laugardagur, ágúst 13, 2011

Ég hef verið stífur aftan í hægra lærinu undanfarna mánuði, mismikið þó. Ég var orðinn áhyggjufullur áður en ég fór til Belfast um að þetta myndi há mér í hlaupinu. Því hvíldi ég vel áður en ég fór út ogf teygði vel á fætinum. Það gekk upp og ég fann ekki fyrir neinu á meðan því stóð. Aftur á móti þegar ég kom heim létu leiðindin ekki á sér standa. Skrefið með hægra fætinum var styttra og það tók í lærið að aftan verðu. Ég fór út að hlaupa með strákunum um síðustu helgi og leiðindin létu ekki á sér standa. Ég hef ekkert hlaupið síðan og hringdi svo loks í Örn í Sporthúsinu og bað hann að taka mig í yfirhalningu. Ég fór til hans í gær og fékk allan pakkann. Nálastungur, hnykki, nudd, heita steina og ég veit ekki hvað. Á stundum lá við að ég sparkaði honum út um dyrnar þegar sem mest gekk á en harkaði þó af mér. Það er merkilegt hvað skrokkurinn slaknar upp og liðkast við svona yfirhalningu. Ég finn vel hvað hreifingarnar eru allar liðugri og verkurinn aftan í hægra lærinu er að hverfa. Maður má ekki gleyma þessari hlið mála þrátt fyrir að allt sé í lagi og ekkert sé að í augnablikinu. Maður hefur mjög gott af því að fá úttekt á skrokkunum og ábendingar um hvort eitthvað sé að gera um sig og á hvað þurfi að leggja áherslu. Ég geri ráð fyrir að fara í annan tíma til hans innan tíðar en svo stefni ég að því að hitta hann ekki sjaldnar en á sex mánuða fresti þrátt fyrir að ekkert sérstakt sé að. Bílar eru sendir í smurningu og almennt tékk af og til og því skyldi maður ekki gera það við skrokkinn sömuleiðis.

Ég hef fengið skó og hlaupafatnað frá Asics eftir þörfum síðustu tvö árin. Það er mjög gott og maður sleppur þá við þau útgjöld. Skór henta mönnum vafalaust misjafnlega vel en Asics skórnir henta mér mjög vel. Ég er frekar þungur og því þarf ég solid skó. Ég er einnig farinn að hlaupa í stærri númerum en áður. Í hlaupinu í Belfast fékk ég einungis eina smá blöðru sem ég hefði alveg getað komið í veg fyrir. Það er annað en áður var.

Bikarkeppni FRÍ hófst á Kópavogsvelli í gær í fínu veðri. Keppnin var fín og gekk vel, tímaasetningar stóðust og spenna milli liðanna. Ármenningar og Fjölnir stóðu sig vel þrátt fyrir að það séu nokkur skörð í þeirra röðum vegna meiðsla. Það er eins og gengur að það er sjaldnast allt sem gengur upp.

Í Fréttablaðinu í dag eru flottar myndir af stuðlaberginu í Kálfhamarsvík á Skaga. Staðurinn lætur lítið yfir sér og færri vita alveg hvar þetta er að finna. Ég gæti ekki keyrt rakleiðis á staðinn án aðstoðar landakorts enda hef ég ekki komið þangað. Það er kannski til marks um hvað náttúran hér er mögnuð að hér veit varla nokkur maður af þessum stað en álíka nátturumyndun á Norður Írlandi er heimsótt af hundruðum þúsunda ár hvert. Við staðinn er hótel, þjónustumiðstöð og ég veit ekki hvað. Rútuferður eru frá hótelinu niður á ströndina fyrir þá sem geta ekki eða nenna ekki að gana 2-3 km. Markaðssetningin á svæðinu er reyndar dálítið mikið betri en hjá okkur. Á því sviði getum við lært mikið af nágrönnum okkar.

Engin ummæli: