þriðjudagur, janúar 24, 2012

Saga frá því um 1970 kemur stundum upp í hugann þegar verið er að tala um nauðsyn þess að taka upp nýjan gjaldmiðil. Þá hafði einhver stórpopparinn farið til London, líklega í Carnaby Street, og dressað sig myndarlega upp. Þegar hann stóð svo á sviðinu á næsta dansleik, uppskveraður, þótti hann heldur betur hafa skipt um ham. Björgvin Halldórsson stórsöngvari var þarna nærstaddur, hreifst ekkert sérstaklega en sagði: "Nýr jakki, sama rödd."

Í umræðu um hve krónan sé hraksmánarlega léleg og því knýjandi nauðsyn á að taka upp annan gjaldmiðil þá er eins og það gleymist gjarna að það hangir meira á spýtunni. Það má segja að árinni kennir illur ræðari. Það skiptir nefnilega afskaplega litlu máli um heilbrigði efnahagslífsins þótt tekinn verði upp nýr gjaldmiðill ef vinnubrögð breytast ekki við stjórnun efnahagsmála, agi vex og fagmennska styrkist. Það má segja að það hafi verið þokkalegt skikk á málunum þegar AGS sat nálægt stýrinu en strax að þeim gengnum fóru lausatök vaxandi. Ég veit ekki betur en Spánn, Portúgal, Ítalía, Grikkland og Írland séu öll með Evru. Engu að síður er allt í hvínandi vandræðum efnahagslega í þessum löndum. Á Spáni er t.d. um 20% atvinnuleysi. Evran er engin trygging fyrir jafnvægi og stöðugleika ef heimavinnan er ekki unnin. Af hverju Svíþjóð og Danmörk hafi haldið sinni mynt? Ætli það sé vegna sérvisku eða ætli þau sjái fram á að það gefi þeim færi á að hafa eitt stýritæki virkt ef nauðsyn krefur? Ég veit það að Finnar dauðöfunda Svíana yfir því að hafa haldið krónunni og hafa þannig möguleika á að bæta samkeppnisstöðu útflutningsgreina og dregið á þann hátt úr atvinnuleysi svo dæmi sé nefnt.

Auðvitað er krónan mjög lítill gjaldmiðill og hefur þar af leiðandi marga veikleika en skipting um gjaldmiðil ein og sér er engin lausn ef fleira hangir ekki á spýtunni. Forystumenn ASÍ hafa látið nokkuð að sér kveða í þessari umræðu og haldið þeirri skoðun fram að skipta beri um gjaldmiðil. Equador hefur verið nefnt sem dæmi um land sem hafi tekið upp USA dolla rog gefist vel. Nú þekki ég ekkert til mála í Equador en ég gogglaði landið. Equador er olíuríki og olía er helsti útflutningsatvinnuvegur landsins. Þar var atvinnuleysi 15-17%. Underemployment er 45-50%. Mér finnast þessar staðreyndir ekki alveg passa við íslenskan veruleika.

Krónan hefur kosti og galla. Gallarnir eru óstöðugleiki og að hún er ekki gjaldgeng á erlendum fjármálamörkuðum. Hún kostar. Kosturinn er m.a. sveigjanleikinn. Það er alveg á hreinu að ef við hefðum haft evru eða USD þá væri atvinnuleysi hér miklu hærra en það er í dag. Ætli það væri ekki nær 15%. Spyrja má hvers vegna? Jú, fiskútflutningur hefur styrkt stöðu sína á erlendum mörkuðum eftir hrunið og staða sjávarútvegs hefur styrkst. Staða ferðamannaiðnaðarins hefur styrkst verulega. Staða annarra útflutningsatvinnugreina hefur styrkst. Þetta með meiru hefur meðal annars haft þau áhrif að fleiri hafa vinnu en ella væri.

Baltnesku löndin voru nefnd í Silfri Eglis á sunnudaginn sem dæmi um lönd sem hefðu lægra vaxtastig en Ísland og það var þakkað tengingu við evruna. Mér fannst vanta svör við nokkrum spurningum í þeirri umræðu. Sem dæmi má spyrja hvernig hefur kaupmáttur þróast í Baltnesku löndunum annars vegar á árinum 1998-2010 og á Íslandi hin svegar? Hvernig er atvinnuleysið? hvern ig er lífeyriskerfið. Það má ekki gleyma því að það er lögskylda að miða við 3,5% raunávöxtun hjá íslenskum lífeyrissjóðum. Að lokum má spyrja hvort flytja fleiri til Íslands frá Balnesku löndunum eða frá Íslandi til þeirra?

Newfoundland, Prince Edward Island og Nova Scotia eru lönd sem við ættum að hafa í huga. Þetta eru lönd sem eru við austurströnd Kanada. Í hverju þeirra búa um 500 - 700 þúsund manns. Þau voru öll sjálfstæð ríki en misstu efnahagslegt og síðan formlegt sjálfstæði á árunum eftir seinni heimsstyrjöld. Eftir það eru þau jaðarhéröð innan Kanada. Það sem olli því að þau misstu sjálfstæði sitt voru meðal annars eftirfarandi þrjú atriði: Landbúnaðarafurðir voru að mestu leyti fluttar inn og því voru þessar þjóðir ekki sjálfbjarga um matvæli. Skipaflotinn var kominn í eigu erlendra aðila og að síðustu höfðu þau tekið upp annan gjaldmiðil. Þannig stóðust þau ekki íslendingum snúning á alþjóðlegum fiskmörkuðum. Því hrundu útflutningstekjur. Það má vel vera að það hafi fleiri faktorar komið til en alla vega er rétt fyrir okkur að skoða það vel hvað þarna gerðist. Staðreynd er að það misstu þrjú smáríki sjálfstæði sitt. Það getur endurtekið sig.

Það er frekar þungt að hlaupa í snjónum. Í góðu veðri er það þó allt í lagi og bara ágætt. Það er erfiðara og tekur meira í. Ég er að trappa mig upp smátt og smátt. Stefni að því að vera kominn á fullt sving í mars. Löppin er orðin ágæt. Ég þarf að sinna teygjum betur en ég hef gert til að liðka mig upp.

Engin ummæli: