Petersburg fyrir utan málið á skiltunum að því undanskildu að það eru færri útiveitingahús hér en í París.
Það er merkilegt hvað rússneskan, sem ég hélt að væri alveg horfin, lætur fljótt kræla á sér þegar hún fer að syngja í eyrunum. Það væri gaman að gefa henni gott tækifæri einhvern tíma.
laugardagur, ágúst 20, 2011
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli