miðvikudagur, janúar 11, 2012

Ég sat um daginn fyrri hluta samkomu þegar íþróttamaður ársins var útnefndur. Ég var farinn þegar seinni hlutinn fór fram en horfði á þegar íþróttamenn sérsambandanna tóku á móti viðurkenningum sínum. Þarna var fríður hópur fólks en maður átti erfitt með að átta sig á hver var hver í öllum þessum fjölda. Það hefði mátt standa betur að því að kynna fólkið og afrek þess. Það er einfalt með myndasýningu uppi á vegg um leið og viðkomandi er kallaður fram. Salurinn á Grandhotel er einnig of lítill og þröngur fyrir þessa samkomu.

Nokkur umræða hefur spunnist um valið á íþróttamanni ársins. Ég man ekki til þess að sá íþróttamaður sem kosinn er íþróttamaður ársins hafi ekki verið landsliðsmaður. Nú skil ég Heiðar Helguson vel að taka ekki áhættuna á því á síðustu árum ferils síns að taka ekki áhættuna á því að meiða sig í leikjum sem oft hafa verið leiknir gegn þjóðum sem eru ekki ákaflega hátt skrifaðar. Síðan finnst mér það alveg vera spurning hvort það að standa sig vel með liði sem er á botninum í ensku úrvalsdeildinni eða í B deildinni bresku sé svo stórbrotið afrek að ekkert hafi verið unnið betra af íslendingi á síðasta ári. Það var t.d. afskaplega óheppileg umræða sem fór af stað í sumar að Annie Mist, hemsmeistari í Cross Fitt, skuli ekki hafa verið gjaldgeng í kjöri til íþróttamanns ársins. Það var greinilegt að Magnús Scheving var gleymdur. Þegar hann var kjörinn íþróttamaður ársins eftir að hafa orðið heimsmeistari í þolfimi, sem var mikið afrek, þá dugði það að hann væri meðlimur í fimleikafélagi. Annie Mist er meðlimur í lyftingadeild Ármanns og var sem slík kosin lyftingakona ársins. Hún byggði því á nákvæmlega sömu forsendum og Magnús. Það má spyrja sig hvers vegna hvers vegna leikmenn í sænska fótboltanum eða körfuboltanum eru metnir hærra en Aron Pálmarsson, sem spilaði með besta handboltaliði í heimi í fyrra. Kiel vann alla tila sem hægt var að vinna. Þegar Eiður Smári var á mála hjá Barcelona þá var það metið svo stórkostlegt að enginn annar kom til greina sem íþróttamaður ársins. Þó var nú tæpast hægt að segja að spil Barcelona snerist í kringum Eið. Aron spilar hins vegar það ég best veit sem leikstjórnandi hjá Kiel. Áhrifin af dvölinni hjá Barcelona höfðu síðan þau langtímaáhrif að þau dugðu Eið meir að segja til að vera kosinn annar besti íþróttamaður landsins þegar hann sat á tréverkinu hjá Monaco og spilaði lítið sem ekkert.

Kári Steinn maraþonhlaupari var í 7. eða 8. Að mínu mati var það mikið afrek að hlaupa inn á Ólympíuleikana í sínu fyrsta maraþonhlaupi. Það er miklu meira afrek en flestir geta ímyndað sér. Það er miklu meira afrek að ná þessum árangri í sínu fyrsta hlaupi en ef hann hefði náð þessu takmarki eftir að hafa verið að hlaupa maraþon árum saman. Þótt Kári Steinn hafi náð Ólympíulágmarki með hlaupi sínu í Berlín þá er hann engu að síður í um 900 sæti á heimslista. Það kemur fram á afrekaskrá kvenna í spjótkasti hve útbreiðsla þess er lítil utan Evrópu. Ásdís Hjálmsdóttir er í 28. sæti á Evrópulista en í 41 sæti á heimslista. Hún kastaði rétt yfir Ólympíulágmarkið í fyrra. Það eru sem sagt einungis ca 13 spjótkastarar utan Evrópu sem hafa kastað lengra en Ólympíulágmark. Þannig er þetta allt afstætt.

Það er ánægjulegt að það hefur skapast óvenjumikil umræða um hvernig staðið er að íþróttamanni ársins. Það eru 22 karlar sem velja þennan einstakling. Þar af vinnur um helmingurinn á Stöð 2. Grínmyndir hafa verið teiknaðar af félagsskapnum með fótbolta í höfuðstað sem tilvísun til hve þeir eru boltasæknir. Farið er að tala um hve fáar konur hafa verið valdar íþróttamaður ársins á liðnum áratugum. Það er gott og blessað. Vitaskuld vill maður ekki að karl eða kona verði valin eingöngu vegna kynferðis. Það er hins vegar full ástæða til að skoða samsetningu þess hóps sem útnefnir einstaklinginn og leggjast yfir hvort ekki sé til einhver aðferð betri.

Ég er farinn að hlaupa inni í World Class. Þau Björn og Dísa styðja við bakið á mér með því að leyfa mér að æfa án greiðslu. Þeim bera þakkir fyrir það. Það er mikil munur að geta skroppið þangað inn þegar færð og verður eins og verið hefur undanfarnar vikur.

Engin ummæli: